Greinasafni: Ferðaþjónusta
Mjög skjólgott tjaldsvæði

Gott fjölskyldutjaldstæði er að Laugalandi í Rangárvallasýslu. Laugaland er í um 6 kílómetra frá þjóðvegi 1 og er beygt hjá Vegamótum upp Landveg nr. 26, sama  afleggjara og að Galtalækjarskógi.

Á tjaldstæðinu er mjög góð aðstaða fyrir börn og unglinga. Tveir sparkvellir eru á staðnum, einn gervigrasvöllur og einn malarvöllur. Á leiksvæðinu eru ný leiktæki.

Sundlaug með heitum pottum, rennibraut og gufu er á staðnum.

Á tjaldstæðinu eru útigrill, salerni, rotþró fyrir ferðaklósett og rafmagn. Það er því kjörið að koma á staðinn með hjólhýsi eða fellihýsi.

Rán Jósepsdóttir og Engilbert Olgeirsson , eru rekstraraðilar tjaldsvæðisins, þau segja mjög algengt að haldin séu ættarmót á tjaldstæðinu. Hægt sé að leigja íþróttahúsið á staðnum ef menn vilji.
Frá Laugalandi er stutt á golfvöllinn á Strönd eða um 20 km. Rán segir að vinsælt sé að skoða hellana sem eru að Hellum í Landsveit en þar er stærsti manngerði hellir á Íslandi. Rúmlega tíu mínútna akstur er að hellunum. Kirkjujörðin Marteinstunga er í göngufæri frá Laugalandi. Þá er stutt á Leirubakka í Landsveit þar sem Heklusetur er, en það er fallegt safn um Heklu. Hella er um 14 km. frá Laugalandi og því stutt í alla þjónustu sem þar er veitt. Á Hellu er m.a. handverkshús þar sem hægt er að kaupa ýmis konar hannyrðir. Verslun og bensínsala er á Landvegamótum í 6 km fjarlægð frá Laugalandi. Sími tjaldvarðar er 895-6543 og netfangið ran@laugaland.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga