Greinasafni: Ferðaþjónusta
Fræðslu- og menningarsetur á Kirkjubæjarklaustri
 
Kirkjubæjarstofa var stofnuð árið 1997 sem rannsókna- og menningarsetur á Kirkjubæjarklaustri að frumkvæði heimamanna með dyggum stuðningi nokkurra áhugasamra vísindamanna, sem hafa stundað hluta af rannóknum sínum á vettvangi í héraðinu. Markmið starfseminnar er að efla og styðja rannsóknir og lifandi fræðslu um náttúrufar, sögu og menningu héraðsins.

Samkvæmt upplýsingum Ólafíu Jakobsdóttur, verkefnisstjóra á skrifstofu Kirkjubæjarstofu, hefur Kirkjubæjarstofa allt frá stofnun meðal annars sinnt hlutverki sínu með því að halda árlegar ráðstefnur og fræðslufundi og stuðla að eða taka þátt í rannsóknarverkefnum sem tengjast áherslum starfseminnar.

Kirkjubæjarstofa er staðsett í elsta hluta þéttbýlisins á Klaustri í fögru umhverfi rétt við Systrafoss. Húsið var áður gistihús en hýsir nú skrifstofur nokkurra stofnana og sýningarsal Kirkjubæjarstofu.

Mikill ferðamannastaður
Kirkjubæjarklaustur er mikill ferðamannastaður og flestir ferðamenn sem dveljast á svæðinu leggja leið sína að Systrafossi eða ganga upp í skógi vaxna hlíðina upp að Systravatni sem er upp á Klausturfjalli skammt frá brún þess. Ólafía segir að það sé því tilvalið að koma við á Kirkjubæjarstofu og fræðast um stórbrotna náttúru, sögu og menningu svæðisins á sýningu sem opin er yfir sumartímann í júní, júlí og ágúst, en utan þess tíma samkvæmt samkomulagi.

Sýningin “Sagan í sandinum- Klaustrið í Kirkjubæ” kynnir niðurstöður fornleifarannsókna á rústum nunnuklaustursins á Kirkjubæ sem fram fóru árin 2002- 2006. Nunnuklaustrið á Kirkjubæ var stofnað 1186 og stóð þar allt fram til siðaskipta um 1554. Margt forvitnilegt hefur komið í ljós við rannsóknirnar og munir sem fundist hafa eru á sýningunni.

Sýningin “Á slóðum Skaftárelda- eldfjall, maður, náttúra” segir frá Lakagígagosinu eða Skaftáreldum 1783 – 1784 og séra Jóni Steingrímssyni á Prestsbakka sem kallaður hefur verið „eldpresturinn“. Sr. Jón var sóknarprestur á tíma Skaftáreldanna og flutti hann hina frægu „Eldmessu“ þann 20 júlí 1783 sem talin var hafa stöðvað rennsli hraunsins yfir bæ og kirkju á Kirkjubæjarklaustri. Staðurinn þar sem hraunið stöðvaðist heitir Eldmessutangi og er hann skammt vestan við Systrastapa, leiðin þangað liggur um Klausturhlaðið þar sem hús Kirkjubæjarstofu stendur. Um þessar mestu nátttúruhamfarir Íslandssögunar og afleiðingar þeirra er hægt að fræðast um á sýningu Kirkjubæjarstofu.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga