Greinasafni: Ferðaþjónusta
Ævintýraheimur fjallanna

Hjá Útivist geta allir sem á annað borð geta gengið fundið þjálfun og ferðir við sitt hæfi

Félagið Útivist var stofnað í mars 1975 og hefur frá þeim tíma boðið félögum sínum og öðrum upp á fjölbreyttar og skemmtilegar gönguferðir, allt frá léttum gönguferðum upp í erfiðar fjallgöngur. Og alltaf er möguleikunum að fjölga, því nú eru starfandi bæði hjólaklúbbur og jeppaklúbbur innan félagsins.

Framkvæmdastjóri Útivistar,
Skúli H. Skúlason

Framkvæmdastjóri Útivistar er Skúli H. Skúlason og segir hann áhugann á gönguferðum stöðugt aukast, einkum hafi aukningin verið áberandi síðastliðin fimm til tíu ár og bætir við: „Kannski er aukin umræða um umhverfismál einn af þeim þáttum sem mest áhrif hafa.“ En það er ekki bara áhugi á gönguferðum og hálendi Íslands sem hefur aukist, heldur hefur framboð á ferðum líka aukist til muna. Á þeim þrjátíu og fimm árum sem félagið hefur starfað hefur einnig verið mikil uppbygging á aðstöðu, til dæmis byggingu skála og slíku.

Gengið úr Jökulgilinu í Strút. Ljósmynd Gunnar S. Gunnarsson

Fjölbreytt framboð og kostir félagaðildar

Það er óhætt að segja að framboð ferða hjá Útivist í sumar sé að vanda bæði fjölbreytt og spennandi. „Inn að fjallabaki erum við með Fimmvörðuháls, Laugavegsferðir, Sveinstinda og Skælinga og Strútsstíg,“ segir Skúli. „Það má segja að við séum með ferðir á þessar leiðir í allar helgar allt sumar. Þetta eru trúss- og gistiskálaferðir sem taka ýmist fjóra eða fimm daga. Síðan erum við með nokkrar bakpokaferðir, þar sem menn axla bakpokann og tjaldið og upplifa hið fullkomna frelsi. Það er ekki stór hópur sem sækir þær ferðir – en þeir sem sækja þær eru mjög traustir.

Það er nú einu sinni þannig að við erum ákaflega góðu vön og þegar við förum í nokkurra daga ferðir, viljum við fá dálitla þjónustu. Kannski gerist það samhliða því að hópurinn sem sækir í svona ferðir hefur stækkað. Þá koma annars konar kröfur sem er hið besta mál. Trússferðir – þar sem er þjónusta, skálar, vatnssalerni og slíkt er fyrir hendi, gerir það að verkum að fleiri njóta náttúrunnar. Það er mjög gott mál.“

Í Útivist eru greiðandi félagar vel á annað þúsund en þeir eru nokkuð fleiri sem teljast til félagsins. Á bak við hvern greiðandi félaga segir Skúli geta verið nokkrir einstaklingar og líklega annar eins fjöldi tengdur skráðum félögum, vegna þess að aðeins eitt gjald sé fyrir hvert heimili. Þar fyrir utan segir hann töluvert af fólki sem ferðist með Útivist án þess að vera í félaginu. Og það borgar sig vissulega að vera félagi í Útivist, því ýmis hlunnindi eru í boði. Félagsmenn fá góðan afslátt í gistingu í skálum félagsins og í allar ferðir.. Auk þess bjóða ýmis fyrirtæki góðan afslátt af vörum og þjónustu fyrir félagsmenn Útivistar. Maki félagsmanns og börn, 18 ára og yngri, njóta sömu kjara og félagsmaðurinn.

Hjólað með hjólastjóra

Á leiðinni um Sveinstind og Skælinga blasir Eldgjá við sjónum.Ljósmynd Jósef Hólmjárn
Sem fyrr segir eru starfsemin söðugt að aukast og skiptist því orðið í hinar ýmsu deildir. „Nýjasta afkvæmið okkar er hjólaræktin,“ segir Skúli. „Hún hefur starfað í nokkur ár og þriðja laugardag hvers mánaðar fer hjólaræktin í ferð, allt árið um kring. Yfirleitt er hjólað eitthvað í nágrenni bæjarins, eða innanbæjar. Síðan eru teknar lengri ferðir, Hvalfjörðurinn til dæmis hjólaður, eða hjólað í Grímsnesið og endað í heitum potti. Svo er hjólaferð inn í Bása árlegur viðburður. Þá er keyrt að Stóru-Mörk, hjólin tekin þar og hjólað inneftir. Þetta eru um þrjátíu kílómetrar – og yfirleitt ekki nema einn til tveir sem detta í árnar í þessum ferðum sem taka þrjá til fjóra klukkutíma,“ bætir hann glettnislega við.

Hjólaferðir eru yfirleitt ákveðnar með skömmum fyrirvara – eiginlega eftir veðurspá. „Við erum með hjólastjóra, Marrit Meintema, sem tekur allar ákvarðanir með einræðisvaldi. Hún er frá Hollandi en hefur búið hér í allnokkur ár og er mikill hjólaforingi. Hjólahópurinn hefur verið svipað stór frá ári til árs – en nú er lag fyrir hjólaræktina til að vaxa og dafna þar sem bensínverð er orðið mjög hátt og greinilegt að fólk er farið að taka reiðhjólið fram yfir bílinn.“

Öflug jeppadeild
„Innan félagsins hefur verið starfandi jeppadeild í allnokkur ár. Hún var upphaflega stofnuð af fólki sem hafði verið í gönguferðum um hálendið um árabil, var farið að ferðast á eigin jeppum og vildi skapa sér vettvang til þess; fara á jeppunum upp á hálendið og ganga í samhengi við jeppaferðina. Í sambandi við þetta hefur bæst við nokuð mikið af jeppaferðum um vetur þar sem keyrt er um hálendi og jökla. Það hefur verið mikill vöxtur í þessari starfsemi seinustu árin – en svo veit maður ekki hvaða áhrif olíuverð hefur á þennan hluta starfseminnar. Við gerum þó ráð fyrir að þörfin fyrir fjallaloftið verði til þess að áfram verði þörf fyrir þessar ferðir líkt og aðrar.

Við erum með þrjá flokka af jeppaferðum og erum með töflu sem sýnir hversu mikið bíllinn þarf að vera breyttur fyrir hvern flokk
Fyrir minnstu jeppana erum við fyrst og fremst vor- og haustferðir. Til dæmis höfum við verið með ferðir um fjallabak síðla sumars sem henta fyrr þann flokk. Í þá ferð eru allir venjulegir jeppar gjaldgengir, en ekki jepplingar. Síðan erum við með ferðir sem geta náð nokkuð fram á haustið og eitthvað erfiðari leiðir að sumri og þarf eitthvað hærri bíla, yfirliett 33 til 35 tommur, t.d. ef þarf að krossa erfiðar ár eða fara um torfærari slóðir. Þriðji flokkurinn er yfirleitt fyrir 38 tommu bílar og stærri. Þá er verið að aka í snjó á hálendinu, eða jöklum.“Skúli segir að í stærstu ferðirnar fari yfirleitt 20 bílar, ekki fleiri. Oft takmarka skálastærðir hópstærðina, en þar fyrir utan sé ekki æskilegt að fleiri bílar séu í ferðinni, eigi fararstjórar að geta haldið utan um hópinn.

Útivistarrækt og styttri ferðir

 Í dagsferð með Útivist. Ljósmynd Kristján E. Þórðarson

Það geta langflestir fundið sér samastað innan Útivistar. Líka þeir sem eru að taka fyrstu skrefin í að koma sér í form eftir að hafa ekki hreyft sig lengi. Meðal þess sem boðið er upp á er Útivistarræktin. „Þar er gengið mánudaga og fimmtudaga allt árið um kring,“ segir Skúli. „Þá er gengið um Elliðarárdalinn á mánudögum klukkan 18.00. Á fimmtudögum á sama tíma er mætt við brúnna yfir Kringlumýrarbraut og gengið um Öskjuhlíðina og Skerjafjörðinn. Þetta er hugsað sem tækifæri til að halda sér í formi og það er gengið nokkuð greitt og rösklega.

Yfir sumartímann bætast miðvikudagar við og þá er hist við Toppstöðina í Elliðarárdalnum og farið á eitthvert fjall í nágrenni bæjarins, eða styttri leið. Þá er farið á eign bílum að göngustað.
Í vetur heyrðum við á mörgum sem voru að byrja í mánudags- og fimmtudagsgöngunum að það væri erfitt að koma inn í þessar göngur, vegna þess að það væri gengið of greitt, þeir áttu í erfiðleikum með að halda í við hópinn. Við bættum því við öðrum hópi á miðvikudögum, sem fer öfugan hring í Elliðarárdalnum og gengið rólegar heldur en á mánudögum og fimmtudögum. Yfir sumartíman taka fjallaferðirnar við af þessum ferðum en við gerum ráð fyrir að byrja aftur á þessum rólegu göngum í Elliðarárdalnum um miðjan september. Þetta hefur gefist mjög vel. Þegar við vorum að byrja á Útivistarræktinni óttuðust margir að þetta myndi grafa undan dagsferðunum sem eru á sunnudögum – vegna þess að þarna væri verð að bjóða upp á ókeypis göngur, en reyndin hefur verð þveröfug; þátttaka í sunnudagsgöngum hefur stóraukist og það er ljóst að við erum að stækka hópinn með þessu.“

Vel þjálfaðir leiðsögumenn
Þegar Skúli er spurður hvers vegna fólk fari í skipulagðar göngur eins og þær sem Útivist býður upp á í stað þess að rölta bara á eigin vegum eftir öllum þeim gönguleiðum sem hlykkjast um fjöll og firnindi hér á landi, segir hann margar ástæður fyrir því.

„Í fyrsta lagi held ég að það vegi þungt að vera með leiðsögn. Oft eru leiðsögumenn með ýmsan fróðleik um svæðið sem gengið er um, auk þess að sjá um rötunina; þeir vita hvert á að fara. Við höfum verið svo lánsöm að leiðsögumenn hjá okkur eru búnir þeim hæfileika að gera gönguna skemmtilega. Síðan er skipulagsþátturinn mikilvægur; að það sé einhver sem sér um akstur á staðinn og að panta skálapláss ef því er að dreifa. Þetta er líka öryggisþáttur vegna þess að leiðsögumaður veitir þeim hjálp sem aðstoð þurfa. Það getur ýmislegt komið upp á í svona ferðum, fólk getur misstigið sig og snúið eða þurft aðstoðar við varðandi búnað o.þ.h.

 Horft yfir Langasjó. Ljósmynd Gunnar S. Guðmundsson

Við erum með heilmikla fræðslu fyrir fararstjóra okkar, námskeið í rötun, skyndihjálp og slíku til að tryggja öryggi hópanna.“ Skúli segir ekki mikið um að fólk sé að örmagnast – en í Jónsmessuferðinni yfir Fimmvörðuháls sé félagið með viðbúnað. „Jónsmessuferðin okkar yfir Fimmvörðuháls er einn stærsti viðburðurinn í dagskránni hvert ár. Það er oftast mikill földi sem tekur þátt í þessari göngu. Þá er gengið alla nóttina og þá viljum við vera við öllu búin. Þess vegna gerum við ráðstafanir til aðstoða fólk sem ekki treystir sér til að klára gönguna. Það þarf þó ekki oft að grípa til ráðstafana og þá helst ef eitthvað er að veðri..“

Einir, tvennir, þrennir eða fernir skór
Það er einfalt að reikna út hvort maður á erindi í þær ferðir sem Útivist hefur upp á að bjóða. Erfiðleikastig ferðanna er merkt með allt frá einum skó og upp í fjóra.

Einir skór þýða létta og þægilega göngu sem henta öllum sem á annað borð geta gengið. Yfirleitt er um að ræða styttri dagsferðir.

Tvennir skór þýða að gönguleiðin sé farin að lengjast eitthvað. Undir þetta falla lengri gönguferðir þar sem er trússað, það er að segja, fólk er ekki að bera allan farangur á milli náttstaða. Undir þriggja skóa ferðir falla allar almennar bakpokaferðir og þegar kemur að fjögurra skóa ferðum, er yfirleitt um að ræða jöklaferðir eða verulega erfiðar ferðir sem krefjast þess að fólk sé í góðu formi.

Aðspurður segir Skúli ekki mikið um að fólk ætli sér um of og trelji sig í betra formi en raun ber vitni – en þó komi það fyrir. „Það má kannski segja að þegar fólk ætli sér í nokkurra daga gönguferð án þess að hafa hreyft sig í langan tíma, þá sé það að ætla sér um of og það kemur fyrir. Hins vegar er eðlilegt í svona ferðum að koma þreyttur í náttstað. Það þýðir ekki að ferðin sé of erfið fyrir þig, heldur að þú sért að vinna á í þjálfun.“

Útivist er með skála á sex stöðum og sá sjöundi er að bætast við.
Flaggskipið er auðvitað í Básum. Þar slær hjarta Útivistar. „Fljótlega eftir stofnun félagsins fóru menn að huga að byggingu skála á Þórsmerkursvæðinu og við vorum svo lánsöm að fá þennan frábæra stað í Goðalandi,“ segir Skúli. „Þar eru tveir skálar. Sá stærri tekur sextíu manns og sá minni tuttugu og þrjá. Síðan er þar tjaldsvæði og á góðri helgi geta verið 800 til 1000 manns á tjaldsvæðinu, án þess að manni finnist neitt sérlega margt þar. Þar er góð salernisaðstaða og fín sturtuaðstaða – en hvað varðar afþreyingu þá er það auðvitað náttúran sjálf, því þarna eru fjölmargar stórbrotnar gönguleiðir, bæði lengri og skemmri.
Slakað á í Strútslaug. Ljósmynd Kristinn Atlason

Næsti skáli sem félagið byggði var á Fimmvörðuhálsi. Þar var raunar endurgerður skáli sem Fjallamenn höfðu byggt og var kominn í verulega niðurníðslu. Síðan hefur félagið byggt upp skála í tengslum við gönguleiðirnar Sveinstind-Skælinga og Strútsstíg. Skálinn i Sveinstindi, Skælingum og Álftavötnum, eru gamlir gangnamannakofar sem voru endurbyggðir – en 2002 var byggður nýr skáli við Strút sem svarar öllum nútímakröfum. Sá sjöundi, sem er í fæðingu, er svokallaður Dalakofi. Það er skáli sem við erum að endurbyggja og var upphaflega byggður af Rudolf Stolzenwald, sem var formaður flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu og mikill frumkvöðull í hálendisferðum. Þessi skáli er í Reykjadölum, rétt norðan við Laugafell. Auk þessa erum við að bæta við starfsmannaskála í Básum til að bæta aðstöðuna þar.“

Svo er bara að drífa sig af stað
Það er ekki margt sem jafnast á við þá upplifun að ganga um fjöllin og þarf ekki að fara í margar ferðist til að ánetjast þessari einstöku íþrótt. Það bíður sjónrænt ævintýri handan við hvert leiti og sú þreyta sem maður upplifir í náttstað að kvöldi er heilbrigð og góð þreyta. Fyrir þá sem áhuga hafa á að byrja að takast á við sjálfa sig og fjöllin skal bent á heimasíðu útivistar www.utivist.is þar sem finna má allar upplýsingar um ferðir sumarsins og starfsemi hinna ýmsu deilda, auk upplýsinga um útbúnað, fjölda mynda, frásagna og frétta.

Ferðafélagið Útivist
Opið alla virka daga 10 -17
Laugavegi 178 105 Reykjavík
Sími: 562 1000 Fax: 562 1001
utivist@utivist.is
www.utivist.is

 

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga