Þar sem þögnin hefur hljóm
  Skaftárhreppur er land andstæðna, þar mætast ís og eldur, skóglendi og sandur, hraun og blómleg byggð, stórbrotin saga og kyrrlátt mannlíf.

Skaftárhreppur varð til með sameiningu fimm hreppa árið 1990 og nær frá miðjum Mýrdalssandi, út á miðjan Skeiðarársand og upp á miðhálendi. Sveitarstjórinn, Bjarni Daníelsson, segir vissulega komna langa reynslu á samstarfið – en bætir glettinn við: „Á sjómannadaginn vorum við með róðrarkeppni á Hæðagarðsvatni þar sem gömlu hrepparnir kepptu og það var greinilegt að þeir höfðu ekki gleymt neinu hvað varðar hrepparíginn.“

Skaftárhreppur er næst stærsta sveitarfélag á Íslandi að flatarmáli, eitthvað yfir 7000 ferkílómetrar og víst er að innan sveitarfélagsins eru einhverjar stórbrotnustu náttúrperlur landsins. Þekktastir eru líklega Lakagígar, 25 kílómetra löng gígaröð á Síðumannaafrétti. Lakagígar urðu til í einhverju mesta hraungosi á jörðinni á sögulegum tímum – og einu frægasta gosi á Íslandi fyrr og síðar, Skáftáreldunum árið 1783. Ennfremur má nefna Langasjó, stöðuvatn suðvestan Vatnajökuls sem er 27 ferkílómetrar að flatarmáli en svo gott sem allt umhverfi vatnsins er gróðurlaus auðn. Margar eyjar eru í vatninu og landslag er, vægast sagt, stórbrotið. Ennfremur Eldgjáin, um 40 kílómetra löng gossprunga á Skaftártunguafrétti, einstakt náttúrufyrirbæri sem talið er hafa myndast í stórgosi í kringum árið 900. Það myndi líklega æra óstöðugan að ætla að gera grein fyrir þeim ótal náttúrperlur sem liggja í Skaftárhreppi – en þó verður að minnast á Kirkjugólfið, Sönghelli, Systrafoss, Systrastapa – en fjölmörg örnefni í hreppnum eru frá tíma klausturhalds á Kirkjubæ og í Álftaveri. Einnig eru þar Dverghamrar, Fagrifoss, Fjaðrárgljúfur, Núpsstaðaskógur og Meðallandsfjara, svo eitthvað sé nefnt.

Vaxtarbroddurinn er í ferðamennsku
Það
má því segja að í sveitarfélaginu séu í boði allar tegundir af landslagi sem finnast á Íslandi, fjöll og sandar, blómleg byggð, beljandi jökulfljót, gróðurlausar auðnir, eldgígar og jöklar – og hraunið með öllum sínum litbrigðum. „Þetta svæði einkennist allt af mjög sérstökum náttúrufyrirbærum,“ segir Bjarni. „Hér er sjálft eldhraunið, gífurlega stórt svæði af gervigígum í Landbrotinu og svo auðvitað Skaftáin, það mikla vatnsfall sem setur svip sinn á sveitina og gerir stundum usla.“ 

Bjarni Daníelsson
sveitarstjóri Skaftárhrepps

Skaftárhreppur er svo ægifagur að þegar ekið er um svæðið á maður til að gleyma að hér er aðalatvinnugreinin hefðbundinn landbúnaður og eini þéttbýliskjarninn er á Kirkjubæjarklaustri. „Enn í dag býr aðeins einn þriðji af íbúunum í þéttbýli og tveir þriðju í sveitum – sem er líklega nokkuð óvenjulegt hlutfall,“ segir Bjarni. „Það sem hefur verið vaxtarbroddurinn í uppbyggingu hér er ferðamennskan. Hér hafa risið mörg hótel og gististaðir á undanförnum árum og hér eru margir vinsælir viðkomustaðir ferðamanna. Hér eru mörg náttúruvætti sem ferðamenn koma til að skoða. Við erum að vinna að því hægt og sígandi að gera þetta að aðgengilegra svæði fyrir ferðamenn og vekja athygli á því. Það má segja að við séum að reyna að fá fólk til að stoppa lengur hér en það hefur gert.“ Og víst er að enginn verður svikinn af því að staldra við og virða fyrir sér öll þau undur sem í sveitarfélaginu er að sjá.

Margar ágætar veiðiár
 „Lakagígasvæðið tilheyrir Skaftafellsþjóðgarði en varð nýverið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Það stendur til að innan árs verði Langisjór og töluvert landsvæði í kringum hann einnig hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Ein af gestastofum þjóðgarðsins mun rísa á Kirkjubæjarklaustri og verður sennilega risin hér 2010 og menn binda auðvitað miklar vonir við stofnun þjóðgarðsins í sambandi við uppbyggingu ferðaþjónustu á þessu svæði. Menn eru reyndar líka svolítið kvíðnir fyrir vaxandi umferð vegna þess að stórir hlutar af þessu landi, sérstaklega inni á hálendinu, eru mjög viðkvæmir fyrir umferð. Það verður reynt að vinna að því á næstu misserurm að umferð um þetta viðkvæma land verði ekki til að spilla náttúrunni.

Hér er ekki bara Skaftá, heldur eru margar ár á þessu svæði og margar hverjar ágætar veiðiár og því hefur þetta verið vinsæll staður til að veiða sjóbirting og bleikju. Núna er verið að endurskoða aðalskipulag Skaftárhrepps. Í því sambandi fer fram umræða um þá framtíðarsýn sem menn vilja velja sér fyrir þetta sveitarfélag og takast óneitanlega á nokkuð ólík sjónarmið. Það má segja að á öðrum endanum séu sjónarmið fullkominnar náttúruverndar og á hinum endanum þau sjónarmið að við þurfum að lifa af þessu landi og nýta þau landsgæði sem hér eru, meðal annars orkuna sem er í þessum mörgu fallvötnum hér – og síðan eru auðvitað margir á því að gera eigi eitthvað þarna mitt á milli. Þetta er mjög áhugaverð umræða og skilar vonandi einhverri sýn á það hvað best sé að gera hér áður en yfir lýkur.“

Góðviðrissvæði með gríðarlega möguleika
Þegar Bjarni er spurður um aðrar atvinnugreinar en landbúnað og ferðamennsku, segir hann: „Það er hér fiskeldi, m.a. stöð sem framleiðir hina víðfrægu Klausturbleikju. Síðan eru hér byggingafyrirtæki og allmörg þjónustufyrirtæki – en það hefur lítill vöxtur verið í öðrum greinum en ferðaiðnaði. Það fækkaði í sveitarfélaginu á síðustu tveimur áratugum eða svo um 250 manns og nú er íbúafjöldinn rétt innan við fimm hundruð. Einhvers staðar þar liggja sársaukamörk fjölbreyttrar þjónustu og þess vegna er mikill hugur í mönnum núna að snúa vörn í sókn.“
Hvað veðráttu varðar, segir Bjarni Skaftárhrepp vera góðviðrissvæði. „Auðvitað er hér allra veðra von eins og annars staðar á Íslandi – en hér eru sumur mild og vetur yfirleitt líka, þannig að við erum með mjög ákjósanlegt svæði til að byggja upp. Hér er alveg gríðarlega góðir möguleikar til uppbyggingar á mörgum sviðum. Það sem við þurfum á að halda er atorkusamt fólk sem vill fylgja eftir góðum hugmyndum“.

Ríkulegt menningarlíf og góð þjónusta 
Og víst er að hvorki heimamenn né gestir þurfa að láta sér leiðast. Í Skaftárhreppi eru einhverjar flottustu göngu- og reiðleiðir landsins, sem og akstursleiðir inn á hálendið. „Hér eru ótæmandi útivistarmöguleikar. Við erum líka með nýja sundlaug, ágæta laug með heitum pottum. Hér er félagsheimili þar sem haldnir eru tónleikar. Við erum með Kammertónleika á Kirkjubæjarklaustir aðra helgina í ágúst, fastur liður sem hefur verið í átján ár og í sumar verðum við þar að auki með tónleika allar helgar í júlí og jafnvel oftar, ásamt fleiri menningarviðburðum. Síðan er fastur liður hjá ferðaleikhópum og tónlistarmönnum að koma hér við, þannig að það er heilmikið af menningarlífi hér á staðnum. Fyrir þá sem hér vilja setjast að þá er hér afbragðs góður skóli, heilsugæsla, leikskóli, hjúkrunar- og dvalarheimili – þannig að hér er hægt að njóta góðrar þjónustu frá æsku til efri ára.

Það sem margir upplifa hér er að það er eins og hér ríki einhver friður í náttúrunni og himininn hér er stór. Það var það fyrsta sem ég veitti athygli þegar ég kom hingað – og þögnin hefur hljóm.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga