Dyrhólaeyjarferðir

Dyrhólaeyjarferðir eru eins og nafnið bendir til með hjólabáta-og landferðir út í Dyrhólaey. Dyrhólaey er syðsti hluti landsins og er um 120 metra há.

Úti fyrir eru klettadrangar sem eru sérstæð náttúrusmíð. Þar gefur að líta mjög fjölskrúðugt fuglalíf, má þar nefna, fýl, langvíu, álku, súlu, lunda og ýmsar mávategundir. Talið er að Dyrhólaey hafi myndast á hlýskeiði seint á ísöld við gos í sjó. Vesturhluti hennar nefnist Háey og er úr móbergi en austurhluti hennar er oft nefndur Lágey sem að meginstofni er úr grágrýti. Áður fyrr var útræði frá Dyrhóley og réru flestir bændur úr sveitinni til fiskjar að sækja sér björg í bú. Á síðari árum hafa bændur byggt upp myndarlegt æðarvarp í eynni sem nytjað er til dúntekju.

Í sjóferðunum er farið frá Dyrhólum, ekið niður sandinn og austur eftir brimströndinni þar sem Dyrhólaeyjargatið og drangarnir úti fyrir blasa við suður undan eynni. Þaðan er sjósett, síðan siglt í gegnum gatið á Dyrhólaey og meðfram nokkrum stærstu dröngunum úti fyrir eynni, þar á meðal Kambi, Háadrang, Lundardrang og Mávadrang. Í klettadröngum þessum er mikið og iðandi fuglalíf og stundum sést einnig selur á sundi eða uppi á skerjum. Mikið er lagt upp úr öryggi farþega um borð og eru öryggiskröfur eftir ströngustu reglum.

Fyrir þá sem vilja frekar fara landleiðina en siglingu eða ef ekki er hægt að sigla vegna öldu er boðið upp á skemmtilega landferð. Þá er einnig ekið frá Dyrhólum niður sandanna milli melhólanna og ekið eftir flæðarmálinu austur brimströndina að Dyrhólaey þar sem gatið fræga og stærstu drangarnir blasa vel við augum. Þar er áð um stund og gefst farþegum þá gott tækifæri til að njóta frábærs útsýnis, skoða bergmyndanir vestan í Dyrhólaey, taka myndir og ganga um hina fornu Dyrhólahöfn. Einnig er farið á bátnum að Hildardrang þar sem er gömul fjárrétt og lítil hellisskúti þar sem boðið er upp á hressingu.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga