Þéttbýlt í Þjórsárdal

Tímabilið 870-930 hefur verið kallað landnámstímabilið enda staðhæfir Ari fróði í Íslendingabók sinni að landið hafi á því tímabili orðið albyggt. Blómlegar byggðir risu um allt land og var Þjórsárdalur þar engin undantekning en í dalnum var blómleg byggð fyrr á öldum. Til eru heimildir um landnám Þorbjarnar en Landnáma segir frá honum á eftirfarandi hátt:

“Þorbjörn laxakarl nam Þjórsárdal allan og ofanverðan Gnúpverjahrepp og bjó hinn fyrsta vetur að Miðhúsum. Hann hafði þrjár vetursetur áður en hann flutti í Haga, þar bjó hann til dauðadags. Hans synir voru þeir Otkell í Þjórsárdal og Þorkell trandill, faðir Gauks á Stöng, og Þorgils, faðir Otkötlu, móður Þorkötlu, móður Þorvalds, föður Döllu, móður Gizurar biskups.”

Afkomendur Þorbjarnar voru þannig bæði auðugir, vel ættaðir og að líkindum mestir höfðingjar í hinum blómlega Þjórsárdal. Þeirra frægastir eru Gissur Ísleifsson biskup og Gaukur á Stöng, sem var afkomandi Þorbjarnar laxakarls í þriðja lið og að sögn kappi hinn mesti. Gaukur hefur að líkindum verið kvennaljómi en gömul vísa er varðveitt um ástir Gauks og húsfreyjunnar á Steinastöðum í Þjórsárdal, svohljóðandi:

Þá var öldin önnur,
er Gaukur bjó á Stöng.
Þá var ei til Steinastaða
leiðin löng.

Þetta ástarævintýri hefur þó sennilega orðið honum að fjörtjóni en samkvæmt Njálssögu féll Gaukur fyrir hendi Ásgríms Elliða-Grímssonar fóstbróður síns, að líkindum fyrir að hafa fíflað húsfreyjuna á Steinastöðum sem var einmitt skyld Ásgrími.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga