Greinasafni: Ferðaþjónusta
Opinbera leyndardóma öræfanna

Arcanum hefur það að markmiði að opinbera leyndardóma öræfanna fyrir gestum sínum, segir Benedikt Bragason , sem á og rekur fyrirtækið ásamt sambýliskonu sinni, Andrínu Guðrúnu Erlingsdóttur og hann bætir við: „Enda merkir Arcanum leyndardómur og á því vel við starsemina.“

Benedikt byrjaði að vinna við fyrirtækið árið 1992 og segist aðeins hafa ætlað að vera í tvær vikur í upphafi. „Svo lengdi ég það um viku, síðan mánuð– og er hér enn. Þetta er eins og flensa sem ekki er hægt að losna við nema hvað þetta er skemmtilegt. Við höfum farið með mikið af þakklátum gestum í snjósleðaferðir inn á Mýrdalsjökul, kynnst aragrúa af skemmtilegu fólki og þetta er bara ævintýri .“

Þau Benedikt og Andrína Guðrún höfðu unnið hjá hinum ýmsu fyrirtækum á Mýrdalsjökli fram til 2001 „Maður var orðinn eins og nátttröll hér innfrá,“ segir hann, „ puðandi endalaust, sama hver átti fyrirtækið. En árið 2001 ákváðum við bara að kaupa það sjálf og reka og sjáum ekki eftir því.“


Með allan útbúnað
Arcanum á í dag um fjörutíu vélsleða, auk þess að reka stóran snjótroðara. „Í honum keyrum við fólk sem vill ekki fara á sleða. Við erum með samning við breska ferðaskrifstofu sem kemur með mörg þúsund börn á hverju vori og hausti til okkar. Við förum með þau upp á jökulinn í jökulfræðslu og skemmtilegheit. Þessar ferðir skólabarna frá Bretlandi hafa verið að aukast ár frá ári – enda fundu nú Bretarnir upp jöklafræðina í seinni heimsstyrjöldinni. Við fórum í fyrsta sinn með breska skólakrakka á jökulinn árið 2001 og núna eru þau farin að koma aftur sem fullorðið fólk í heimsókn. Þau tala mikið um ferðina sem þau komu hingað þegar þau voru skólakrakkar og það finnst okkur ákaflega skemmtilegt.“

Arcanum er eingöngu í snjósleðaferðum á Mýrdalsjökul og bjóða upp á áætlunarferðir á jökulinn fjórum sinnum á dag, klukkan 10.00, 12.00, 14.00 og 16.00. Hver ferð tekur um klukkustund. Og ekki þarf að hafa áhyggjur af útbúnaði því þau Benedikt og Andrína er með allt sem þarf til að fara í ferð á jökulinn. „Við erum með alla galla, bomsur, vettlinga og hjálma, lambúshettur og flíspeysur. Allt sem til þarf. Fólk getur þess vegna komið á stuttbuxum og sandölum. Það er eins gott fyrir okkur að vera með góðan útbúnað fyrir alla, því það er algengt að hingað komu útlendingar sem eru í óvissuferðum og engan veginn útbúnir til að fara á jökla. allavega útbúnir.“

Einbeitum okkur að jöklinum
Benedikt segir fyrirtækið einnig eiga dálítið af jeppum og trukkum vegna þess að það gerist að til þeirra komi fólk sem langar í smá jeppaferð á jökulinn. „Þá græjum við það, förum í stuttar ferðir bara til að leyfa fólki að upplifa tilfinninguna en við erum ekki í þessum jeppaferðum sem margir eru í. Við skiljum alveg á milli. Menn eru að reyna að sinna þessum jöklaferðum frá A til Ö með rútuferðum frá Reykjavík en við erum ekkert í því. Hins vegar erum við í samstarfi við Kynnisferðir sem koma til okkar fimm sinnum í viku. Við einbeitum okkur bara að jöklinum og dettur ekki í hug að vera í samkeppni við þá sem eru að koma með farþega til okkar.“

Og fyrirtækið er rekið allan ársins hring vegna þess að hægt er að fara á jökulinn allt árið. „Þessi jökull hefur góðar aðstæður síðsumars og snemma á haustin,“ segir Benedikt. „Hins vegar er von á öllum veðrum í desember og janúar, auk þess sem dagar eru þá stuttir. Þá lokum við, til að gera við tækin og stússa í viðhaldi og einhvern tímann verðum við að taka okkur frí. Við tókum þá stefnu að loka á þessum tíma vegna þess að það gerðist of oft að ekki var hægt að fara á jökulinn vegna veðurs. Það veldur svo miklum vonbrigðum þegar fólk er mætt á staðinn, svo við hættum ferðum yfir þessa tvo erfiðustu mánuði.“

Bækistöð Arcanum er á heimili Benedikts og Andrínu í Sólheimakoti, sem er síðasti bærinn áður en komið á jökulinn., tuttugu og þremur kílómetrum vestan við Vík í Mýrdal. En þangað er auðvelt að rata því þetta er fyrsti bærinn sem komið er að þegar ekið er yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Frekari upplýsingar má finna á  www.snow.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga