Greinasafni: Sveitarfélög
Náttúruperlur, sögustaðir og fjölbreytt mannlíf

Fimm sveitarfélög í uppsveitum Árnessýsslu hafa samstarf um ferðamál, skipulags- og byggingarmál, sem og félagsmál.
Sigurður Ingi Jóhannssson dýralæknir og oddviti í Hrunamannahreppi er í Árnessýslu gjarnan kallaður oddviti oddvitanna. Hann er gjarnan í forsvari fyrir þeim fimm sveitarfélögum í uppsveitunum sem hafa sameiginleganrekstur. Sveitarfélögin eru Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafnings-hreppur, Gnúpverja- og Skeiðahreppur, Hrunamanna-hreppur og svo er Flóahreppur kominn í samstarfið sem snýst um ferðamál, skipulags- og byggingarmál og reyndar félagsmál líka. Uppsveitirnar fjórar eru 6.300 ferkílómetrar, þannig að sveitarfélögin fimm ná yfir um sex prósent landsins – með hálendinu.Það er óhætt að segja að uppsveitirnar búi yfir sumum helstu náttúruperlum landsins, Þingvöll, Gullfoss, Geysi, Þjórsárdal og Kerið. “Þetta eru nú bara náttúruperlurnar sem allir verða að skoða,” segir Sigurður Ingi. “Sumir koma hingað á hverju ári, eða nokkrum sinnum á ári til að skoða þær. Fyrir utan þessar náttúruperlur erum við með sögustaði, Þingvöll og Skálholt, sem og prestsetur eins og Hruna og Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal. Svo geta menn haft áhuga á að skoða hálendið og þá er hægt að keyra um allt , fara á Langjökul og Skálpanes, Kerlingarfjöll, og auðvitað er líka hægt að fara í gangnamannaskálana og skoða eitt og annað á hálendinu. Við erum með þó nokkuð af merktum gönguleiðum, bæði á Þingvöllum, ýmsar leiðir á Kili og í Kerlingarfjöllum eru allt að fimm daga leiðir en núna er einmitt verið að gefa út göngukort fyrir Hrunamannahrepp. Síðan eru það Þjórsárdalurinn og skógræktin og auðvitað er hægt að fara inn Þjórsárdal og skoða allar virkjanirnar. Það er mjög áhugavert og þeir eru margir sem leggja leið sína þangað.”

Fjölbreyttir afþreyingarmöguleikar
“Byggðin sjálf er einnig afar áhugaverð. Við erum með hestaleigur á þó nokkuð mörgum stöðum, auk annars konar afþreyingar, til dæmis fjórhjólaferðir, flúðasiglingar og veiði. Hér er mikið heitt vatn og margar sundlaugar svo það er auðvelt að þrífa sig.”

Í svetiarfélögunum fimm búa um þrjú þúsund manns. Það er vöxtur á svæðinu og í flestum sveitarfélögunum hefur hann verið viðvarandi í nokkurn tíma, að sögn Sigurðar. “Allir þéttbýliskjarnarnir, sem eru þó nokkuð margir, fara ört vaxandi. Fólk er að velja sér búsetu á þessum svæðum til að leita að sveitakyrrð og rómantík, nánd við náttúruna. Hér er stutt í alla þjónustu og öflugt menningar- og félagslíf.”

Sigurður segir fólk flytja í uppsveitirnar hvaðanæva af landinu, bæði höfuðborgarsvæðinu og annars staðar af landinu og þetta sé fólk á öllum aldri. “Sumir eru að koma sér upp tvöfaldri búsetu, aðrir hreinlega að koma sér upp heimili í vinsamlegu og góðu umhverfi. Atvinnulíf er ekki fjölbreytt eins og er, heldur byggir það á þessum grunngreinum í landbúnaði og síðan skólunum. Í uppsveitinum er hægt að vera allt frá leikskóla og upp í háskóla og síðan vex ferðaþjónustan alveg gríðarlega. Það merkjum við á milli ára.”

“Þetta eru nú bara náttúruperlurnar sem allir verða að skoða,” segir Sigurður Ingi. “Sumir koma hingað á hverju ári, eða nokkrum sinnum á ári til að skoða þær. Fyrir utan þessar náttúruperlur erum við með sögustaði, Þingvöll og Skálholt, sem og prestsetur eins og Hruna og Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal

Sterkar hefðir
Við réðum ferðamálafulltrúa 1996 og fórum af stað með stefnumótun í ferðamálum. Síðan tókum við hana aftur upp 2000 þar sem við fórum yfir stöðuna og þá hafði orðið alveg gríðarlegur vöxtur og eiginlega allar forsendur og væntingar sem menn höfðu gefið sér voru orðnar að veruleika. Þá settum við markið auðvitað enn hærra. Ein ástæða þess hversu vel okkur hefur gengið að marka stefnu í markaðssetningu og fylgja henni eftir er sú hvað við höfum notið þess að hafa ferðamálafulltrúann, Ásbjörgu Arnþórsdóttur, lengi í starfi. Hún er mjög öflug kona.

Þeir sem vilja koma hingað aftur og aftur, kaupa sér gjarnan sumarhús og hér eru stærstu sumarhúsabyggðir landsins, í Grímsnesi, Grafningi og Þingvöllum svo eitthvað sé nefnt. Vöxtur sumarhúsabyggðanna hefur líka færst hinum megin við Hvítá.

Aðspurður í hverju blómlegt menningarlíf felist, segir Sigurður gríðarlega sterka sönghefð og kórahefð í öllum þessum sveitarfélögum og að grunnur gamla bændasamfélagsins, ungmennafélög, kvenfélög, Lionsfélög, búnaðarfélög, og leiklistarfélög, hafi haldið áfram að dafna og blómstra mjög vel. “Íþróttalíf er afar öflugt og það má segja að allir sem kæra sig um hafi nóg við að vera. Atvinna er nokkuð stöðug og okkur hefur oft vantað fólk. Það er mikið af nýbúum hér eða farandverkamönnum erlendum, sem setja svip á byggðina. Hún er að verða mjög fjölmenningarleg.”Ferðaþjónustan öflugust
“Landbúnaður er auðvitað sterkasta atvinnugreinin hjá sveitarfélögunum austan Hvítár en ég hugsa að ferðaþjónusta sé orðin öflugri í vesturhlutanum. En fyrir utan landbúnaðinn er ferðaþjónusta, er önnur þjónusta eins og skólakerfið helsti atvinnuvegur. Svo er iðnaður mjög öflugur, sérstaklega á Flúðum og í Reykholti.

Hvað landbúnaðinn varðar, gæti ég trúað að um áttatíu prósent af grænmetisræktuninni á landinu sé á þessu svæði – sem þýðir að landgæði og veðurfar er mjög gott.”


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga