Greinasafni: Ferðaþjónusta
Útilega með rómantísku ívafi í Þakgili

Þær eru víða náttúruperlurnar sem ekki liggja í augum uppi við þjóðveginn. Ein þeirra er í Þakgili, staðsett á Höfðabrekkuafrétti milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands. Til að komast þangað er ekið fimm kílómetra sutur fyrir Vík í Mýrdal, beygt í norður hjá Hótel Höfðabrekku og keyrt um fimmtán kílómetra inn í landið.

Í Þakgili reka þau Bjarni Jón Finnsson og Helga Ólafsdóttir ferðaþjónustu, þar sem boðið er upp á tjalsvæði og gistingu í smáhýsum en það er bara byrjunin.

 
Það var árið 2001 sem þau Bjarni og Helga hófu undirbúning að því að gera svæðið byggilegt fyrir tjaldbúa. Þá þegar höfðu þau farið í ótal sunnudagsbíltúra inn á afréttina til að fullvissa sig um að það væri góð hugmynd að gera svæðið aðgengilegt fyrir ferðamenn. Í Þakgili var ágætt pláss fyrir tjaldstæði, gott skjól fyrir flestum áttum, lækur sem hægt var að virkja og hellir sem hægt var að breyta í matsal. Það var ekki um annað að ræða en að slétta tjaldstæði, byggja snyrtiaðstöðu og laga hellinn. Tjaldsvæðið var opnað á miðju sumri 2002. Í fyrravor reistu þau Bjarni og Helga síðan níu smáhýsi á svæðinu. En hvers vegna í Þakgili?

Tröllavegir
„Það er auðvitað umhverfið þarna í kring sem er stórbrotið og fallegt,“ segir Helga. „Þetta er inni á Höfðabraekkuafrétti þar sem er mikið af skemmtilegum gönguleiðum og einnig hægt að keyra um á jeppum. Það er hægt að fara hringinn inn að Heiðarvatni og síðan er smalastígur sem liggur inn að jöklinum. Þetta eru algerir tröllavegir – og sjálf mæli ég fastlega með því að fólk gangi þessa leið til að vera ekki svo upptekið af veginum að það gleymi að njóta náttúrunnar.“

Þegar Helga er spurð hversu langan tíma taki að ganga þessa leið, svarar hún: „Ef ég myndi ganga inn að jölklinum og til baka að Þakgili, tæki ég daginn í það. Það eru svo margir staðir á þessari leið sem er vel þess virði að staldra við, njóta og taka myndir. Síðan er hægt að fara í styttri gönguferðir í Remundargi l. Það er gilið austan við Þakgil og gangan þangað er létt, í henni enginn bratti sem talandi er um.“

Matsalur í helli
Tjaldstæðið í Þakgili er nokkuð stórt og segir Helga svæðið alveg bera fimm til sex hundruð manns í tjöldum, fellihýsum og húsbílum, en sjaldnast séu svo margir á svæðinu. Þar er hreinlætisaðstaða ágæt, fimm salerni og ein sturta, auk þess sem húsbílar geta tæmt tankana. „Svo er hellir á svæðinu þar sem er grill og borð og bekkir,“ segir Helga. „Þar er líka kamína inni sem hægt era ð kveikja upp í og við lýsum hellinn upp með sprittkertum sem hengd eru á hellisveggina á kvöldin.

Þetta er mjög kósí og það myndast oft mjög skemmtileg stemmning í hellinum á kvöldin. Oft er líka mikið fjör þar á daginn, því það er mikið um að hópar komi hér að deginum til og borði nestið sitt í hellinu.

Í smáhýsunum er boðið upp á svefnpokagistingu. Í hverju húsi er salerni og smá eldunaraðstaða. Þar eru ekki sturtur. „Reynsla okkar er sú að þeir gestir sem gista hér í eina til tvær nætur, eða lengur, gera mikið af því að skreppa niður til Víkur til að fara í sund. Þetta eru ekki nema tuttugu kílómetrar og fólk fer gjarnan þangað til að versla mat og aðrar nauðsynjar og bregða sér þá í sund í leiðinni.“ Í hverju húsi eru tvær tvíbreiðar kojur, þannig að þar er gistiaðstaða fyrir fjóra. Auk þess er í þeim ísskápur sem fær rafmagn frá dísilstöð sem hefur verið reist á staðnum.

Góð bækistöð fyrir göngufólk
Þegar Helga er spurð hvernig reksturinn hafi gengið ár frá ári, segir hún hann hafa gengið ágætlega. „ Ferðamannatíminn er stuttur hér en alveg traffíkin hefur verið alveg prýðileg. Aukningin var mest fyrstu þrjú árin á meðan staðurinn var að spyrjast út og síðustu þrjú árin hefur traffíkin verið mjög stöðug.· En hvers konar fólk gistir í Þakgili?

„Það er langmest göngufólk og fólk sem vill fara í góða, gamaldags útilegu með rómantísku ívafi. Síðan er nokkuð mikið um jeppamenn en lítið um hestamenn.“

Heimasíðan hjá Þakgili er www.thakgil.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga