Greinasafni: Hestar
Hestamannamót og stór landbúnaðarsýning

Í Rangárþingi eystra verður mikið um dýrðir í sumar og svæðið einstaklega vel í stakk búið til að taka á móti ferðamönnum

Það er óhætt að segja að líflegt verði í Rangárþingi ytra í sumar. Þar ber fyrst að nefna stærsta íþróttaviðburð sumarsins, Hestamannamótið á Hellu, sem sveitarstjórinn, Örn Þórðarson, reiknar með að dragi að sér fimmtán þúsund gesti, en stór hluti verði erlendir ferðamenn. „Hestamannamótið verður mjög fjölbreytt og skemmtilegt og þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem menn hafa áhuga á hestamennsku eða mannlífi, segir hann.

Seinni hluta ágústmánaðar verður síðan stór landbúnaðarsýning á Hellu, sem Örn segir að eigi eftir að draga að sér ennþá fleiri gesti og ætti að höfða til allra, því landbúnaður sé bæði áhugaverður og mikilvægur. „Þarna er verið að sýna það sem er að gerast í landbúnaði. Kynnt verða tæki og tól, dýrategundir, framleiðsla og afurðir; allt sem tengist landbúnaði. Einnig verður keppt í ýmsum skemmtilegum og sérstæðum íþróttagreinum – þannig að hægt verður að gera góða fjölskylduferð á sýninguna. Það eiga allir erindi á hana; mamma, pabbi, afi og amma og bæði stóru og litlu börnin.“

Besti golfvöllurinn og merkar laxveiðiár
Í sveitarfélaginu búa 1550 manns, þar af helmingur á Hellu. Fyrir utan landbúnað, þjónustu og úrvinnslu, sláturhús og kjötvinnslu er ein stærsta glerverksmiðja á landinu, Samverk á Hellu, staðsett þar. Einnig Kartöfluverksmiðjan í Þykkvabæ, auk þess sem sveitarfélagið er öflugt í ferðaþjónustu.

Rangárþing eystra samanstendur af um það bil sex þúsund ferkílómetrum og nær frá Þykkvabæ og inn á miðhálendið. „Þarna eru Landmannalaugar, Veiðivötn og Hekla, og reiðinnar býsn af gönguleiðum, til dæmis vinsælasta gönguleið landsins, Laugavegurinn. Að sama skapi búum við yfir æði mörgum reiðleiðum. Það eru til ágæt göngukort yfir leiðir í okkar héraði og ég efast um að gönguleiðir séu eins vel merktar innan sveitarfélags og hjá okkur. Um þessar mundir erum við líka að búa til kort yfir reiðleiðir í Rangárvallasýslu, bæði gamlar og nýjar leiðir.“

Um sveitarfélagið renna tvær bestu laxveiðiár á landinu, Eystri- og Ytri-Rangá og þar er einnig Strandvöllur, besti golfvöllur á landinu.
Hann er mitt á milli Hellu og Hvolsvallar og ástæðuna fyrir því að hann er talinn besti golfvöllur á landinu segir Örn vera þá að hann þorni miklu fyrr en aðrir vellir á vorin og að nú þegar sé búið að halda fyrsta mót sumarsins þar og bætir við: „Hann er fyrr í gang á vorin og þar er hægt að spila lengur fram á haustið.“

Vísindasamfélag og skemmtileg söfn
„Við erum með öflugt vísindasamfélag í Gunnarsholti, þar sem lögð er áhersla á landrækt og skógrækt. Við erum með Heklusetrið, sem er afar áhugavert safn á Leirubakka. Hér eru líka framsækin hótel, til dæmis Hótel Rangá, sem er eitt besta hótel á landinu og sem erlend fyrirmenni vilja sækja. Umgjörð hótelsins er ákaflega vönduð og metnaður er mikill. Þetta er sveitahótel í fremsta flokki og jafnast á við það sem best gerist erlendis.“

Örn segir mannlíf vera með öðrum hætti úti á landi en í þéttbýlinu. „Það er annað yfirbragð á mannlífinu hér, mun rólegra. Það er stutt í nærþjónustu sem er öflug, skólar og heilbrigðisþjónusta er til fyrirmyndar – en svo njótum við þess að vera mjög nærri höfuðborgarsvæðinu með allri þeirri þjónustu sem þar er í boði. Menn eru því ekki að fara á mis við neitt hér, tapa engum gæðum.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga