Bjór sem leikur við bragðlaukana
Skjálfti er nýr íslenskur sælkerabjór sem kominn er á markað hér – og í Danmörku. Hann er framleiddur í Flóanum, í Ölvisholti, sem hlýtur að teljast viðeigandi

Frá vinstri Jón Elías Gunnlaugsson frá Ölvisholti eigandi, Ingveldur Birgissdóttir stafsmaður. Valgeir Valgerisson, bruggmeistari. Bjarni Einarsson frá Miklholtshelli, eigandi.

Í Ölvisholti í Flóahreppi er risin bjórverksmiðjan Brugghús og óhætt er að segja að fyrirtækið fari vel af stað með fyrstu afurð sína, sem er sækerabjórinn Skjálfti. Hann kom til prufu í verslanir ÁTVR 1. mars síðastliðinn en hefur þegar náð að festa sig í sessi meðal landsmanna. Eigendur Ölvisholts brugghúss hafa verið áhugamenn um bjór í áraraðir. Þá langaði til að eignast brugghús og renna á sama tíma stoðum undir atvinnulíf í sveitinni. Uppsetning á verksmiðjunni hófst síðastliðið sumar þegar þeir tóku gamla flatgryfju, hlöðu og hesthús og breyttu því í brugghús. Framleiðslan hófst síðan 22. desember á síðasta ári.

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Bjarni Einarsson og þegar hann er spurður hvort ekki hefði verið til nægur bjór hér fyrir segir hann: „Ekki sælkerabjór. Okkur fannst vanta sælkerabjór í íslenska bjórmenningu; bjór sem leikur við bragðlaukana. Við notum bara besta hráefni.

Það má segja að Brugghúsið hafi farið af stað í gríðarlegum meðbyr og virðist hann meira að segja hafa komið eigendum Brugghússins gleðilega á óvart. „Já, við erum í skýjunum yfir því hvað Íslendingar hafa tekið vel á móti okkur og að Danir skyldu sjá möguleika á því að setja bjórinn okkar á markað í Danmörku.

Ef við berum þetta saman við matreiðslu, þá getur þú alveg keypt þér skyndirétt út í búð, en þú getur líka fengið þér að borða hjá matreiðslumeistara sem leggur allan sinn metnað í framreiðsluna, þannig að maturinn leikur við hvern bragðlauk. Þetta er svona svipað hjá okkur. Það er engin sjálfvirkni í ferlinu, við erum með sérstakan bruggmeistara sem stýrir ferlinu af mikilli kostgæfni og getur gripið inn í allt ferlið hvenær sem er, til að útkoman verði alltaf sú besta mögulega.“

Kátir með viðtökur
Sem fyrr segir fór Skjálfti til reynslu inn í tvær verslanir ÁTVR 1. Mars síðastliðinn. Það tók fyrirtækið stuttan tíma að ná því lágmarki í sölu sem til þarf til að komast inn í flestar verslanirnar. Það gerðist 1. apríl. „Við erum að vonum mjög kátir. með að það skyldi bara taka okkur fimm vikur að ná þessu lágmarki og í skýjunum yfir því hvað okkur hefur verið vel tekið á hinum íslenska markaði,“ segir Bjarni. Aðspurður hvað Skjalfti hafi umfram aðra íslenska bjóra, segir hann:

„Við erum í sjálfu sér ekki að keppa við annan bjór, heldur sjáum okkur sem viðbót. Bjórinn okkar er þó að mörgu leyti ólíkur þeim bjór sem fyrir er. Við erum með fimm mismunandi tegundir af korni og það er þetta sérstaka bragð sem kemur af bjórnum í öllu ferlinu. Við bætum engum efnum út í hann og þetta er fyrsti íslenski sælkerabjórinn.“

Enn sem komið er framleiðir Brugghúsið aðeins Skjálfta en stefnt er að því að koma með fleiri tegundir í náinni framtíð. „Við vildum byrja á því að tryggja fótfestu Skjálfta á íslenskum markaði áður en við héldum áfram – og vonum að Íslendingar séu sammála okkur um að bjórinn okkar sé alveg þess virði,“ segir Bjarni.

Gæðastimpill fyrir okkur – og íslenska vatnið
Hvað útflutning varðar, þá stefna Bjarni og félagar vissulega á hann og hafa byrjað hann í smáum stíl. „Við gerðum samning við Gourmet Bryggeriet í Danmörku. Þeir hjálpuðu okkur við uppsetningu á verksmiðjunni og munu kaupa hundrað þúsund lítra á ári af okkur.“

Það má segja að Brugghúsið hafi farið af stað í gríðarlegum meðbyr og virðist hann meira að segja hafa komið eigendum Brugghússins gleðilega á óvart. „Já, við erum í skýjunum yfir því hvað Íslendingar hafa tekið vel á móti okkur og að Danir skyldu sjá möguleika á því að setja bjórinn okkar á markað í Danmörku. Sumir hér vilja meina að þetta sé eins og að flytja kaffi til Brasilíu – en við erum sammála Dönum. Viðtökur Dana eru mikill gæðastimpill fyrir brugghúsið og framleiðslu okkar – sem og fyrir íslenska vatnið.“

Boðið upp á kynnisferðir
Hjá fyrirtækinu eru fjórir starfsmenn í vinnu. Brugghúsið framleiðir þrjú hundruð þúsund lítra á ári, enn sem komið er, og er með trygga sölu á því magni – „svo lengi sem Íslendingar halda tryggð sinni við okkur,“ segir Bjarni.

Brugghúsið er í Ölvisholti, eins og fyrr segir, aðeins tólf kílómetra austan við Selfoss. Þegar Bjarni er spurður hvort gestir og gangandi geti fengið að skoða brugghúsið, jánkar hann því. „Við bjóðum upp á kynnisferðir fyrir hópa í húsið. Það kostar þúsund krónur á mann og inn í því felst kynning á því hvernig framleiðslan gengur fyrir sig. Síðan fær hver og einn að smakka almennilega á framleiðslu staðarins. Lágmarksfjöldi sem við tökum á móti er tíu manns. Annars eru allar nánari upplýsingar á www.brugghus.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga