Greinasafni: Sveitarfélög
Geymum stærstu náttúruperlur landsins
Í Bláskógabyggð eru Þingvellir, Laugarvatn, Gullfoss og Geysir – og framtíðaráætlanir bæði stórar og spennandi

Bláskógabyggð er sveitarfélag sem var formlega stofnað árið 2002 við sameiningu þriggja sveitarfélaga, Laugarvatnshrepps, Biskupstungna og Þingvallahrepps. Íbúar Bláskógaabyggðar eru rétt tæplega þúsund en þar með er ekki öll sagan sögð, því á svæðinu má ætla að sumarbústaða- og frístundahús séu að nálgast tvö þúsund.

 

Í Bláskógabyggð eru þrír þéttbýlisstaði; Laugarvatn, Laugarás og Reykholt. „Það má kannski segja að með tilliti til fjölda einstaklinga með fasta búsetu, þá er Reykholt fjölmennasti byggðakjarninn, með um 200 íbúa, síðan komi Laugarvatn með um 180 til 190 íbúa og í Laugarási eru um 160 íbúar,“ segir sveitarstjórinn, Valtýr Valtýsson.

Þetta er að mjög stórum hluta landbúnaðarsvæði og það má segja að garðyrkjan sé mjög sterk hjá okkur. Engu að síður er ferðaiðnaðurinn sú atvinnugrein sem hefur verið í hvað örustum vexti á þessu svæði. Við erum með einhverjar mestu náttúrperlur landsins og þær hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, til dæmis, Þingvellir, Laugarvatn, Gullfoss, Geysir og Skálholt. Það er því mjög eðlilegt að ferðaiðnaðurinn sé sterkur hér.“

Öll skólastig
En landbúnaðurinn er hin hefðbundna atvinnugrein í Bláskógabyggð eins og í öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi og segir Valtýr hann vissulega setja mark sitt á sveitarfélagið. „Einnig eru mörg verktakafyrirtæki starfandi hér, einkum jarðvinnuverktakar og aðrir sem eru í þjónustu við þá sem eru í framkvæmdum hér, hvort sem er við íbúða- eða frístundabyggð. Þeir hafa haft í nógu að snúast vegna þess að hjá okkur hefur verið mikil gróska á liðnum árum. Árið 2006 var alger sprengja hjá okkur í málum afgreiddum af byggingarnefnd. Á landsvísu voru flest mál afgreidd hjá okkur, eða 1.900, næst á eftir okkur kom Reykjaví með 1.400 mál. Það hefur því mikið verið í gangi hjá okkur.“

Þegar Valtýr er spurður í hvað fólk sé að sækja í Bláskógabyggð, segir hann: „Hér er afskaplega fallegt, mannlíf gott og þjónustan fjölskylduvæn. Við erum með skóla sem er starfræktur bæði í Reykholti og á Laugarvatni. Í báðum skólunum eru allir bekkir grunnskóla. Við erum einnig með leikskóla í Reykholti og á Laugarvatni, sem og alla aðra aðstöðu – til dæmis íþróttahús og sundlaug – bæði fyrir skólastarfið og almenna notkun íbúanna. Einnig höfum við notið góðs af starfsemi ríkisins, til dæmis á Laugarvatni, þar sem er menntaskóli og háskóli, það er að segja Íþróttakennarskóli Íslands. Á Laugarvatni erum við því með öll skólastig. Þetta gefur okkur ákveðna sérstöðu.

Á þessum þéttbýlisstöðum öllum njótum við jarðvarma til upphitunar húsa og nú er stefnt að rekstri heilsulindar á Laugarvatni og átaki til að efla ímynd staðarins sem heilsubæjar. Gufa ehf. stendur að uppbyggingu heilsulindarinnar. Þetta er sú ímynd sem við erum mjög ánægð með og ég held að slíkur bær ætti að geta höfðað til breiðs hóps.“Mikilvægi þvertenginga
Aðspurður hvernig staðan sé í lóðamálum í Bláskógabyggð, segir Valtýr: „Á Laugarvatni erum við að vinna að því að opna nýtt hverfi. Það er er búið að auglýsa þrjátíu og fjórar lóðir. Við erum að undirbúa okkur fyrir að hafa nógu margar lóðir til reiðu – á öllum þéttbýlisstöðunum. Við erum með lóðir á Laugarvatni, í Reykholti og Laugarási og erum að efla þjónustuna á þessum stöðum. Heilbrigðisstofnun Suðurlands rekur heilsugæslu í Laugarási, þar sem starfa læknar og hjúkrunarfræðingar. Hún er einnig með útstöð á Laugarvatni þar sem læknar og hjúkrunarfólk hefur ákveðna viðveru. Það má því segja að þarna sé öll þjónusta sem nútíma samfélag kallar eftir – og á mjög háum gæðastaðli.

Atvinnuleysi er eitthvað sem við þekkjum ekki hérna og hér hefur íbúm fjölgað, eitthvað nálægt fimm prósent árið 2007. Við lítum því björtum augum á framtíðina. Reykjavík hefur haft ákveðið aðdráttarafl, en radíus höfuðborgarsvæðisins er alltaf að stækka. Það hefur orðið gífurleg fjölgun í Hveragerði og Árborg á seinustu árum – og það hefur áhrif á allt svæðið í kring. Þetta er allt eitt atvinnusvæði og þá er spurningin í hvernig samfélagi viltu búa í og hvernig umhverfi, þéttbýli eða dreifbýli. Þá verðum við líka að horfa til samgangna, því þær eru grundvallaratriði fyrir búsetu. Þess vegna höfum við í Bláskógabyggð lagt mikla áherslu á að þvertengingar vegakerfisins verði auknar, einkum milli svæða.

Sem dæmi um slíka tengingu er Gjábakkavegurinn sem nýbúið er að bjóða út og er afar mikilvægur fyrir Bláskógabyggðina. Við erum að tengja þarna Þingvallasveit beint við Laugardalinn og sjáum við fram á að brú yfir Hvítá verði tilbúin bráðlega. Hún mun tengja Biskupstungur við Hreppana. Það eru þessar þvertengingar sem stytta vegalengdir og auka gæði búsetu. Það er ekki nóg að hafa stofnbrautir í gegnum sveitarfélög, heldur eru vegir til að tengja byggðirnar gífurlega mikils virði fyrir allan infrastrúktúr byggðarlaganna.

Með þeim framkvæmdum sem eru í gangi innan sveitarfélagsins er verið að auka lífsgæði þeirra sem búa hér. Þær veita fólki aukna möguleika á að velja sér búsetu.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga