Nóg pláss í Þórsmörkinni

Kynnisferðir standa fyrir átakinu „skildu bílinn eftir heima“ og bjóða upp á margt skemmtilegt í Húsadal í sumar
„Kynnisferðir er alhliða ferðaþjónustufyrirtæki með áherslur á dagsferðir út frá Reykjavík, með gistiaðstöðu í Þórsmörk. Við leigjum einnig rútur í sérverkefni og síðan erum við með skoðunarferðir um Reykjavík í tveggja hæða strætisvögnum í sumar,“ segja þau Þórarinn Þór sölu- og markaðsstjóri og Hjördís Erlingsdóttir sölufulltrúi hjá Kynnisferðum.

Einn möguleikinn sem Kynnisferðir bjóða upp á er „Hop on – hop off City Sightseeing,“ þekkt fyrirbæri í ferðaþjónustu um alla Evrópu, er til í áttatíu og fimm borgum. „Þetta er strætóferð um borgina með hljóðritaðri leiðsögn,“ segir Hjördís, „og hjá okkur er leiðsögnin á átta tungumálum og eitt af þeim er íslenska. Þessi vagn gengur á klukkustundar fresti frá 10.00 að morgni til klukkan 17.00 alla daga, allt sumarið. Í túrnum eru tíu stoppistöðvar og hægt er að stökkva af hvar sem er og koma inn aftur hvenær sem þú vilt. Miðinn gildir í einn sólarhring. Það er, meðal annars, stoppað við sundlaugar, kirkjur, Perluna, og söfn, miðanum fylgir svo afsláttur í ýmis söfn og veitingar tengdar stoppum vagnsins.”

Frábær aðstaða
Þórsmörk er sá staður sem Kynnisferðir leggja mesta áherslu á fyrir Íslendinga. „Við erum með mjög góða gistiaðstöðu í Þórsmörk sem tekur allt að 120 manns í gistingu, 8 smáhýsi sem eru gistirými fyrir 4-5 manna fjölskyldur og síðan eru gistirými í 3 skálum þar sem 2 eru alrými en 1 skálinn er tveggja manna herbergi þar sem hægt er að fá gistingu í uppbúnum rúmum. Síðan erum við með heita laug, sturtur,og gufu sem hægt er að njóta gegn vægu gjaldi og veitingaskála sem tekur 120 manns í sæti,“ segja þau Hjördís og Þórarinn.

Það er mikið bókað í gistingu í Þórsmörk hjá Kynnisferðum í sumar, bæði af einstaklingum og hópum. „Það er einnig töluvert um það að ferðaskrifstofur, sem eru að fara í jeppaferðir og aðrar ferðir með stóra hópa inn á hálendið endi í Húsadal, fái þar grillmat í hádeginu, nýti sér þá snyrtiaðstöðu sem við höfum upp á að bjóða – gufubað, sturtur, heita laug – og dvelji hluta úr degi í Þórsmörkinni.“

Fjölskylduparadís
„Við erum um þessar mundir að hefja átak sem við köllum “skildu bílinn eftir og komdu með okkur í Þórsmörk.” Þú getur komið með okkur frá Reykjavík ef þú vilt, eða hoppað upp í á Hvolsvelli, við Seljalandsfoss eða inni við Krossá – gegn vægu gjaldi. Þú getur síðan dvalið í nokkra klukkutíma í Þórsmörkinni og farið til baka með seinni parts rútunni – eða dvalið þar í nokkra daga i skála, eða í tjaldi og átt aðgang að allri aðstöðu. Við erum með sérskála fyrir tjaldsvæðið þar sem er rennandi vatn og eldunaraðstaða, þar er allt til alls fyrir um 40 manns bæði leirtau og potta/pönnur og sæti fyrir alla.

Þórsmörk er mikil fjölskylduparadís. Þar eru margar gönguleiðir, langar, stuttar og mis erfiðar. Það er yndislegt að eyða þarna þremur til fjórum dögum og skoða mismunandi gönguleiðir.

Í sumar verða heilmiklar uppákomur í Þórsmörk. Við verðum með Jónsmessuþema fyrir fjölsklylduna. Þar bjóðum við upp á meðalléttar göngur sem miða við að sem flestir fjölskyldumeðlimir komist með. Við verðum með miðnæturbál og það verður möguleiki á að fara á hestbak. Til okkar mætir harmónikkuleikari og við bjóðum upp á grillaðstöðu þar sem fjölskyldur sjá um að grilla sjálfar. Það er allt miðað við að þetta sé fjölskylduferð og allt gert til að börnin njóti þess að vera í Þórsmörkinni. Fjölskylduþema á Jónsmessunótt verður dagana 20. til 22. júní með áherslu á 21 júní með sameiginlegri grillaðstöðu,miðnæturbáli söng og leik. Við viljum benda á að hægt er að bóka gistingu og eða far með áætlunarbílnum hvort heldur frá Reykjavík/Selfossi/Hvolsvelli/Seljalandsfossi eða hafa samband símleiðis til að fá aðstoð yfir Krossá.

Miðnæturreið og Laugavegsmaraþon
„Þósmörkin spilar líka stórt hlutverk hjá okkur á meðan á Landsmóti hestamanna á Hellu stendur. „Þá ætlum við að vera með miðnæturreið inn í Þórsmörk og innifalið í ferðinni er kvöldverður, rútuferðir til og frá Hellu, ásamt útreið með leiðsögn. Þann 12. Júlí verður Laugavegsmaraþoniðog það er búist við að 200 til 250 manns taki þátt í hlaupinu. Það verður því mjög mikið um að vera í Húsadal 12. júlí þegar við tökum á móti hlaupurunum enda er uppselt í gistingu hjá okkur þá – en hægt að fá tjaldstæði.“

Kynnisferðir keyra gífurlegan fjölda dagsferða út frá Reykjavík allan ársins hring. „Hingað til hafa þær aðallega verið fyrir erlenda ferðamenn, þar sem við einblínum á sögu landsins og náttúru,“ segja þau Þórarinn og Hjördís. „Íslendingar geta auðvitað farið í þessar ferðir en leiðsögnin er á ensku, norðurlandamálum, frönsku og þýsku. Það er hægt að fara með okkur í Gullfoss/Geysisferð, annars vegar í ferð sem tekur allan daginn, farið að morgni og hins vegar, í eftirmiðdagsferð. Við förum einnig á Snæfellsnes, í söguferð um Borgarfjörð þar sem meðal annars Sögusafnið er heimsótt, farið í Landnámssetrið og snædd kjötsúpa þar. Við erum með ferð um Reykjanesið þar sem meðal annars er farið í Saltfisksetrið í Grindavík, Orkuverið Jörð og Duushús í Keflavík. Í nálægum húsum er kertagerð og glerblástur. Í Reykjanesbæ er líka hið fræga víkingaskip Íslendingur.“

Þetta er bara lítill hluti af þeim Dagsferðum sem við bjóðum uppá.
Þegar Þórarinn og Hjördís eru spurð hvers vegna í ósköpunum Kynnisferðir bjóði ekki líka upp á þessar ferðir fyrir Íslendinga, segja þau: „Það er því miður ekki hefð fyrir því að Íslendingar fari í svona ferðir með leiðsögn – en okkur langar til að setja slíkar ferðir upp og ætlum okkur að vinna að því.“ Við erum að sjá um sérferðir fyrir Íslendinga og þá oft vinnustaðahópa eða álíka og oft með íslenskri leiðsögn, en það mætti vera meiri hugsjón hjá landanum að nýta sér þessa möguleika.

Flugrútan
Flugrútan er starfrækt allan sólarhringinn, alla daga ársins. Flugrútan er til staðar þegar áætlunar- og leiguflugvélar lenda á Keflavíkurflugvelli og flytur farþega til og frá Umferðarmiðstöðinni á BSÍ. Frá umferðamiðstöðinni er farþegum ekið að flestum stærri gististöðum höfuðborgarinnar. Á umferðarmiðstöðinni eru leigubílar til taks fyrir þá sem þess óska. Við brottför frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar er hægt að biðja um að Flugrútan stoppi við Fjörukrána í Hafnarfirði og við Aktu Taktu Garðabæ á leiðinni til Reykjavíkur.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga