Saga Reykjavíkur - Bærinn vaknar 1870-1940. Eftir Guðjón Friðriksson
Bærinn vaknar 1870-1940 (1991)
Guðjón Friðriksson
Útgefandi: Iðunn 1991.

Nokkur undanfarin ár hafa þrír sagnfræðingar unnið á vegum Reykjavíkurborgar við að rannsaka og skrá sögu Reykjavíkur. Ætlunin er að árangur þessa starfs birtist í fimm binda ritverki er spanni sögu borgarinnar fram á síðustu ár. Þorleifur Óskarsson mun gera tímabilinu fram til 1870 skil í einu bindi, Guðjón Friðriksson ritar tvö bindi um árabilið 1870­ 1940 og Eggert Þór Bernharðsson önnur tvö um tímann eftir 1940. Þeir Eggert Þór og Guðjón hófu vinnu að sínum hlutum verksins 1985 og Þorleifur tveimur árum síðar.

Fyrsta ritið í þessari ritröð kom út fyrir skemmstu. Þar er á ferðinni fyrri hluti rits Guðjóns Friðrikssonar, Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar 1870­1940. Af þessu bindi má ráða að hér er á ferðinni umfangsmesta úttekt á sögu sveitarfélags sem ráðist hefur verið í að rita hérlendis. Fer vel á því að slíkur metnaður sé lagður í sögu höfuðborgarinnar af hálfu þeirra sem að ritun og útgáfu verksins standa. Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar er ennfremur óvenjulega glæsilegt rit hvað allan ytri búning varðar. Ritið er í stóru broti, prýtt hundruðum mynda; engin opna hinna liðlega 500 textasíðna er myndlaus. Auk ljósmynda eru myndir úr fréttablöðum, myndir af fregnmiðum, auglýsingum o.fl. notaðar til að glæða textann lífi. Langflestar myndanna prentast vel, enda hefur metnaður verið lagður í vinnslu þeirra og pappír bókarinnar valinn af kostgæfni. Myndefnið fellur vel að textanum og margar myndanna hafa sjálfstætt heimildargildi. Í bókinni er einnig að finna línurit og skífurit um margvíslega þætti bæjarfjármála, atvinnulífs og fólksfjöldaþróunar.

Það er þó skylt að geta þess að stór hluti ljósmyndanna hefur birst á prenti áður. Sparlegri notkun ljósmynda hefði því vel komið til greina, ef aðstandendum ritsins hefði verið í mun að draga úr umfangi þess og kostnaði við hönnun og umbrot. Með því móti hefði ritið vafalaust orðið ódýrara og því komið fyrir augu fleiri áhugasamra lesenda, eins og mér finnst texti Guðjóns eiga skilið.

Þótt mikið sé lagt í hönnun bókarinnar er hún að mínu mati ekki hafin yfir gagnrýni. Hver nýr kafli hefst á sérstaklega hannaðri opnu. Af þessum sökum er nokkuð um auðar hægri síður á undan kaflaskilum. Þetta er óvenjulegt að sjá í bókum. Miðað við hina ríkulegu myndskreytingu sætir nokkurri furðu að þessar síður skyldu ekki notaðar undir myndir. Ennfremur finnst mér hönnun kaflafyrirsagna og kaflanúmera hafa tekist miður en skyldi. Kaflafyrirsagnir eru að mínu mati með of litlu letri og kaflanúmerið furðulega staðsett í skyggða fletinum aftan við kaflafyrirsögnina. Hér er að sjálfsögðu um smekksatriði að ræða; vafalaust hefur útlitshönnuður bókarinnar þaulhugsað þessa útfærslu og getur fært rök fyrir henni, þótt ekki falli hún að mínum smekk.

En víkjum frá hinum glæsta ytri búnaði bókarinnar að texta Guðjóns Friðrikssonar.

Guðjón hefur rit sitt á prýðilegri úttekt á bæjarbrag og lifnaðarháttum í Reykjavík um 1870. Hann leiðir okkur inn í ólíkar vistarverur embættismannastéttarinnar annars vegar (þar sem landfógetaheimilið verður fyrir valinu sem dæmi) og tómthúsmannastéttarinnar hins vegar (torfbærinn Sölvhóll). Hann notar ýmsa heimildaflokka til að lýsa innbúi og heimilishögum, greinir frá vöruútektum heimilanna, mataræði o.s.frv. Að loknum lestri fyrsta kafla ritsins ætti lesandinn að vera talsvert miklu nær um allar aðstæður í þessum tæplega tvö þúsund íbúa bæ, sem kom erlendum ferðalöngum fyrir augu "eins og skipulagslaus landnemabær í Villta vestrinu eða kósakkaþorp" (bls. 23). Ytri umgerð þess mannlífs sem lifað var í Reykjavík á síðustu áratugum 19. aldar er síðan dregin skýrari dráttum í öðrum kafla ritsins sem fjallar um byggingar og skipulag 1870­1905.

Í köflunum sem á eftir fylgja, 23 að tölu (25 kaflar alls), fjallar Guðjón Friðriksson síðan um bæjarmálefni og flest meginsvið mann- og atvinnulífs í "höfuðstaðnum". Nokkuð er misjafnt hversu löng tímabil einstakir kaflar spanna. oftast nær umfjöllun Guðjóns um einstaka málaflokka fram til ársins 1916; í einstaka tilviki skemur (t.d. kafli 7, um Reykjavík sem valdamiðstöð, sem nær til 1904) en í sumum tilvikum (kaflar 3, 13, 15, 16, 18 og 20) allt til ársins 1940. Umfjöllun um suma málaflokka er skipt í tvö tímabil. Þannig fjallar Guðjón um sjávarútveg í tveimur köflum sem taka til tímabilanna 1870­1905 annars vegar og 1906­1917 hins vegar. Sambærileg tímabilaskipting er viðhöfð í umfjöllun um skemmtanalíf, bæjarstjórnarmálefni, verslun o.fl.

Ég hygg að auðveldlega megi rökstyðja að ákveðin þáttaskil hafi orðið í sögu Reykjavíkur á fyrsta áratugi þessarar aldar. Vélvæðing átti sér stað í sjávarútvegi, gagnger umskipti urðu í húsnæðismálum og gatnagerð, samgöngur tóku umskiptum. Á sama tíma komst landið í betra samband við umheiminn og ört vaxandi íbúafjöldi í höfuðstaðnum gerði kröfu til fjölbreyttari þjónustu af ýmsum toga en áður hafði tíðkast. Þá festi Reykjavík sig ennfrekar í sessi sem stjórnsýslumiðstöð landsins með tilkomu Heimastjórnar 1904. Allt þetta mælir með þeirri tvískiptingu tímabilsins 1870­1916 sem Guðjón velur að styðjast við í þessum köflum. Á hinn bóginn virðist mér ekki eins augljóst að ártalið 1916 marki á flestum sviðum jafn afgerandi tímamót í sögu bæjarins eins og Guðjón virðist telja, úr því að hann lætur frásögn sína oftast staðnæmast við það ártal. Því sakna ég þess að Guðjón geri ekki rækilegri grein fyrir efnisskipan og tímabilaskiptingu í inngangi ritsins. Inngangurinn er afar snubbóttur, þegar tillit er tekið til þess hversu umfangsmikið rit á í hlut og á margan hátt flókið að byggingu. Eðlilegt hefði einnig verið að gera lesendum grein fyrir skiptingu efnisþátta á milli fyrri og seinni hluta verksins.

Markmiðum ritsins er þannig lýst í inngangi:

"Það er haft að leiðarljósi við þessa söguritun að hún mætti vera við alþýðuhæfi án þess þó að slegið væri af fræðilegum kröfum . . . Hafa verður í huga að hér er um yfirlitssögu eða heildarsögu að ræða. Reynt var að segja söguna frá sjónarhóli bæjarbúa sjálfra fremur en stofnana borgarinnar og má því kalla hana hversdagssögu" (bls. VII­VIII).

Þótt þessi markmiðssetning sé hvorki löng né rækilega studd kenninga- eða aðferðafræðilegum rökum er Guðjón henni trúr í vinnubrögðum. Texti hans er undantekningalítið þjáll og skýr og ályktanir reistar á vandaðri rannsókn heimilda. Meginstyrkleiki ritsins er að mínum dómi hversu vel Guðjóni Friðrikssyni lætur að segja söguna "frá sjónarhóli bæjarbúa sjálfra". Þetta á ekki einungis við um kafla á borð við þá um bæjarbrag og skemmtanir eða menningu og listir, heldur einnig um þætti sem við fyrstu sín kunna að virðast síður fallnir til "samfélagsskoðunar neðanfrá", eins og t.d. kaflana um "þvotta og neysluvatn" (bls. 249­269) og "steinsteypu, holræsi og malbik" (bls. 271­290). Víðast fær þessi viðleitni Guðjóns til að rita "hversdagssögu" góðan stuðning af myndefninu, sem hjálpar til að skýra ýmis atriði textans fyrir lesendum og gera hann einatt ljóslifandi. Er í þessu sambandi mikilvægt að geta þess að mikil alúð hefur verið lögð við að vanda myndatextana sem mest.

Undirtitill bókarinnar, Bærinn vaknar, er vel við hæfi. Á því tímabili sem ritið tekur til verða mikil þáttaskil í íslenskri sögu. Samfélagsgerð bændasamfélagsins var að riða til falls og ný að fæðast. Framan af tímabilinu var Reykjavík einhver augljósasti vitnisburður um þetta. Reykjavík var helsta þéttbýli landsins og borgaralegir atvinnuhættir og viðhorf festust þar fyrr í sessi en annars staðar. Á tímabilinu 1870­1915 fjölgaði íbúum úrtæplega 2.000 í liðlega 14.000. Árið 1940 voru þeir orðnir fleiri en 38.000. Viðfangsefni bæjarstjórnar breyttust eðlilega mikið í kjölfar þessa. Fram á síðustu áratugi 19. aldar voru fátækramál annasamasta verkefni bæjarstjórnar (bls. 75­81), en lítill skilningur var á því að bráðra umbóta væri þörf í brunavörnum (bls. 351­364) og hreinlætismálum. Á næstu áratugum hurfu opnu göturæsin sem víða sjást vel á myndum í bókinni og bæjaryfirvöld hófust handa um varanlegri gatnagerð, götulýsingu, holræsagerð, vatnsveitu og orkuveitu og hafnargerð svo nokkuð sé nefnt. Á þessu árabili breyttist Reykjavík frá því að vera lítil þyrping torfbæja og timburhúsa í snotra litla borg.

Guðjóni Friðrikssyni tekst vel að gera grein fyrir þessum umskiptum og áhrifum þeirra á mannlíf og bæjarbrag. Þannig tekst honum ótvírætt að ná því markmiði sem hann setti sér. Auðvitað má alltaf deila um einstaka atriði í framsetningunni, en slík rökræða á betur heima í fagtímariti en Morgunblaðinu. Mestu máli skiptir að hér er í heild vel á málum haldið. Tilvísanir til heimilda eru rækilegar og vandaðar skrár auðvelda notkun ritsins. Helst mætti yfir því kvarta að upplýsingar um heimildir skýringarmynda séu ekki gleggri.

Þótt heildardómur um Sögu Reykjavíkur 1870­1940 bíði þess að síðari hlutinn komi út gefur þetta bindi sögunnar góð fyrir heit um framhaldið. Höfundur hefur yfirburðaþekkingu á viðfangsefni sínu og setur mál sitt vel og skilmerkilega fram. Full ástæða er til að óska Guðjóni Friðrikssyni og Reykvíkingum öllum til hamingju með ritið.
Gísli Ágúst Gunnlaugsson. Desember 1991

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga