Greinasafni: Hótel og gisting
Fjölskylduvæn ferðaþjónusta

Bændur í Stóru-Mörk III er þátttakendur í átakinu „Opinn landbúnaður“ og bjóða upp á gistingu þar sem er einstakt útsýni til fjalla

Í Stóru-Mörk III, síðasta bænum áður en haldið er inn í Þórsmörk reka þau Ragna Aðalbjörnsdóttir og Ásgeir Árnason bændagistingu, en þau eru þátttakendur í átakinu „Opinn landbúnaður,“ sem Bændasamtök Íslands hleyptu nýlega af stokkunum. Í því felst að gestir og gangandi geta ekið heim að bænum, skoðað húsdýrin, leikið við gæludýrin á bænum og fengið að fylgjast með heimamönnum við störf sín meðal annars skoðað fjósið og fylgst með vélmenni sem þar sér um mjaltir. Í Stóru-Mörk er bæði fjárbúskapur og kúabúskapur þar sem eru sjötíu kýr. Það er því líf og fjör í fjósinu og örugglega hægt að fá að bragða á spenvolgri mjólkinni.

Það getur verið býsna skemmtilegt að staldra við á býli eins og Stóru Mörk III en þar er boðið upp á gistingu fyrir allt að fjórtán manns í uppábúnum rúmum eða svefnpokagistingu í fimm rúmgóðum herbergjum, með eða án baðs.

„Gistingin er á neðri hæð í húsinu sem við fjölskyldan búum í,“ segir Ragna, en er séríbúð, með eldhúsi, stofu og sólstofu. Og víst er að hægt er að njóta útsýnisins, því fallegt útsýni er til fjalla og jökla en Eyjafjöllin umvefja þessa efstu jörð áður en haldið er inn á hálendið.

Þrjú af herbergjunum sem boðið er upp á í Stóru-Mörk III eru með baði en tvö með sameiginlegri snyrtingu frammi. „Síðan á fólk val um það hvort það vill útbúa sinn morgunverð sjálft, eða fá morgunverð hjá okkur, því við bjóðum upp á morgunverðarhlaðborð,“ segir Ragna. Þegar hún er spurð nánar út í aðstöðuna fyrir fjölskyldufólk, segir hún: „Við erum með fjölskylduherbergi og getum skaffað aukarúm, sem og barnarúm. Okkar stefna er að bjóða upp á fjölskylduvæna ferðaþjónustu og erum því með leiktæki fyrir utan húsið. Fólk getur komið með börnin og slakað vel á í sveitinni.“

Sem fyrr segir er Stóra-Mörk seinasti bærinn áður en haldið er inn í Þórsmörk. „Í sumar munum við bjóða upp á tveggja tíma ferðir um svæðið með leiðsögn heimamanns,“ segir Ragna og bætir við: „Áætlunarferðin frá Reykjavík inn í Þórsmörk stoppar líka hjá okkur á hverjum degi yfir sumarið og kemur hingað aftur á kvöldin. Það er því hægt að bregða sér í dagsferð þangað.

Síðan höfum við merkt gönguleiðir hjá okkur, heiman frá bær og því geta gestir okkar fengið kort í hendur og gengið hringleiðina inn að Nauthúsagili og Bæjargili, sem er í átt að Þórsmörk. Þá er ekki gengið meðfram veginum. Þessi hringleið hefur notið mikilla vinsælda meðal okkar gesta.“

Þegar Ragna er spurð hvað fleira gestir hennar geti dundað sér við, segir hún: „Við mælum alltaf með því að fólk fari austur að Skógum og að Seljalandsfossi. Erlendum gestum höfum við einnig bent á Vestmannaeyjar, því héðan er mjög stutt niður á Bakka. Einnig liggur gamli vegurinn inn í Þórsmörk um hlaðið hjá okkur og hann er hægt að hjóla og það er enn hægt að keyra hann.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga