Greinasafni: Hótel og gisting einnig undir: Veitingar
Þjónandi forysta – Syngjandi kirkja

Sumarstarfið í Skálholti einkennist af námskeiðum og ráðstefnum en þar er þó alltaf nóg pláss fyrir gesti og gangandi og kirkjan alltaf opin!

Það er alltaf mikið um að vera í Skálholti á sumrin og varla hægt að hafa tölu á öllum þeim ferðamönnum sem þangað sækja, bæði innlendum og erlendum. Og sumarið er vissulega komið þar eins og annarsstaðar í ferðaþjónustunni en hófst þó með öðrum hætti en gengur og gerist. Það má segja að það hafi gerst um síðustu mánaðamót“ segir Kristinn Ólason rektor Skálholtsskóla, „og afmarkast af því að hingað kom hópur nemenda, frá Meredith College í North Carolina í Bandaríkjunum; fjórtán nemendur, auk tveggja kennara, sem dvelja hér í heilan mánuð.Þau fá sína kennslu í miðaldasögu Íslands og skrifa lokaritgerð sína um hana, en hún jafngildir BA-ritgerð hjá okkur. Þau fengu það verkefni að skrifa eitthvað um miðaldasögu Evrópu og völdu Ísland. Þetta fer mjög vel af stað, en þeim er að hluta til kennt í gegnum netið frá Bandaríkjunum. Svo halda þessir tveir kennarar sem eru með þeim kennslustundir hér. Þar að auki höfum við fengið nokkra íslenska kennara til að hitta þau.

Kristinn Ólason rektor Skálholtsskóla. Mynd Ingó

Samband yfirmanns við starfsmenn
Næsta stóra verkefni sem er á döfinni í Skálholtsskóla er stór dagsráðstefna sem verður haldin þann 20. Júní, um þjónandi stjórnun (Servant Leadership). „Það er áhugahópur um þjónandi stjórnun sem stendur fyrir ráðstefnunni, segir Kristinn. „Í þeim hópi eru séra Auður Eir, Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ, Sigrún Gunnarsdóttir á skrifstofu forstjóra Landspítalans og Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, auk mín. Þetta er dagskrá sem byrjar í hádeginu þann 20. júní og stendur fram yfir kvöldmat. Hingað koma þrír gestafyrirlesarar frá Bandaríkjunum sem munu fjalla um efnið en þessi dagskrá er einkum ætluð stjórnendum á heilbrigðissviði, opinberra stofnana, sveitarfélaga og kirkjunnar. Við búumst við um eitt hundrað og fimmtíu manns á þessa ráðstefnu.“ En hvað er þjónandi stjórnun?

„Þetta er ákveðin aðferðafræði við að stjórna fyrirtæki og skilgreinir meðal annars samband yfirmanns við starfsmenn. Þjónandi forysta er meira en ný kenning í stjórnun, heldur má segja að hún verði lífsstíll og lífssýn stjórnenda og starfsfólks. Vöxtur og hagur fyrirtækjanna hvílir á því að þjónandi stjórnun sé veruleiki daglegs starfs þar sem þörfum viðskiptavina og starfsfólks er mætt af skilningi og einlægum áhuga.“

Sumartónleikar í Skálholti og Skálholtshátíð
Sumartónleikarnir í Skálholti setja svip sinn á sumarstarfið eins og endranær en í ár er tónleikaröðin haldin í þrítugasta og fjórða sinn. Kristinn segir sumartónleikana í Skálholti sjálfseignarstofnun. Þeir hafa hér aðstöðu og aðgang og góða samvinnu við staðinn. Tónleikahaldið byrjar fyrstu helgina í júlí og stendur fram til 10. ágúst. Dagskráin er mjög fjölbreytt í sumar, meðal annars barroktónlist og blásaratónlist frá Bæheimi og Vínarborg, Öld úr sögu bassafiðlunnar, Náttsöngvar og tónlist úr Þorlákstíðum. Síðan verða hér tvennir tónleikar sem bera yfirskriftina Öfganna á milli þar sem Kolbeinn Bjarnason flautuleikari spilar meðal annars ásamt Guðrúnu Óskarsdóttur sellóleikara. Fyrri tónleikarnir verða fimmtudagskvöldið 17. júlí og framhaldstónleikarnir laugardaginn 19. júlí.

Á meðan á sumartónleikunum stendur er boðið upp á ferna tónleika um hverja helgi, frá fimmtudegi fram á sunnudag, auk guðsþjónustu og fyrirlestra. Sjá nánar á vefsvæðinu www.sumartonleikar.is.

Skálholtshátíð er haldin á Þorláksmessu að sumri, helgina 19. til 20. júlí. Þá verður til dæmis gengin pílagrímaganga frá Þingvöllum til Skálholts. Hún hefst á laugardagsmorgni , gist er á Laugarvatni og gengið til Skálholts á sunnudagsmorgni, þar sem áætlað er að fólkið komi í hátíðarmessuna klukkan 14.00. Á laugardag kl. 18.00 verður fluttur Vesper úr Þorlákstíðum og það er Voces Thules sem flytur.

Á sunnudeginum er, sem fyrr segir, hátíðarguðsþjónusta klukkan 14.00 og síðan flytur Már Jónsson sagnfræðingur erindi í tilefni af útkomu nýrrar bókar um dóma Þórðar Þorlákssonar Skálholtsbiskups, sem Háskólaútgáfan gefur út með styrk úr Þorlákssjóði.Námskeið í kórstjórnun og orgelleik
Í ágúst verður síðan mikið námskeiðahald á staðnum frá 14. til 21. ágúst. Námskeiðið ber yfirskriftina Syngjandi kirkja á ári sálmsins 2008”. Það er söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar, Hörður Áskelsson, sem stendur fyrir þremur námskeiðum í Skálholti að þessu sinni. Í fyrsta lagi námskeið fyrir barnakórstjóra sem Jón Stefánsson og Þórunn Björnsdóttir sjá um, organistnámskeið sem Hörður Áskelsson og Mattias Wager, organist dómkirkjunnar í Stokkhólmi hafa umsjón með og í þriðja lagi kórstjórnarkennsla sem Hörður stjórnar sjálfur.

Guðsþjónustan 17. ágúst er hugsuð sem afrakstur barnakórstjóra námskeiðsins og markar þá upphaf hinna námskeiðanna. Þarna hittast því allir sem að taka þátt í námskeiðunum “Syngjandi kirkja” í Skálholti og víst að þennan dag verður heilmikil sönggleði í guðsþjónustunni.

Veitingar og gisting
En þótt mikið verði um dýrðir í leik og starfi í Skálholtsskóla sjálfum er staðurinn enn sem fyrr opinn gestum og gangandi. Hér er opin kaffi- og matsala. Við opnum yfirleitt klukkan níu á morgnana og það er opið til átta á kvöldin. Við erum með fast hlaðborð í hádeginu, súpu og salat og síðan er matseðill hjá okkur á kvöldin. Hann er þó yfirleitt tengdur hlaðborðum því hér eru oftast einhverjir gestir í fæði og húsnæði. Kirkjan er opin allan sólarhringinn allt sumarið og hér rétt fyrir sunnan kirkjuna er hægt að skoða fornminjarnar.

Í Skálholti er hægt að fá gistingu, annars vegar í skólanum sjálfum, í herbergjum með salerni og sturtu, hins vegar svefnpokagistingu í svokölluðum sumarbúðum, bæði í skála og í þremur sumarhúsum, en í hverju sumarhúsi eru tvö tveggja manna herbergi; skálinn tekur um tuttugu manns. Tjaldstæðum er hins vegar ekki til að dreifa í Skálholti  sem kemur ekki að sök vegna þess að inni í Laugarási er mjög gott tjaldstæði með afar góðri aðstöðu. En hvernig sýnist Kristni sumarið líta út með tilliti til ferðamanna?

„Það lítur mjög vel út. Hingað koma fjölmargir hópar, bæði kirkjutengdir hópar og almennir ferðahópar sem dvelja hér og fara dagsferðir héðan. Það er mjög mikið bókað hjá okkur í sumar og ljóst að miklar annir eru framundan.”


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga