Greinasafni: Sveitarfélög
Flóahreppur - Blómleg sveit með laxveiði og skemmtilegum búðum

Flóahreppur er vel staðsettur í túnfæti Selfoss og stutt frá Reykjavík

Flóahreppur liggur á milli Þjórsár og Hvítár og að hreppamörkum Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Árborgar. Íbúar eru 585 samkvæmt áætlun frá Hagstofu. Enginn þéttbýliskjarni er í sveitarfélaginu „en það má segja að þetta sé þéttbýlt sveitarfélag, þótt svæðið sé nokkuð víðfeðmt,“ segir sveitarstjórinn, Margrét Sigurðardóttir.

Myndin er frá leiksýningunni Gilitrutt sem var í tengslum við Fjör í Flóa um síðustu helgi.

Margrét segir landbúnað ennþá helstu atvinnugreinina en bætir við: „Hins vegar kýs fólk í auknum mæli að flytja úr þéttbýli og setjast að í sveitarfélagi eins og Flóahreppi og ferðast þaðan til vinnu. Ég sé mikla aukningu á því.“

Víðáttan óendanleg
Í Flóahreppi eru bæði leikskóli og grunnskóli og það er óhætt að segja að fjölbreytnin sé sífellt að aukast hvað atvinnutækifæri varðar því fyrir rúmu ári var bruggversmiðju hleypt af stokkunum í Ölvisholti og hefur bjórnum þaðan, Skjálfta, verið vel tekið af landsmönnum. Margrét segir verksmiðjuna ánægjulega viðbót við uppbygginguna sem hefur átt sér stað á síðustu misserum. „Hér er líka blikksmiðja, leikfangaverksmiðja og allt mögulegt og síðan er það ferðaiðnaðurinn sem er alltaf að stækka. Þá er það Ullarvinnslan í Þingborg. Hún er mjög vinsæll viðkomustaður enda vinna konurnar sem að henni standa sjálfar ullina frá upphafi til enda.“

Helstu söfn eru Íslenski bærinn í Meðalholti og Tré og list í Forsæti – en í Flóahreppi eru líka nokkuð sérstæðar verslanir. Þar má nefna litlu sveitabúðina, Sóley, sem er ekki með matvöru, heldur smávöru fyrir sumarbústaði og heimili, sem og íslenskt handverk og alls kyns listmuni. „Við erum með frábært tjaldstæði í Þjórsárveri, sekmmtilegar gönguleiðir og frábært útsýni. Víðáttan hjá okkur er óendanleg og fjallasýnin frábær. Það nýjasta í ferðaþjónustu hjá okkur er síðan fjárhús sem eru opin ferðamönnum í Egilsstaðakoti.“ segir Margrét.

Góðar göngu- og reiðleiðir
Hvað gönguleiðir varðar má til dæmis nefna Ásaveg sem liggur milli Orrustudals og Hnauss, um sex kílómetra löng forn þjóðleið. Einnig eru góðar reiðleiðir í Flóahreppi meðfram Þjórsá og hestaleiga er á Egilsstöðum I, nærri skemmtilegum reiðleiðum. „Við erum líka með fjórar kirkjur í sveitarfélaginu, ákaflega fallegar litlar sveitakirkjur í Hraungerði, Villingaholti, Gaulverjabæ og Laugardælum.. Heilmikil veiði er bæði í Þjórsá og Hvítá, báðar árnar eru laxveiðiár og bændur eru bæði að selja veiðileyfi og selja lax. Hægt er að keyra upp að ýmsum bæjum og kaupa lax.

Þá eru hér sögufrægir staðir hér eins og Kambur, Orrustudalur, Þingdalur og Loftsstaðir.“

Þegar Margrét er spurð hvað einkenni helst Flóahrepp, segir hún: „Það sem fyrst og fremst einkennir sveitina er hversu blómlegt landbúnaðarhérað hún er , í nánasta nágrenni við þéttbýlið. Við erum í túnfæti Árborgar og það er stutt til Reykjavíkur.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga