Skaftáreldar og móðuharðindin
 

Árið 1783 rann mikið hraunflóð úr Lakagígum á Síðumannaafrétti, þekkt sem “Skaftáreldar”. Er það talið eitt hið mesta hraunflóð sem runnið hefur á Jörðinni í einu gosi. Hraunstraumarnir fylltu gljúfur Skaftár og Hverfisfljóts og runnu þar til byggða í tveimur hraunfljótum og breiddust svo út yfir láglendið. Hraunið tók af marga bæi og eyddi stórum landsvæðum í byggðinni. Öskufall varð mikið og afleiðingar eldgossins urðu skelfilegar fyrir íbúa héraðsins og landsmenn alla. Þetta tímabil hefur verið nefnt “Móðuharðindin”.

Askan barst um mikinn hluta landsins, en öskulag varð hvergi þykkt, jafnvel ekki í nærsveitum. Öskuryk barst yfir til meginlands Evrópu og mistur sást í lofti austur til Altaifjalla í Kína. Ofursmáar gasagnirnar ásamt örfínu öskudufti bárust upp í heiðhvolfið. Það kemur ekki á óvart þegar horft er til þess að í öflugustu hrinunum hafi kvikustrókarnir, yfir gígunum, náð í 800 til 1400 metra hæð, verið á hæð við Esjuna eða jafnvel Snæfellsjökul. Magnið öskunnar er samt óverulegt miðað við hraunið, eða aðeins tæpt eitt prósent af því heildarefnismagni sem upp kom í gosinu. Samt sem áður er um verulegt gjóskulag að ræða, til dæmis er það fjórum sinnum efnismeira en gjóskulagið úr Heklugosinu 1980.

Áhrifum Skaftárelda má skipta í tvennt. Annars vegar hraunrennslið sem hafði aðeins staðbundin áhrif í nágrenni eldstöðvanna, en alls fóru 18 jarðir og ein hjáleiga í Skaftafellssýslu undir hraun og hins vegar áhrif ösku og eiturefna, sem voru mun víðtækari en áhrif hraunrennslisins, því að þeirra gætti um allt land. Meðal annars var flúor í öskunni, en það er mjög eitrað í miklu magni.

Í Móðuharðindunum fækkaði íbúum landsins úr 48.884 fyrir gos niður í 38.368 árið 1786 eða um tæpan fjórðung. Í Fljótshverfi, Meðallandi og á Síðu dóu tæp 40% íbúanna.

Sumarið 1785 lauk Móðuharðindunum eftir tveggja ára hörmungar. Fólki tók samt sem áður ekki að fjölga fyrr en 1787, og tóku þá jarðir í Vestur-Skaftafellssyslu og víðar að byggjast upp aftur.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga