Greinasafni: Skipulag
ÍAV. Íslenskir aðalverktakar um fjölbýlishúsin á Norðurbakkanum í Hafnarfirði

Flott heimili fyrir kröfuharða.

Höfum lagt mikla áherslu á stór, björt og opin rými, segir Eyjólfur Gunnarsson hjá ÍAV um fjölbýlishúsin á Norðurbakkanum í Hafnarfirði

Á Norðurbakkanum í Hafnarfirði rísa nú glæsileg fjölbýlishús sem sannarlega henta þeim sem alltaf hafa látið sig dreyma um að búa við sjóinn. Íslenskir aðalverktakar eru að byggja þar fjögur hús og eru tvö þeirra farin í sölu, Norðurbakki 15, sem er fjögurra hæða lyftuhús með átta íbúðum og Norðurbakki 17, sem er fimm hæða lyftuhús með samtals þrjátíu íbúðum í þremur stigahúsum.
 
Eyjólfur Gunnarsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá ÍAV segir sölu á íbúðunum fara vel af stað og almennt sé fólk sem hefur skoðað þær mjög hrifið. „Það skiptir töluvert miklu máli,“ segir hann, „að hafnfirska arkitektastofan, Batteríið, sá um deiliskipulag á svæðinu. Þeir gerþekkja því alla möguleika sem deiliskipulagið býður upp á.“

Mikið lagt í lóðirnar

Húsin fjögur verða samtengd með sameiginlegum bílakjallara, þar sem eru 106 stæði vegna þess að sumum íbúðunum fylgja tvö stæði, auk þvottastæðis. Alls verða átta sigahús með tveimur eða þremur íbúðum á hæð í hverju stigahúsi. Innangengt er úr bílageymslum inn í stigaganga í kjallara húsanna. Auk þess eru bílastæði við húsin sem eru hellulögð og afm0örkuð með litabreytingu í hellulögn. Stígar eru heillulagðir. Tröppur utanhúss eru úr steinsteypu, stáli og timbri og snjóbræðsla er við aðalanddyri húsanna sem og niðurkeyrslu að bílageymslu. „Við erum að leggja mikið í lóðina,“ segir Eyjólfur, „og höfum fengið landslagsarkitekt til að hanna hana. Á þaki bílageymsluhúss er sameiginlegur garður með leiksvæði, garðbekkjum og púttvelli. Við aðalinnganga og í aðkomu bílageymslu verða gróðurbeð, grasflatir eru þökulagðar en púttvöllur er lagður gerfigrasi. Lýsing verður á bílastæðum og þakgarði bílageymslu.
Við hönnunina lögðum við mikla áherslu á að vera með stór, björt og opin rými. Við erum, til dæmis, með gólfhita í íbúðunum til þess að geta haft gólfsíða glugga, auk þess sem í íbúðunum er hærra til lofts en gengur og gerist, eða 2.70 metrar. Síðan skilum við íbúðunum fullbúnum með öllum gólfefnum. Gólfplötur eru einangraðar til aukinnar hljóðeinangrunar. Gólf í forstofu, gangi, stofu, eldhúsi og svefnherbergjum eru parketlögð og getur kaupandinn valið um nokkrar viðartegundir.  Í baðherbergi og þvottaherbergi eru gólf flísalögð, en veggir baðherbergja eru flísalagðir auk þess sem sökkulflísar eru á veggjum í þvottaherbergjum. Hvað innihurðir varðar, þá eru þær spónlagðar og er val um þrjár viðartegundir. Það á einnig við um innréttingar.“

Að minnka við sig
Eyjólfur segir húsin einangruð og klædd að utan með áli og harðviði og gluggar séu álklæddir timburgluggar og þarfnist því lágmarks viðhalds. Þegar hann er spurður hvers konar fólk hafi sé að sækja í íbúðirnar, segir hann stærsta hópinn vera fólk 45 ára og eldra. „Við ákváðum í upphafi að stíla inn á fólk sem er að minnka við sig húsnæði, fólk sem kýs þann lífsstíl að búa í viðhaldslitlu, vönduðu fjölbýli. Í þeim hópi ber mest á fólki sem er að minnak við sig húsnæði, fólk sem er að selja hæðir, raðhús, einbýli og vill losna við viðhald húss og vinnu við lóðir og garða. Þegar fólk er komið á þetta stig í lífinu, börnin farin að heiman og svo framvegis, þá er algengt að það vilji ekki vera bundið yfir alls konar viðhaldsmálum og garðavinnu. Það vill oft frekar nota tímann til að ferðast og njóta lífsins. Fólk er farið að vilja fara yngra í fjölbýli en áður og aldurinn er að færast töluvert niður“
Þegar Eyjólfur er spurður hvað hann eigi við, segir hann að fólk sem hefur lengi búið í sérbýli, geri vissar kröfur, sem ekki sé endilega svarað í hefðbundnum fjölbýlishúsum. „Ef við tökum, til dæmis, hljóðeinangrunina,“ segir hann, „þá erum við með tvöföld gólf, þannig að það heyrist mun minna á milli hæða en ella. Það eru tvennar svalir með flestum íbúðunum og í þeim er loftskiptakerfi. Í hverri íbúð er mynddyrasími sem er frágenginn og staðsettur í anddyri.“
Eyjólfur segir viðbrögðin við húsunum hafa verið mjög góð og salan farið vel af stað – enda ekki á hverjum degi sem glæsilegar íbúðir við sjóinn eru í boði.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga