Greinasafni: Ferðaþjónusta
Kerlingafjöll eru einstök náttúruperla

Kerlingafjöll eru ein af náttúruperlum landsins. Þar fara saman stórkostlegt landslag og ótrúleg litadýrð. Fagrir dagar í Kerlingafjöllum gleymast seint.


Í Kerlingafjöllum var um árabil rekin skíðaskóli en frá árinu 2000 hefur verið einblínt á almenna þjónustu við ferðamenn. Fyrirtækið Fannborg rekur aðstöðuna í Kerlingafjöllum og er Páll Gíslason framkvæmdastjóri Fannborgar.

Í Kerlingafjöllum er opið frá 10.júni til 10. september. Einnig er opið á veturna í tengslum við vélsleðamót og aðra viðburði. Páll segir að undanfarin ár hafi verið unnið að því að bæta aðstöðuna á svæðinu meðal annars með því að fjölga tveggja manna herbergjum í húsunum sem þarna eru og geta þannig þjónað þeim sem vilja vera út af fyrir sig. Tveggja manna herbergi með uppábúnum rúmum kostar 4.800 kr. á mann en svefnpokapláss kostar 2.800 krónur á mann. Í sumum húsanna er eldunaraðstaða. Auk þess er þarna ágætt tjaldstæði og eru hjólhýsaeigendur velkomnir. Á staðnum er eldsneytissala.
Heitir pottar eru á staðnum og hægt er að kaupa veitingar í aðalskála. Lögð er áhersla á einfaldan og kjarngóðan matseðil þar sem meðal annars er boðið upp brauð bakað á jarðhitasvæðinu.

Fyrir yngri kynslóðina eru trampólin og rólur. Á svæðinu er hestagirðing fyrir þá sem koma á hestum.
Við góðar aðstæður er hægt að komast á öllum bílum til Kerlingafjalla. Áætlunarbílar ganga frá Reykjavík og Akureyri yfir Kjöl um sumartímann og er lagt af stað að morgni frá báðum stöðum. Það tekur um þrjár til fjórar klukkustundir að aka frá Reykjavík eða Akureyri.

Í Kerlingafjöllum eru bæði merktar og ómerktar gönguleiðir. Hægt er að fá gönguleiðakort á svæðinu. Páll segir að í Kerlingafjöllum sé hægt að ganga heilu og hálfu dagana og að fólk geti ávallt séð eitthvað nýtt og fagurt. Mjög fallegt sé að ganga upp á fjallið Snækoll því þaðan sé mjög mikið útsýni. Þaðan sé hægt að sjá stóran hluta landsins og allt til sjávar bæði sunnan- og norðanlands. Gangan upp á Snækoll tekur um einn til einn og hálfan tíma.

Kerlingin í Kerlingafjöllum var samkvæmt gamalli þjóðtrú tröllkonuættar. Fjöllin draga nafn sitt af um 25 metra háum drang úr móbergi sem stendur upp af ljósri líparítskriðu sunnan í Kerlingartindi í vestanverðum fjöllunum. Samkvæmt gamalli þjóðtrú er talið að þar sé komin tröllkerling sem dagaði uppi og varð að steini. Þjóðsögur benda til þess að Kerlingafjöll hafi fyrrum verið griðarstaður útilegumanna og trölla.

www.kerlingarfjoll.is | info@kerlingarfjoll.is
Simi/tel.: Winter: +354-664-7000; Summer:+354-664-7878


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga