Greinasafni: Ferðaþjónusta einnig undir: Sveitarfélög
Mátulega stutt eða langt frá öllu

Í Grímsnes- og Grafnings-hreppi er stærsta sumar-húsabyggð á landinu og þar er unnið að því að byggja upp þéttbýliskjarna á Borg

Grímsnes- og Grafningshreppur markast landfræðilega af Hvítá í austri og Hengilssvæðinu í vestri. Íbúar voru við síðustu skráningu 379 og fer fjölgandi. Þéttbýliskjarnar eru á Borg, þar sem verið er að búa til heilt þorp og fer vel af stað. „Það má líka segja að Sólheimar séu býsna stór þéttbýliskjarni,“ segir sveitarstjórinn, Jón G. Valgeirsson.

Það sem einkum setur svip sinn á Grímsnes- og Grafningshrepp er gríðarmikil sumarhúsabyggð. Jón segir rétt um 2.400 bústaði í sveitarfélaginu, sem sé stærsta sumarhúsabyggð á landinu í einstöku sveitarfélagi. „Við erum aðeins stærri en Bláskógabyggð hérna fyrir ofan okkur,“ bætir hann við.

Helsti atvinnuvegur í sveitarfélaginu er landbúnaður. „Hann hefur verið grundvöllurinn hérna alla tíð og seinustu árin hefur þjónusta við hann og hina miklu uppbyggingu hér á svæðinu verið að aukast. Þá er ég að tala jafnt um jarðvinnu og smíðar. Síðan erum við með þetta hefðbundna, stjórnsýslu og þjónustu við skóla, því við erum bæði með grunnskóla og leikskóla. Á Sólheimum er líka vísir að háskólasamfélagi í tengslum við umhverfismál.“

Inni í Gullna hringnum
Ferðaiðnaðurinn er mikill og vindur stöðugt upp á sig í Grímsnes- og Grafningshreppi, eins og annars staðar á Suðurlandi. „Það er geysilega mikið rennsli hér í gegn,“ segir Jón. „Við erum í Gullna hringnum, þannig að það liggur mikil umferð í gegnum hjá okkur og við erum með þjónustu við þá umferð og sumarhúsin. Hún er stöðugt að aukast.

Og nóg er af golfvöllunum í sveitarfélaginu. Átján holu golfvellir eru á Kiðabergi og í Öndverðarnesi. Einnig er verið að byggja upp nýjan átján holu golfvöll við Borg og síðan er minni völlur niðri við Sogsvirkjanir – sem þó er aðallega nýttur af þeim sem þar búa og dvelja.

„Við liggjum að Lyngdalsheiðinni og að Skjaldbreið, þannig að það er mikil fjallaumferð hér um og inn á afrétti hjá okkur, bæði að sumri og vetri. Þá hafa menn reynt að hafa vakandi auga fyrir hestamönnum. Það eru miklar þverleiðir hér og menn hafa verið að byggja upp reiðleiðirnar til að tengjast sveitarfélögunum í kringum okkur. Hér er líka splunkuný sundlaug og íþróttahús á Borg, þar sem kominn er nýr gervigrasvöllur og á síðasta ári var sundlaugin okkar mest sótta sundlaugin á landinu.“

Vel staðsett
Í sveitarfélaginu eru engin hótel sem slík en Jón segir marga aðila reka gistiþjónustu, þeir stærstu á Minni-Borg og á Borgarsvæðinu. „Þar eru miklar þyrpingar af skálum og sumarhúsum með þjónustumiðstöðvar. Veitingasalan hefur hingað til verið mest í Þrastarlundi, Golfskálanum og á Gömlu-Borg og stöðugt verið að byggja þar upp til að auka við þá þjónustu sem þegar er til staðar.

Við erum mjög vel staðsett, og búum vel að því að vera í alfaraleið fyrir alla. Við erum mátulega langt eða stutt frá öllu. Ætli það sé ekki besta lýsingin á okkur.“

Suðurland kynningamyndband skoða hér


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga