Greinasafni: Sveitarfélög
Rangárþing eystra

Öflugt landbúnaðarsvæði og vinsælar náttúruperlur
Sveitarfélagið Rangárþing eystra varð til þann 9. júní árið 2002, en þá sameinuðust sex hreppar í austanverðri Rangárvallarsýslu í eitt sveitarfélag; Hvolhreppur, Fljótshlíðarhreppur, Austur Landeyjahreppur, Vestur Landeyjahreppur, Austur Eyjafjallahreppur og Vestur Eyjafjallahreppur.

Rangárþing eystra nær frá Eystri-Rangá í vestri til Jökulsár á Sólheimasandi í austri. Sveitarfélagið er mikið landbúnaðarhérað en jafnframt er ferðaþjónusta vaxandi atvinnugrein og þar er að finna einstakar náttúruperlur og þekkta sögustaði. Ferðaþjónusta í Rangárþingi eystra er í miklum blóma og fyrir gesti svæðisins er margt að sjá og gera.

Elvar Eyvindsson, settur sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir að ágætis uppgangurhafi verið  í sveitarfélaginu undanfarið og fjölgunin í fyrra verið umfram landsmeðaltal.

“Við erum með mjög öflugt landbúnaðarsvæði hérna og eitt auðræktanlegasta svæðið á landinu. Mjólkurframleiðsla stendur hér mjög traustum fótum  og ætli það sé ekki verið að framleiða tíunda hvern lítra á landinu hér í Rangárþingi eystra,” segir Elvar.

“Stóriðjan okkar í augnablikinu verður höfnin í Bakkafjöru, eða Landeyjahöfn, sem komin er á kortið. Hins vegar vil ég meina að stóriðjan okkar til framtíðar sé ræktunarlandið, en það kann að vera að ekki séu allir sammála því.

En ef fram fer sem horfir og mikil aukning verður á matvælaþörf í heiminum þá verðum við með mikla möguleika hér. En við höfum verið hafnlaus hingað til og það er ekki fyrr en það kemur alvöruhöfn sem stóriðjan kemur.

Við erum með portið fyrir ljósleiðara út í heim og núna er að koma ein lögn til viðbótar sem gefur kannski möguleika á því að koma upp til dæmis netþjónabúi eins og allir eru að tala um í dag. Hver veit hvað verður en möguleikarnir eru miklir.”

Margar þekktar náttúruperlur
Í sveitarfélaginu eru margar þekktari náttúruperlur eins og t.d. Þórsmörk, Tindfjöll, Eyjafjallajökull, Skógarfoss, Seljalandsfoss og Paradísarhellir en auk þess er að finna einstakar náttúru- og jarðfræðiminjar sem eru minna þekkt eins og Mögugilshelli sem talin er vera stærsti náttúrugerði móbergshellir í norður Evrópu og Drumbabót, þar sem finna má minjar um aldagamlan skóg.

Auk þessa minja teygir sögusvið Brennu-Njáls sögu sig um allt svæðið og gestum gefin kostur á að upplifa söguna á lifandi og eftirminnilegan hátt.  Þá eru aðstæður í sveitarfélaginu nokkuð einstakar að því leiti að þaðan er hægt að komast upp á hálendið af stuttu færi. Þannig eru menn á láglendi í Fljósthlíðinni en geta verið komnir upp á heiðar eftir augnablik, eða upp á Eyjafjallajökul á innan við klukkustund.

Í sveitafélaginu eru margir og fjölbreyttir gistimöguleikar. Um er að ræða 22 ferðaþjónustufyrirtæki; tjaldsvæði, gistiheimili, gistiskála, hótel, sumarhús og félagsheimili.

Afþreying er af ýmsu tagi í Rangárþingi eystra og hentar öllum aldurshópum, s.s. söfn, sýningar, sundlaugar, hestaleigur, áhugaverðar gönguleiðir, íþróttamiðsstöð, golf,  gallerí, veiði og margt fleira. Sex félagsheimili eru í sveitarfélaginu með aðstöðu fyrir ættarmót og aðra viðburði.

Mikil uppbygging í ferðaþjónustu
Þuríður Halldóra Aradóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings eystra, tekur undir með Elvari hvað varðar uppbyggingu í sveitarfélagin og segir hana stafa bæði af  auknum atvinnumöguleikum og því að ungt fólk hafi skilað sér heim að loknu námi. Segir hún að í þessu sambandi skipti ekki minnstu máli að góð nettenging sé komin í sveitarfélagið.

“Það selst allt sem í boði er, bæði nýjar lóðir og húsnæði, og skortur á húsnæði hefur kannski að einhverju leyti staðið í vegi fyrir því að þeir sem vilja koma hingað aftur geti það,” segir Þuríður.

Hún segir mikla uppbyggingu hafa verið í ferðaþjónustu í Rangárþingi eystra og í nágrenninu. Þetta sé orðið einn stærsti atvinnuvegurinn á svæðinu auk þess sem landbúnaðurinn sé að sjálfsögðu mjög öflugur.

“Það eru bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn  sem hingað koma og það helsta sem dregur fólk að er Seljalandsfoss, Skógarfoss, Þórsmörk og Fljótshlíðin, að ógleymdu minjasafninu á Skógum. Svo gerum við líka mikið út á söguna, en Njáls saga er nokkuð stór þáttur í ferðaþjónustunni og hefur verið það mörg undanfarin ár.

Sögusetrið á Hvolsvelli var sett upp fyrir 10 árum síðan og má segja að það hafi verið frumkvöðull í menningartengdri ferðaþjónustu á sínum tíma. Aðsóknin að því hefur verið mjög góð og í fyrra var 20% aukning á gestafjölda frá árinu þar áður og við sjáum fram á enn meiri aukningu í ár. Sögusetrið hefur byggst upp sem einskonar menningarmiðstöð og þar er alltaf eitthvað um að vera, nýjar sýningar, tónleikar, uppákomur og Njáluerindi,” segir Þuríður.

Sex félagsheimili
Sem fyrr segir er Rangárþing eystra sameinað sveitarfélag sex eldri sveitarfélaga á þessu svæði og fylgdi félagsheimili hverju þeirra. Þuríður segir að félagsheimilin sex séu leigð út fyrir ýmsan rekstur, auk þess sem  þau séu að sjálfsögðu nýtt fyrir íbúa sveitarfélagsins.

“Sveitarfélagið hefur tekið þá stefnu að félagsheimilin fái að halda sínu upprunalega þjónustuhlutverki við í íbúana, en jafnframt að hvert þeirra hafi sína sérstöðu. Til dæmis hefur verið komið upp aðstöðu í Goðalandi fyrir fjarnám og þar eru nemar allt árið í skóla. Fossbúð á skógum hefur verið leigð út fyrir rekstur ferðaþjónustu og önnur hafa mikið verið leigð út fyrir ættarmót,” segir Þuríður.

Stjórnsýslan á Hvolsvelli
Hvolsvöllur er þéttbýliskjarni sveitafélagsins og þar er stjórnsýslan. Helstu atvinnuvegir eru iðnaður, verslun og þjónusta.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga