Greinasafni: Ferðaþjónusta
Áning í faðmi fjallanna. Í Tunguseli í Skaftártungu
 Félagsheimilið í Tunguseli hentar vel til ættarmóta og fyrir hópa af öllum stærðum.

Í Tunguseli í Skaftártungu er áhugavert félagsheimili fyrir ættarmót og aðra hópa sem vilja æja áður en þeir halda á hálendið – eða eru að koman niður af hálendinu. Þar er húsráðandi Jón Geir Ólafsson sem segir félagsheimilið hafa verið leigt út sem svefnpokapláss og fyrir hópa á sumrin. „Þetta er einn salur, þar sem eru fjörutíu dýnur, eldhús og sturtur. Síðan höfum við leigt þetta út um helgar fyrir ættarmót og slíkt. Ágætis tjaldaðstaða er hérna fyrir utan og þeir sem eru á tjaldstæðinu hafa aðgang að öllu í húsinu. En þetta er ekki tjaldstæði í þeim skilningi að það eru ekki snyrtingar úti, heldur leigð með húsinu.“

Félagsheimilið er um það bil fjóra kílómetra frá þjóðveginum á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs, þó nær Klaustri. „Fjallabaksleiðirnar koma báðar hér niður, þannig að það má segja að við séum við austurendann bæði á syðri og nyrðri Fjallabaksleið,“ segir Jón Geir og bætir því við að svona hafi félagsheimilið í Tunguseli verið rekið frá upphafi, eða í tuttugu ár, „þótt í rauninni hafi aldrei verið gert út á þetta.“

Tungusel er um þrjátíu kílómetrar frá Kirkjubæjarklaustri þar sem er ný sundlaug, verslun og öll þjónusta – en slíku er ekki til að dreifa á staðnum. Tungusel er einkum ætlað þeim sem vilja dvelja með sínum hópi í algerri kyrrð – í faðmi fjallanna í orðsins fyllstu merkingu. En allt í kring eru náttúruperlur, til dæmis í Hólaskjóli og Eldgjá og Hólsárlóni og Rauðabotni inni á Fjallabaksleið, sem og og Axlarfoss. „Þetta eru náttúruperlur sem eru ekki í alfaraleið en mjög auðvelt er að komast að þeim,“ segir Jón Geir. „Útfallið úr Hólsárlóni er mjög sérstakt. Það fellur út í þrengslum og fossum og er ákaflega fallegt. Það er alveg tvímælalaust uppáhaldsstaður minn á afréttinum.“

Jón Geir segir Félagsheimilið í Tunguseli kjörinn stað fyrir þá sem eru að halda ættarmót og mjög vinsælt sem slíkt – „enda geta leikandi verið tvö hundruð manns á tjaldstæðinu og í húsinu – við tökum á móti um 170 manns á Þorrablótum.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga