Greinasafni: Hótel og gisting
Gesthús á Selfossi. - Kyrrðarstaður í miðbænum

Gesthús eru þyrping ellefu hlýlegra parhúsa á fallegu útivistarsvæði við Engjaveg á Selfossi. Ólafur Guðmundsson og Elísabet Jóhannsdóttir, sem eiga og reka Gesthús, hafa langa reynslu af ferðaþjónustu. Þau ráku áður gistiheimilið Bitru í Flóa en keyptu þessa sérstæðu og skemmtilegu parhúsabyggð fyrir tveimur árum.

Þegar Ólafur er spurður hvað hafi fengið þau til að færa sig til, segir hann: „Þetta er svo skemmtilegt svæði, eiginlega sveit í bæ. Það er dálítið skondið að þótt maður sé í miðjum bænum, þá er maður fyrir utan skarkalann vegna þess að í kringum útivistarsvæðið er mikill gróður og hér á tjaldstæðinu eru sérstakir hraunbollar sem eru friðlýstir. Þessir hraunbollar kallast “Grýlupottar” og hefur “Grýlupottahlaup” verið hlaupið frá íþróttavellinum umhverfis þessa potta í áratugi.“

Tjaldstæði og smáhýsi
Í Gesthúsum er boðið upp á mjög gott tjaldsvæði auk gistingar í uppbúnum herbergjum í smáhýsunum, alls tuttugu og tvö herbergi. Í hverju herbergi geta gist tveir til fjórir. „Við erum með tvenns konar útfærslu á herbergjunum. Annars vegar erum við með tvíbreitt rúm og efri koju, hins vegar rúm sem er ein og hálf breidd, efri koju og einbreitt rúm á móti. Þar geta fjórir gist. Þetta er mjög vinsæll og hagkvæmur kostur hjá fólki sem er að ferðast með börn. Á sumrin bjóðum við upp á morgunmat fyrir þá sem vilja, bæði þá sem gista í húsunum og í tjöldum. Einnig erum við með mat fyrir hópa.

Sumarárshátíð
Þessa dagana erum við að taka í notkun nýja 130 fermetra tjaldmiðstöð. Þar er salernis- og snyrtiaðstaða og einnig eldhús og borðsalur þar sem gestir okkar geta eldað sér sjálfir og setið til borðs. Einnig hafa gestir aðgang að þvottavél og þurrkara. Hjá okkur er þráðlaust netsamband og sundlaugin er í fimm mínútna göngufæri.

“ Ólafur segir nýtinguna til þessa hafa verið mjög góða, einkum í fyrrasumar. Hann segir að meirihluti gestanna sé enn sem komið er útlendingar, kannski vegna þess að Íslendingum finnist þetta ekki nógu langt úti í sveit. „En þó,“ bætir hann við, „Fornbílaklúbburinn hefur haldið árshátíð sína hér á hverju sumri, og mun gera það í fjórða sinn núna í sumar. Þá mæta þeir með allan bílaflotann sinn – raða upp bílunum þannig að úr verður ótrúlega skemmtileg sýning og gista í tvær nætur, sumir í húsum og aðrir í tjaldhýsum. Það er mikið líf og fjör í kringum þessa árshátíð.“

Vel varðveitt leyndarmál
Það má segja að Gesthús séu nokkuð vel varðveitt leyndarmál á Selfossi. Þau liggja ekkert í augum uppi þegar komið er í plássið. Þó er auðvelt að finna þau. Íþróttasvæði bæjarins er næst þessari notalegu sumarbyggð – en gróður er það mikill að hann skýlir Gesthúsunum bæði fyrir því og bænum. „Það er ótrúlegt að bænum hafi tekist að halda svona stóru grænu svæði hér inni í bæ“ segir Ólafur. „Þetta er eins konar vin, eða kyrrðarstaður í miðjunni á erilsömu samfélagi. Ég vona bara að yfirvöld hér beri gæfa til að halda í þessa perlu.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga