Greinasafni: Hótel og gisting
Notalegt sveitahótel með þjóðlegu eldhúsi
  Hótel Geirland er vel staðsett og hótelhaldarar leitast við að að þjóna gestum sínum vel og fræða þá um söguna og markverða staði
Í Geirlandi, um þrjá kílómetra frá Kirkjubæjarklaustri, er notalegt og vel búið sveitahótel sem samanstendur af tveggja manna herbergjum með baði, góðu veitingahúsi, persónulegri þjónustu og „fögru umhverfi, rólegheitum, ótakmarkaðri náttúrufegurð og veðursæld, gönguleiðum hvert sem þú vilt, skoðunarferðum upp um fjöll og firnindi, þjóðgarðinum okkar, Jökulsárlóni, traktorsferðum á Ingólfshöfða og jöklaferðum á Mýrdalsjökul.,“ eins og Erla Ívarsdóttir segir en hún rekur Hótel Geirland ásamt manni sínum, Gísla Kjartanssyni.

Hótel Geirland rúmar 65 manns í þrjátíu og tveimur herbergjum og er opið allt árið. Sum herbergjanna eru með sjónvarpi, 28 með sérbaðherbergi og öll með kaffibakka, þannig að fólk getur hitað sér kaffisopa á herberginu.

Á öllum tímum innan löglegs ramma
„Þetta er samt sveitabýli,“ segir Erla. „Við erum sauðfjárbændur og ræktum hross og gestir okkar geta fylgst með okkur við búverkin. En það er fleira áhugavert hér. Við fætur okkar liggur saga Skaftárelda, nunnuklaustursins á Kirkjubæjarklaustri og fleiri sögufrægra staða og við veitum upplýsingar um þetta allt eftir bestu getu.“

Á hótelinu er veitingahús með matseðli og bar. Þar er að sjálfsögðu framreiddur morgunmatur og síðan er matseðillinn nokkuð fjölbreyttur. „Við reynum að hafa þjóðlegan og góðan mat og reynum að koma til móts við þarfir allra í því sambandi, við bjóðum upp á lambakjöt og auðvitað Klausturbleikjuna sem er þjóðarréttur hér á svæðinu. Einnig erum við með grænmetisrétti fyrir þá sem ekki borða kjöt og fisk. Við leitumst við að koma til móts við þarfir sem flestra.

Veitingastaðurinn tekur áttatíu manns í sæti með góðu móti, sem fer þó eftir því hvernig er raðað upp í hann eins og Erla segir. „Síðan erum við með litla koníaksstofu í framhaldi af veitingasalnum. Hvað opnunartíma varðar, þá er hann ekki ákveðinn, við sinnum okkar gestum á öllum mögulegum og ómögulegum tímum – innan löglegs ramma.“

Við eigum að hlusta á ferðamanninn
Erla
er orðin nokkuð reynd í rekstri síns fyrirtækis vegna þess að tuttugu ár eru liðin frá því að hún opnaði fyrst ferðaþjónustu í Geirlandi. „Það var í smáum stíl,“ segir hún. „Þetta hefur verið að byggjast upp hjá okkur smám saman og traffíkin alltaf að aukast. Ferðatíminn er alltaf að lengjast og við erum með opið allt árið.“ En þótt reksturinn í Geirlandi telji aðeins tvo tugi, hefur Erla starfað við ferðaþjónustu í yfir fjörutíu ár og segist lítið annað kunna. „Reynslan er orðin dálítið löng. Það hefur verið gaman að fylgjast með þróuninni í gegnum tíðina og breytingum sem hafa orðið á móttöku ferðamanna og mynstri ferðamanna sjálfra, það er að segja, hvernig þeir ferðast.“ En finnst henni við Íslendingar vera á leiðinni í rétta átt?

„Það mundi ég segja. Maður getur kannski haft áhyggjur af einstaka stöðum á landinu. Sumir staðir þarfnast meira eftirlits en aðrir vegna gífurlegs fjölda ferðamanna sem koma þangað – en ég myndi segja að við stefnum í rétta átt. Við eigum afskaplega fallegt land – en þurfum að átta okkur á því hvað ferðamaðurinn vill sjá. Við þurfum að reyna að horfa á ferðamennskuna með augum ferðamanna. Þetta rann upp fyrir mér fyrir nokkrum árum þegar ég var að spjalla við þýska stúlku sem dvaldi hér á hótelinu hjá mér. Ég spurði hana hvaða staður á Íslandi henni hefði þótt fallegastur. Það fallegasta sem hún hafði séð hér á landi voru Möðrudalsöræfin og svörtu sandarnir.“

Koma til að hvílast
„Þá hrökk ég í kút vegna þess að þetta var eitthvað sem okkur á Íslandi fannst ekki fallegt. Svo eigum við kannski að notfæra okkur það að fólki finnst svo gott að upplifa kyrrðina. Fólk sem kemur fyrir utan háannatímann segist hvílast svo vel við að geta verið eitt út af fyrir sig, upplifa norðurljósin og stjörnurnar. Það eru ekki allir ferðamenn að leita að djammi og góðu veðri.“

Geirland - 800 Kirkjubæjarklaustur 
Sími: 487-4677  - Fax: 487-4677 
geirland@centrum.is
www.geirland.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga