Greinasafni: Hótel og gisting
Gistiheimilið Fosstún. Allt innan seilingar
Allt innan seilingar Gistiheimilið Fosstún er í miðbæ Selfoss og hefur ýmsa kosti sem eru ekki endilega sjálfgefnir

Í miðbæ Selfoss, við Eyraveg, rétt
unnan við hringtorgið, við veginn í átt að Eyrarbakka er gistiheimlið Fosstún. Gistiheimilið er rekið af tveimur fjölskyldum og í forsvari eru þær Erna Gunnarsdóttir og Erla Þorsteinsdóttir. Erla segir fjölskyldurnar hafa byrjað rekstur gistiheimilisins árið 2005 en það sé aðeins rekið yfir sumartímann, frá 1. júní til 15. ágúst. 

„Okkur finnst þetta vera mjög hentugur kostur fyrir fólk sem til dæmis ferðast um á bílaleigubílum eða eigin bílum. Inni á hverri íbúð er eldunaraðstaða og baðherbergi, þannig að gestir okkar geta haft með sér mat og eldað sjálfir.“ Erla segir að enn sem komið er, séu útlendingar í meirihluta þeirra sem gista í Fosstúni og skýringin sé líklega sú að Íslendingar ferðist meira með hjólhýsi og fellihýsi. Hins vegar fjölgi íslenskum gestum jafnt og þétt, enda sé sanngjarnt verð á íbúðunum og þeir sem gist hafa í Fosstúni séu almennt mjög ánægðir. Slíkt spyrjist út.

Þvottaaðstaða
Hvað nýtingu varðar, segir Erla hana hafa verið vaxandi ár frá ári. „Við erum að fá sömu gestina aftur og aftur – sem við lítum á sem góð meðmæli. Fyrir utan að geta eldað sjálfir, geta gestir okkar sett í þvottavél og þurrkara í sameiginlegu þvottahúsi. Þetta þykir mikill kostur vegna þess að fólki finnst gott að geta þvegið af sér á ferðalögum, ekki síst þegar börn eru með í ferðinni. Það er líka alltaf önnur hvor okkar við, svo það er sólarhringsvakt í húsinu. Við leggjum metnað okkar í að hafa þetta allt snyrtilegt og höfum fengið orð á okkur fyrir að hafa hreint og fínt.“

En þótt gestir Fosstúns geti eldað sjálfir, býður Fosstún upp á möguleika á morgunverði fyrir þá sem þess óska. Þá útbúum við morgunmat í körfur sem við setjum inn í ísskáp og fólk getur síðan borðað hann inni á sínu herbergi þegar því hentar.

Erla segir gistiheimilið mjög vel staðsett. „Það er allt innan seilingar hér og stutt að ganga í sundlaugina. Hér er einnig golfvöllur rétt við bæjardyrnar. Við höfum líka verið að senda fólk í hestaferðir hér rétt utan við bæinn. Síðan er hægt að fara niður á Eyrarbakka og fá sér veiðileyfi. Eins á Stokkseyri í kajakaferðir. Svo er stutt í Gullfoss og Geysi.“

Forvitnilegt svæði
„Síðan má segja að hér á Selfossi sé ýmislegt að sjá og mikið um skemmtilegar og sérstæðar búðir, Hér rétt hjá okkur er antíkverslun og í bænum eru tvær bútasaumsverslanir það er dálítið trend hér á Selfossi að vera í bútasaum. Hér skammt frá er líka Alvörubúðin, sem er með indverskt og íslenskt handverk, hannyrðir og ýmsa handunna muni. Þetta er mjög skemmtileg og sérstæð verslun. Og ekki má gleyma Ullarsetrinu í Þingborg, hér rétt fyrir austan bæinn.

Sjónvarp og sími eru á hverju herbergi, sem og tölvutengi, eldhúsaðstaða og allt sem þú þarft til að elda, auk ísskáps sem og flísalagt baðherbergi.

Við erum með tvær tegundir af íbúðum, annars vegar tveggja manna, hins vegar fjögurra manna fjölskylduíbúðir. Þá reiknað með að börnin geti sofið í svefnsófa inni í stofu. Á hverju herbergi er flísalagt baðherbergi með sturtu.

Erla segir mismunandi hvað fólk dvelji lengi hjá þeim. „Sumir koma og ferðast út frá Selfossi, að Gullfossi og Geysi, niður á Eyrarbakka og Stokkseyri, keyra jafnvel með ströndinni út í Krýsuvík, eða leggja leið sína inn í Landmannalaugar. Það verður æ algengara að gestir okkar hafi bækistöð hjá okkur í þrjár til fjórar nætur. Sumir byrja á því að bóka eina nótt en framlengja svo þegar þeir sjá að þeir geta nýtt sér þetta sem bækistöð.“

Heimasíða Fosstúns er www.fosstun.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga