Greinasafni: Hótel og gisting
Gamla gistihúsið í Skaftárhreppi.
Landnámsjörðin Kirkjubær á Síðu hefur frá upphafi verið stórbýli í þjóðbraut og þar hafa húsakynni löngum verið reist af meiri stórhug en annarsstaðar í Skaftárhreppi. Eftir að bærinn í Holti var tekinn niður og fluttur á byggðasafnið í Skógum er gamli bærinn á Klaustri elsta bæjarhús hreppsins, en hann var byggður árið 1885 og þá sem sýslumannssetur; sýslumenn Skaftfellinga sátu á Klaustri til 1904 er embættið var flutt til Víkur. Lárus Helgason keypti Kirkjubæjarklaustur árið 1905 og bjó þar til dauðadags 1941, hin síðari ár í félagi við syni sína, einkum þá Siggeir og Valdimar, en eftir fráfall Lárusar var stofnað hlutafélag um búreksturinn.

Jafnan var mikið um gestakomur á Klaustri því þar fóru flestir um sem áttu leið um sýsluna hvora leiðina sem var. Kom þar að Klausturbærinn var of lítill til að taka við öllum sem beiddust gistingar.

Því réðst Lárus heitinn í að byggja gistihús gegnt bæ sínum árið 1939, reisulegt hús að þeirra tíma mælikvarða og var það vígt á verslunarmannahelgi sama ár. Af því tilefni var slátrað nauti og af því snæddu liðlega hundrað gestir en auk þess voru að jafnaði milli 20 og 30 manns heimilisfastir á Klaustri. Fyrstu árin var einungis gisting í húsinu en matseld og borðhald fóru fram inni í bæ.

Árið 1942 voru innréttuð eldhús og matsalur á neðri hæð hússins. Gistiherbergi voru ellefu. Gistihúsið var alla tíð starfsrækt allt árið en starfsemin breyttist eftir árstímum.

En þar kom að stærri og nýtískulegri hús risu á Klaustri. Unglingaskóli tók til starfa í nýbyggingu 1970-71, raunar með tilstuðlan Ferðaskrifstofu ríkisins sem hóf rekstur Edduhótels í húsinu 1971. Ekkert mötuneyti var í skólanum fyrstu árin en notast var við aðstöðuna í gamla gistihúsinu sem síðar varð um árabil einskonar útibú frá Edduhótelinu og síðan Hótel Kirkjubæjarklaustri.

Árið 1996 samdist svo um að hið nýstofnaða menningar-og fræðasetur, Kirkjubæjarstofa, yrði til húsa í gistihúsinu og má segja að þetta merka hús hafi þar með fengið nýtt hlutverk, þegar hún opnaði árið 1997. Á efri hæð hússins, þar sem áður voru gistiherbergi, eru nú skrifstofur. Þar er skrifstofa Kirkjubæjarstofu, þar sem landupplýsingakerfið ARFUR er vistað, Þar eru einnig með skrifstofuaðstöðu; Búnaðarsamband Suðurlands, Héraðssetur Landgræðslunnar, Suðurlandskógar og Þjóðgarðurinn Skaftafell. Á neðri hæð hússins eru sýningarsalir Kirkjubæjarstofu og gestamóttaka með vinnuaðstöðu fyrir gæslumann.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga