Greinasafni: Hótel og gisting
Rómantískt sveitahótel

Á Hótel Heklu er boðið upp á víðáttu og fjallasýn, kyrrð og dekur

Hótel Hekla, sem óhætt er að segja að sé lúxus sveitahótel, er staðsett á Skeiðunum, mitt á milli Selfoss og Flúða, eða nákvæmlega tuttugu og fimm kílómetra frá hvorum stað og í 70 kílómetra fjarlægð frá Reykjavík.„Þetta er hótel með mikinn metnað,“ segir hótelstýran, Sigrún Hauksdóttir. „Við leggjum mikið upp úr þægindum, góðum mat og rómantísku umhverfi og okkur finnst mikilvægt að hlúa vel að gestunum okkar.“ Þegar Sigrún er spurð hvernig Hótel Hekla er flokkuð samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, segir hún: „Við höfum ekki farið út í alþjóðlega stjörnuúttekt, sem mér finnst mikið aukaatriði, en við myndum flokkast einhvers staðar á milli þess að vera þriggja til fjögurra stjörnu hótel. Við erum sveitahótel, aðili að Ferðaþjónustu bænda; rómantískt sveitahótel með þægindum og dekri enda erum við í miðju landbúnaðarhéraði, með öllum þeim dásamlegu ilmum sem því fylgir. Núna snemmsumars hefur ilmur af húsdýraáburði verið ríkjandi og þá er stutt í ilminn af nýslegnu heyi.“

Fyrsta flokks fundaaðstaða
Það er óhætt að segja að náttúrufegurðin blasi alls staðar við á Hótel Heklu. Fjallahringurinn umvefur sveitina og skýlir henni fyrir veðrum og vindum. Þau eru nógu nærri til að hægt sé að slaka á við gluggana, virðandi fyrir sér litbrigðin og leikfléttur ljóss og skugga, en þó nógu langt í burtu til upplifa víðáttuna. Það er hátt til lofts og vítt til veggja í þessum fjallasal. „Já,“ segir Sigrún. „Víðáttan hér hjá okkur er yndisleg og veðursæld mikil. Enda erum við að fá sama fólkið hingað aftur og aftur. Við erum komin með stóran og góðan hóp af traustum viðskiptavinum sem bæði sækja í fundaaðstöðuna hér, sem og matinn og kyrrðina.“

Á Hótel Heklu er fyrsta flokks funda- og ráðstefnuaðstaða og mikið um að fyrirtækin af höfuðborgarsvæðinu og víðar skreppi þangað og haldi vinnufundi, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. „Það næst svo góð samheldni og afköstin verða svo góð þegar ekkert er til að trufla,“ segir Sigrún. „Fundaaðstaðan er í sérbyggingu sem er tengd við hótelið. Hún er búin öllum þeim tækjum og tólum sem til þarf; skjávörpum, flettitöflum og þráðlausu neti og það er reyndar þráðlaus nettenging í öllu hótelinu. Svo eru hérna algerir listakokkar – sem eiga sinn þátt í að menn kjósa að halda hér vinnufundi aftur og aftur.“

Villibráð úr túninu
Veislusalurinn á Hótel Heklu rúmar 120 manns og það er óhætt að segja að kokkarnir á hótelinu hafi farið sínar eigin leiðir í eldamennskunni enda hæg heimatökin, þar sem nánast allt sem hægt er að rækta á Íslandi er við hendina, hvort sem er í hefðbundnum landbúnaði eða garðyrkju. „Við notum mikið það sem sveitin býður upp á og höfum fundið nýjar og spennandi leiðir til að vinna með hinar ýmsu afurðir,“ segir Sigrún. „Við höfum, til dæmis, verið að gera kökur úr brodd í staðinn fyrir skyri og rjóma. Við notum skyrið í Creme Brulée og höfum gert það í mörg ár.

Síðan bjóðum við mikið upp á villibráð allan ársins hring. Hún er veidd á túnunum í kringum okkur. Og talandi um villibráð, þá er orðin föst hefð hjá okkur á haustin, frá miðjum október fram í desember,að keyra í villibráð sem nýtur svo mikilla vinsælda að þegar fólk stendur upp frá borðunum, bókar það sig aftur í villibráð að ári. Við erum ekki með hlaðborð, heldur diskaþjónustu. Þú færð hvern rétt fyrir sig á borðið en þarft ekki að standa í biðröð. Við leggjum bara hvert listaverkið á fætur öðru fyrir framan þig.“

Auk villibráðarinnar er boðið upp á ótal spennandi rétti úr fiski og auðvitað er íslenska fjallalambið alltaf á boðstólum. Eftir matinn er síðan hægt að láta fara vel um sig við arineld í koníaksstofunni.

Hér blómstrar allt
Hvað gistingu varðar þá eru 36 tveggja manna herbergi, með baði og sjónvarpi hótelinu – „en þau eru ekki með síma og verða aldrei með síma,“ segir Sigrún og bætir við: „Það er alveg klárt. Það er of mikið ónæði af þeim. Fólk á að koma í sveitina til að slaka á og helst að slökkva á farsímunum sínum.

Hótelið er byggt á árunum 1997 til 2000 og hét fyrst Brjánsstaðir. Sigrún keypti síðan hótelið, ásamt eiginmanni sínum, Jóni Þorsteini Hjartarsyni, árið 2003 og breyttu þau þá nafni þess í Hótel Heklu. Hún segir nýtinguna er mjög góða. „Við erum sem betur fer vel yfir meðallagi allan ársins hring en ég loka yfir jólin. Þá sinni ég börnunum mínum.“ Einhvern tímann þarf jú að gera það, enda börnin alls fimm, það elsta tuttugu og fimm ára og það yngsta eins og hálfs árs...

Þegar blaðamaður hikstar á þessum eins og hálfs árs, segir þessi kjarnorkukona: Já, ég réðist í þetta á gamalsaldri. Sveitin hefur þessi áhrif; hér blómstrar allt.

Frekari upplýsingar um hótelið má nálgast á www.hotelhekla.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga