Greinasafni: Sveitarfélög
Mögnuð náttúra í Mýrdalnum

Mögnuð náttúra einkennir Mýrdalinn. Náttúrufarið er mjög fjölbreytt þar sem beljandi jökulfljót og víðáttumiklir sandar mynda mótvægi við grasi grónar heiðar og láglendi. Í norðri gnæfir Mýrdalsjökul í öllu sínu veldi. Það má segja að í Mýrdalnum sé öllnáttúru landsins nema jarðhiti.

 
Mýrdalshreppur nær frá Jökulsá á Sólheimasandi í vestri að Blautukvísl á flóran í  Mýrdalssandi í austri og upp á miðjan Mýrdalsjökul í norðurátt. Í suðurátt blasir við Atlandshafið við. Í sjónum standa Dyrhólaey og Reynisfjall sem ramma inn hinn eiginlega Mýrdal. Ströndin við Vík og Reynisfjara vestan Reynisfjalls eru taldar með fegurstu ströndum í Evrópu með Reynisdröngum í austri og Dyrhólaey í vestri og eru því vinsæll staður kvikmynda- og auglýsingargerðarmanna, bæði innlendra og erlendra.

Af öðrum náttúruperlum má nefna Hjörleifshöfða, Kötlu, Heiðardalinn, Höfðabrekkuheiði og Höfðabrekkuafrétt.

Aðalatvinugreinin í Mýrdalnum hefur í gegnum árin verið landbúnaður og þjónusta við hann en vaxtarbroddurinn á undanförnum árum hefur verið í ferðaþjónustu. Um tvö hundruð þúsund ferðamenn heimsækja Mýdalinn á ári hverju, aðallega erlendir ferðamenn. Erlendum ferðamönnum virðist það ljóst hversu mögnuð náttúran er þarna. „ Innlendir ferðamenn mættu nýta sér betur þá ferðamöguleika sem hér eru,“ segir Sveinn Pálsson sveitastjóri í Mýrdalshreppi.

Vélsleðaferðir á Mýrdalsjökul hafa notið vinsælda en færri vita af því að einnig er boðið upp á hundasleðaferðir á jökulinn. Þá er hægt að fara í hjólabátaferðir í kringum Dyrhólaey. Víða eru góðar gönguleiðir og að sögn Sveins er nú verið að skipuleggja og kortleggja gönguleiðir um afrétti og heiðarlönd og vonast hann til að gönguleiðakort verið komið út í sumar. Fuglalífið er fjölskrúðugt í sveitinni og er kjörið að fara þar í fuglaskoðun. Sveinn segir að fínar aðstæður séu til að fylgjast með sjófuglum svo sem lundanum, fýlnum og kríunni.

Nýleg sundlaug er í Vík og golfvöllur er í göngufæri frá bænum. Þakgil er á Höfðabrekkuafrétti og má segja að það sé Þórsmörk Mýrdalsins. Þar eru tjaldstæði.

Sveinn segir að hótel- og gistiaðstaða sé góð í Mýrdalshreppi. „ Hér er hótel Höfðabrekka, sem er með stærri landsbyggðarhótelum á Íslandi, hótel Dyrhólaey og í Vík eru tvö hótel, gistiheimili og tjaldstæði. Þá er líka ferðaþjónusta á nokkrum bæjum í sveitinni.“

Að sögn Sveins er mannlífið mjög blómlegt og félagslífið öflugt. Þrátt fyrir að í sveitafélaginu búi aðeins um 5 hundruð manns eru þar starfandi kvenfélög, búnaðarfélög, lionsklúbbur, kirkjukór og gólfklúbbur svo dæmi séu tekin. Öflungur tónlistarskóli setur svip sinn á menningarlífið.

Sveinn segir að ungt fólk hafi verið að flytjast á svæðið enda séu þarna góðar aðstæður fyrir fjölskyldufólk. Áhersla hafi verið lögð á barna- og unglingastarf af ýmsu tagi.

Í Vík er verið að endurbyggja mörg gömul hús og í einu slíku sem kallast Brydebúð er sýning sem nefnist Mýrdalur – mannlíf og náttúra. Á sýningunni er stiklað á því helsta í mannlífinu og náttúrufarinu og er Katla þar í forgrunni enda eru 90 ár frá síðasta Kötlugosi. Í húsinu er einnig sýningin Gott strand eða vont.... Á þeirri sýningu er gerð grein fyrir skipsströndum, björgunum og hrakförum á strandlengjunni frá Sólheimastandi og austur í Öræfi.

Heimasíða Mýrdalshrepps er  www.vik.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga