Greinasafni: Sveitarfélög
Skeiða- og Gnúpverjahreppur - Öflugt menningar- og félagsstarf

Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er ferðaþjónusta ört vaxandi atvinnugrein

Skeiða- og Gnúpverjahreppur tekur við af Flóahreppi og liggur að Hrunamannahreppi. Í sveitarfélaginu búa 530 manns og flestir stunda þar landbúnað. Þar eru tveir þéttbýliskjarnar, í Brautarholti og í Árnesi.

haifoss.jpg
Háifoss

Sveitarstjóri er Sigurður Jónsson og segir hann landbúnað helsta atvinnuveg í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, auk þess sem ferðaþjónusta fari ört vaxandi. „Við erum með tvö öflug atvinnuskapandi fyrirtæki, dvalarheimili fyrir aldraða og síðan heimili fyrir þroskahefta. Þetta eru sjálfseignastofnanir sem skapa þó nokkur atvinnutækifæri,“ segir hann og bætir við: „Síðan er hér lítils háttar iðnaður, en þó nokkuð stórt fyrirtæki í verktakabransa, jarðvinnslu og slíku.“

Smábýlalóðir
Þegar Sigurður er spurður hverjir séu helstu kostir sveitarfélagsins, segir hann: „Hér er gífurleg náttúrufegurð, friðsælt og stutt í alla þjónustu. Sveitarfélagið veitir mjög góða þjónustu, bæði hvað varðar skóla, félagslíf og menningarstarf, sem er mjög gott hér. Þetta er stórkostlegur staður fyrir börn til að alast upp á, kórastarf er hér mikið og öflugt og hér eru starfandi ungmennafélög. Auk þess eru eldri borgarar með afar öflugt starf.“

Sigurður segir sveitarfélagið eiga nóg af lóðum fyrir þá sem þangað vilja flytjast. Við höfum bæði verið að skipuleggja í þéttbýliskjörnunum og á dreifðari svæðum. Eitt af því sem er mjög spennandi hér er skipulagsvinna sem farið hefur fram fyrir smábýla- og sumarhúsalóðir, sem eru að fara í kynningu núna fljótlega. Smábýlalóðirnar eru þriggja til fjögurra hektara lóðir, fyrir fólk sem vill setjast hér að og vill geta verið með hesta, hænur, eða smávegis garðyrkju.“

Merkilegir sögustaðir
„Hér eru gífurlega merkilegir sögustaðir,“ segir Sigurður þegar hann er spurður hvað ferðamaðurinn geti dundað sér við í sveitarfélaginu hans. „Hér er Þjórsárdalurinn þar sem eru Hjálparfoss og Háifoss og minjar frá söguöld við Stöng. Nú, svo eru hérna kirkjur á báðum stöðum, bæði á Skeiðunum og í Gnúpverjahreppi og það er alltaf gaman að mæta í réttirnar. Í þessum þéttbýliskjörnum eru góð tjaldstæði og sundlaugar. Síðan er gistiaðstaða í Árnesi.

Það má segja að margir sem leggja leið sína til okkar, komi til að skoða landslagið. Hekla er hér mjög nálægt og hægt að fara í fjórhjólaferðir þangað frá Hólaskógi og inn á hálendið. Í Hólaskógi er líka gistiaðstaða. Hér eru margar göngu- og reiðleiðir. Það fer mjög vaxandi að fólk komi hingað til að fara í hestaferðir – og það eru nokkrir aðilar sem bjóða upp á slíkt. Einnig er að aukast að bændur bjóði þeim sem eru á ferð um svæðið að koma til að fylgjast með fólki að bústörfum. Um síðustu mánaðamót vorum við með „landnámsdag“ þar sem tvö býli buðu gestum og gangandi heim. Á öðrum staðnum er mjög fullkomið fjós, þar sem vélmenni sér um að mjólka kýrnar. Í Skaftholti, á heimili fyrir þroskahefta, er síðan ostagerð og þangað gat fólk farið til að kynna sér allt í sambandi við hana. Ég er alveg sannfærður um að það verður áframhald á þessu.

Hvet alla til að koma
Við erum nýbúin að opna mjög gott bókasafn í Brautarholti og þar er einnig, samhliða því, félagsaðstaða fyrir eldri borgara og önnu félagasamtök. Ég vil bara endilega hvetja alla til að koma í heimsókn til okkar og kynnast góðu og skemmtilegu sveitarfélagi.

Gjáin.jpg
Gjáin


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga