Greinasafni: Sveitarfélög
Náttúran blíð og mannlíf gott

Sveitarstjóri Hrunamannahrepp á Flúðum segir samfélagið bjóða upp á marga kosti fyrir ferðamenn og þá sem hyggja á búsetuskipti

“Þetta er lifandi og skemmtilegt starf, kröftugt samfélag og fjölbreytilegt. Í Hrunamannahreppi er átta hundruð manna samfélag en það virkar stærra,” segir Ísólfur Gylfi Pálmason sem verið hefur sveitarstjóri þar frá 1. desember 2003. “Ástæðan er kannski sú að það er mikil samvinna milli sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu og Flóa. Þau hafa sameiginlegan ferðamálafulltrúa, skipulags- og byggingafulltrúa, sem og félagsmálastjóra. Þetta er mjög þróuð samvinna. Frístundabyggðin er einnig heilmikil hér og fólk sækir í bústaðina árið um kring”.
Helstu kosti þess að búa í hreppnum segir Ísólfur Gylfi náttúruauðlindir eins og heita vatnið skipta samfélagið höfuðmáli, auk þeirrar miklu verðursældar sem hér er, að ekki sé minnst á náttúrufegurðina og þess góða mannlífs sem þar er.

“Það sem gerir mannlífið gott er ýmis konar félagsskapur sem skiptir miklu máli,” segir Ísólfur Gylfi. “Hér er öflugt ungmennafélag, kvenfélag, kíwanisklúbbur og síðan er afar sterk sönghefð. Við höfum starfandi mjög öfluga karlakór, Karlakór Hreppamanna – og blandaðan kór, sem heitir Vörðukórinn. Síðan erum við með Uppsveitasystur og óvenjulega virkan kirkjukór – og eins og við vitum er söngur eitthvert mesta hópefli sem hægt er að hugsa sér. Fyrir því er afar löng og góð hefð hér í hreppnum.”

Fjölbreyttir gistimöguleikar
Þeir kostir sem Flúðir búa yfir gera samfélagið að einkar skemmtilegum viðkomustað fyrir þá sem eru á ferð um suðurland. Og þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hvað varðar mat og drykk. “Á Flúðum er mjög myndarlegt hótel sem býður upp mat og þjónustu eins og gerist best á Íslandi, þau Margrét og Guðmundur kunna svo sannarlega til verka” segir Ísólfur. “Hér er líka gistiheimilið Grund, sem er einnig með mjög góða þjónustu.” Því má bæta við að á Grund er veitingasla, boðið upp á almennan heimilismat og eru eigendurnir, þau Dagný og Kristinn, einstaklega góðir kokkar. Gistiheimilið er fallegt og þjónustan skemmtileg. Rétt utan við Flúðir er síðan bændagisting í Syðra-Langholti þar sem einnig er hestaleiga, sem og á Dalbæ. Í Syðra-Langholti er bæði hægt að leigja hesta í dagstund og fara í skipulagðar ferðir.                                                                                                                Ísólfur Gylfi Pálmason

Hestaleiga og tveir golfvellir
“Það verður líka að teljast merkilegt að á svæðinu eru tveir golfvellir,” segir Ísólfur, “annars vegar átján holu golfvöllur í Efra-Seli og hins vegar níu holu golfvöllur í landi Ásatúns. Síðan erum við auðvitað með sundlaug og góða íþróttaaðstöðu, sem og merktar gönguleiðir allt í kringum byggðina. Á sumrin eru skipulagðar gönguferðir um þessar leiðir þar sem heimamenn eru leiðsögumenn. Það eru fjölbreytilegir staðir í hreppnum sem gengið er um. Þetta eru léttar ferðir sem taka mismunandi langan tíma, kannski frá tveimur tímum upp í sex.” Fyrir þá sem hyggja á dvöl á Flúðum til að njóta alls þess sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða, skal bent á að skoða www.fludir.is þar sem finna má gönguáætlun heimamanna. Það er virkilega þess virði.

Ísólfur bendir líka á að einnig sé afréttur Hrunamanna ákaflega fallegur. “Þar eru leiltarmannaskálar sem eru mjög mikið notaðir á sumrinu, sérstaklega af hestamönnnum, sem og gangandi og akandi vegfarendum. Svo eru Kerlingafjöllin í Hrunamannahreppi og þar er mikið um að vera á sumrin í sambandi við göngur og náttúruskoðun.”

Listagarður í farvatninu
Hvað tjaldstæði varðar segir Ísólfur nýtt tjaldsvæði í uppbyggingu sem verði væntanlega tekið i notkun vorið 2009 en gamla tjaldsvæðið verði auðvitað nýtt áfram í sumar. “Á gamla tjaldsvæðinu sem er við félagsheimlið, er gert ráð fyrir listagarði í framtíðinni. Þar verður sett upp verk eftir Helga Gíslason. Auk þess sem komið hafa upp hugmyndir um að tengja verk Einars Jónssonar frá Galtarfelli frekar við svæðið – en það er nú þegar komið eitt fallegt listaverk eftir hann við Félagseimilið sem heitir Alda aldanna. Garðurinn verður trjágarður, svokallað tegundasafn, og er alveg sérhannaður af landslagsarkitekt, Finni Kristinssyni hjá Landslagi. Það var gömul kona, Laufey Indriðadóttir sem gaf peninga til að þessi garður yrði að veruleika til minningar um systkinin frá Ásatúni og tengir trjásafnið gamalgróna garða svokallaðan kvenfélagsgarð og ungmennafélagsgarð. Tjaldsvæðið verður flutt niður með Litlu-Laxá og er stefnt að því að það verði fimm stjörnu tjaldstæði. En það er ekki sveitarfélagið sem er að byggja upp tjaldstæðið nema að litlum hluta, heldur einstaklingar og þeir koma til með byggja það upp og reka. Þetta er fólk með mismunandi reynslu og forsendur og hefur alla burði til að gera þetta vel. Í gegnum tíðina hafa Flúður verið mjög vinsæll viðkomustæður, bæði fyrir ferðamenn tjald- og hjólhýsi og verður það vonalega áfram.

Gestir og heimamenn koma saman
Á Flúðum geta gestir og gangandi gert sér glaðan dag með heimamönnum, því hér er sveitakrá sem heitir Útlaginn og hefur eigandinn lagt metnað sinn í að bjóða sem oftast upp á lifandi tónlist. Sem dæmi, þá tóku Hjálmar upp síðustu plötu sína á Flúðum. Við fáum mikið af þekktum og virtum tónlistarmönnum alls staðar að af landinu í heimsókn.”

Flúðir eru góður kostur fyrir þá sem eru að huga búsetuskiptum. Veðursældin og lágur húshitunarkostnaður verða að teljast miklir kostir, auk þess sem fasteignaverð er gott, svipað og á Selfossi. “Við erum nánast búin með þær lóðir sem við höfðum,” segir Ísólfur, “en það er verið að skipuleggja ný íbúðasvæði í landi Sunnuhlíðar og Laxárhlíðar og hungsanlega á fleiri stöðum.” Aðspurður hvort áætlanir séu uppi um byggingu fjölbýlishúss, segir Ísólfur engar áætlanir um slíkt eins og er. “Það eru deildar meiningar um byggingu fjölbýlishúsa á Flúðum vegna þess að þar hefur ekki verið fjölbýlishúsastíll frekar en öðrum þorpum á Íslandi framtíðin verður að skera úr um byggingarstílinn.”

Barnvænt samfélag
Það þarf varla að taka fram að það er ákaflega gott að ala upp börn á stað eins og Flúðum. “Við erum með fínan, nýjan og glæsilegan leikskóla, sem er hugsaður til framtíðar og því nóg rými í honum,” segir Ísólfur. “Í grunnskólanum eru núna um tvö hundruð nemendur. Hann var byggður um 1970 og eitt af framtíðarverkefnum okkar eru að stækka hann og bæta. Við erum með góða kennara og stjórnendur og skólinn hefur komið vel út í samrædum prófum.

Íþróttalíf er mjög blómlegt og tónlistarskólinn okkar öflugur. Börnin eru mjög virkir þátttakendur í mannlífinu. Við erum árvisst með samkomur þar sem allar kynslóðir eru þátttakendur, bæði á aðventunni sem og Sönghátíðinni okkar á vorin. Íþróttafélagið okkar, Ungmennafélag Hrunamanna er sterkt og nú nýlega var körfuknattleiksdeildin að vinna sig upp í fyrstu deild – sem er frábær frammistaða í ekki stærra samfélagi. Þar fyrir utan er æfð knattspyrna, fimleikar, frjálsar íþróttir og eiginlega allar íþróttagreinar.”

Fjölbreytt flóra í landbúnaði
Hvað atvinnulíf varðar segir Ísólfur að það þyrfti að vera enn fjölbreytilegra. “Í hreppnum er stundaður hefðbundinn landbúnaður. Þar eru mörg nútímafjós, garð og ylrækt og iðnaður í gegnum Límtrésverksmiðjuna, verslun og þjónusta. Ferðaiðnaðurinn er alltaf að aukast og eflast. Við verðum mikið vör við aukningu ferðamanna til okkar, bæði innlendra og erlendra. Svo eru heilmiklar frístundabyggðir mjög víða í hreppnum.

Inni í þorpinu nokkuð mikið af garðyrkju og flóran mjög fjölbreytt. Framleiðsluvaran er mjög góð, svo góð að innflytjendur grænmetis stæla innlendar pakkningar til að blekkja neytendur.

Íbúa-aukningin á Flúðum og í hreppnum öllum hefur fylgt landsmeðaltali og stundum verið yfir því. Þegar Ísólfur er spurður eftir hverju fólk sé að sækjast þegar það flytur til Flúða, segir hann allan gang á því. “Á Íslandi í dag er að verða nokkuð algengt að fólk hafi tvöfalda búsetu, eigi heimili í borg og sveit og ég er nokkuð viss um að það er ekkert langt í að fólk geti fengið að skrá lögheimili sín á fleiri en einum stað, þannig að tekjur jafnist á milli sveitarfélaganna. En á Flúðum mundi halda að fólk væri að sækjast eftir fallegu umhverfi, veðursæld og vinsamlegu og góðu mannlífi.”


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga