Greinasafni: Ferðaþjónusta
Íslendingar sækja í flúðasiglingar á Hvítá

Fyrirtækið Arctic Rafting hefur safnað mikilli reynslu í rekstri ævintýraferða á Suðurlandi og eru flúðasiglingar á Hvíta þungamiðjan í rekstrinum. Eigendur Arctic Rafting eru þeir Jón Heiðar Andrésson og Torfi Yngvason og hafa þeir báðir mikla reynslu af starfi við ævintýraferðamennsku.

Torfi starfaði áður hjá Arctic Rafting, sem stofnað var 1997, og Jón starfaði hjá Bátafólkinu, sem átti sér langa sögu í ævintýraferðamennsku, en árið 2005 keyptu þeir bæði fyrirtækin og sameinuðu undir nafni Arctic Rafting. Torfi segir að fyrirtækið byggi þannig á gömlum merg, en Bátafólkið hóf flúðasiglingar á Hvítá frá Drumboddsstöðum fyrir 23 árum og var frumkvöðullinn í ævintýraferðamennsku hér á landi. “Það er mikil samkeppni í dag í alls kyns ævintýraferðamennsku og afþreyingu, en það eru einungis við sem bjóðum upp á flúðasiglingar á Suðurlandi,” segir Torfi.

Flúðasiglingar á þremur stórfljótum
Arctic Rafting sér um flúðasiglingar á þremur stórfljótum á Suðurlandi, en það eru Hvítá, Markarfljót og Hólmsá. Flúðasigling á Hvítá hefur lengi verið ein vinsælasta ævintýraferðin sem boðið hefur verið upp á hér á landi, en siglingar um ægifögur gljúfur Markarfljóts og ferðir niður Hólmsá njóta sívaxandi vinsælda. Torfi segir að um það bil helmingur þeirra sem fari í flúðasiglingu á Hvítá séu Íslendingar sem alltaf hafi gaman af að koma og spreyta sig á ánni. Í apríl og maí sé mikið um að starfsmannahópar komi, og í maí koma um 40% af öllum þeim sem eru að útskrifast úr 10. bekk grunnskóla. Yfir sumartímann eru þátttakendur í flúðasiglingunum aðallega ferðamenn sem eru á eigin vegum, en á haustin koma svo stærri hópar á nýjan leik.

Fjölbreyttir valkostir
Þótt meginþunginn í starfsemi Arctic Rafting sé flúðasiglingarnar þá býður fyrirtækið upp á margvíslega aðra ævintýraferðamennsku. Þannig geta ferðahópar, starfsmannahópar, fjölskyldufólk og erlendir sem innlendir ferðamenn af hvaða tagi sem er fundið sér eitthvað sem höfðar til þeirra. Meðal þess sem í boði er hjá Arctic Rafting auk flúðasiglinganna eru hellaferðir á Lyngdalsheiði, kanóferðir og kajakferðir, klettaklifur í Hvalfirðir, ísklifur í Sólheimajökli, snorkelköfun í Silfru á Þingvöllum, gönguferðir í nágrenni Reykjavíkur og hjólaferðir í Reykjavík.

Í hellaferðum eru undirheimar hraunbreiðurnnar milli Þingvalla og Laugarvatns kannaðir og er Gjábakkahellir gott sýnishorn af íslenskum hraunhelli. Í ferðinni þurfa þátttakendur að klifra, skríða og ganga um hellinn og því er þetta tilvalin afþreying fyrir þá sem ekki eru myrkfælnir.

Kanóferðir á Hvítá eru ný tegund afþreyingar á Íslandi, en kanóarnir eru uppblásnir og losa sig sjálfir af vatni og er því fyrri reynsla af slíkum siglingum ekki nauðsynleg. Tveir sitja í hverjum bát og stýra þeir sjálfir kanóinum niður Hvítá, en með þim fylgist leiðsögumaður á kajak.

Arctic Rafting er fyrst íslenskra ævintýrafyrirtækja til að bjóða upp á snorkelköfun og fer þessi afþreying fram í gjánni Silfru á Þingvöllum, sem er einn af fegurstu köfunarstöðum heims. Ferðamenn synda þar í sérstökum þurrgöllum í kristaltæru bergvatni með öndunarpípu í munni sér og geta þeir þannig notið umhverfisins neðan vatnsborðsins. Allkir eru með froskalappir og eiga því auðvelt með sund.

Í klifurferðum sem boðið er upp á í Eilífsdal í Hvalfirði eru þátttakendur í sérstöku öryggisbelti sem tengir þá við öryggislínu sem leiðsögumaður stjórnar. Þannig fá allir að reyna að klifra upp þverhníptan klettavegg án

þess að nokkur hætta sé á ferðum. Í ísklifri á Sólheimajökli klæðast þátttakendur einnig sérstöku öryggisbelti sem tengir þá við öryggislínu sem leiðsögumaður stjórnar. Reynt er að klífa upp þverníptan ísvegg með ísöxi í hendi á áhættulítinn hátt og allir eru með mannbrodda svo hægt sé að fóta sig á hjarninu.

Leiðsögumannaskóli
Hjá Arctic Rafting eru 19 starfsmenn í föstu starfi og um 80 manns í hlutastarfi. Torfi segir að þetta sé allt vant fólk sem gjörþekki fjallamennsku og ævintýramennsku af öllu tagi.

“Við höfum líka rekið eigin leiðsögumannaskóla í mörg ár þar sem við kennum og ölum upp leiðsögumenn framtíðarinnar, og auk þess höldum við margvísleg námskeið sem eru mjög eftirsótt og þar hafa færri komist að en vilja,” segir Torfi Yngvason.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga