Greinasafni: Arkitektar
Arkitektur.is
Skipulag bæja og borga er undirstaða mannlífsins

Arkitektur.is hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir byggingahönnun og þykir skara fram úr þegar kemur að hönnun deiliskipulaga og afmarkaðra svæða.


Arkitektastofan Arkitektur.is hefur skapað sér góðan orðstír fyrir skipulagsvinnu fyrir stór og lítil sveitarfélög, auk þess sem stofan hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir byggingar af ýmsu tagi, meðal annars tvenn 1. verðlaun og ein 3. verðlaun fyrir tillögur að blandaðri byggð í Hagalandi á Selfossi 2006, 1. verðlaun fyrir tillögu að stækkun höfuðstöðva Íslandsbanka 2005 og 1. verðlaun fyrir tillögur að Landspítala Háskólasjúkrahúsi 2005 ásamt C.F. Möller.
 
Götumynd við Rósavelli í Hafnarfirði
 
Arkitektur.is er með höfuðstöðvar í Reykjavík en rekur auk þess útibú á Akureyri og í Reykjanesbæ. Starfsmenn eru alls tuttugu og tveir. Meðal stærstu skipulagsverkefna stofunnar hafa verið Vellir 7 og Hamranes 1 í Hafnarfirði samanlagt um 55ha, 26ha íþróttasvæði í Reykjanesbæ og skipulag allt að 6000 manna íbúabyggð í Reykjanesbæ. Og auðvitað er fleira stórt og áhugavert í pípunum hvað skipulagsvinnu varðar. Páll Tómasson, arkitekt hjá arkitektur.is segir verkefni eins og þessi stór í sniðum og ferlið flókið, eðlilega, þar sem „skipulag borga og bæja er undirstaða mannlífsins í sjálfu sér,“ eins og hann segir. En, hvað á hann við þegar hann talar um skipulag? 

Páll Tómasson, arkitekt hjá
www.arkitektur.is


Aðalskipulag – deiliskipulag

„Skipulagsvinna er í megin dráttum tvíþætt,“ segir hann, aðalskipulag og deiliskipulag. Síðan tölum við um „annars vegar skipulag nýrri hverfa og hins vegar endurskipulagningu eldri hverfa. “ En hver er munurinn?
„Aðalskipulag er lögbundinn rammi sem hvert sveitarfélag hefur skyldu til að sinna. Síðan þarf að gera deiliskipulag sem er í samræmi við aðalskipulag. Aðalskipulag segir til um stóra drætti samfélagsins; hvar eigi að vera íbúðabyggð, hvar þjónusta, hvar iðnaðarhverfi, skólar og þess háttar, ásamt gatnakerfinu. Deiliskipulagið er nánari skipulagning á svæðum innan aðalskipulags og það má ekki byrja að byggja fyrr en deiliskipulag liggur fyrir og hefur verið samþykkt. Allt þetta ferli er bundið í lög.
Við vinnum mest deiliskipulag. Helstu verkefni í vinnslu hjá okkur hér hjá arkitektur.is núna eru annars vegar Vellir/Hamranes um 800 íbúða byggðarkjarni í Hafnarfirði. Hins vegar skipulag Fitjasvæðis í Reykjanesbæ sem er landssvæði ætlað undir m.a. nýtt Ráðhús Reykjanesbæjar, nýjar höfuðstöðvar Hitaveitu Suðurnesja, lóð fyrir siglingaklúbb og ylströnd.
Þegar við fáum svæði til að deiliskipuleggja, eru þau misstór oft þrjátíu til fimmtíu hektarar. Við byrjum á því að skilgreina svæðið með tilliti til landslags, veðurs og svæða í kring. Síðan verður til forskrift í samvinnu við viðkomandi sveitarfélag, um hvers konar byggð er verið að sækjast eftir; hversu margar íbúðir eigi að vera í fjölbýli, hversu margar í einbýli, rað- og parhúsum, hvar iðnaðarlóðirnar eiga að vera og hvar þjónustulóðir – skólar, verslanir og þess háttar. Þetta vinnst út frá því hvaða þörf sveitarfélagið hefur. Þessi forskrift er þarfagreining fyrir svæðið.“
 

Götumynd við Rósavelli í Hafnarfirði

Hverfi skipulagt
„Þessu næst búum við til innra gatnakerfi, sem er tengt stofnbrautum í aðalskipulagi. Við byrjum á því að leggja niður gatnakerfi og hvaða áherslur við sem fagmenn viljum leggja í uppbygginguna. Síðan komum við með tillögur að deiliskipulagi þar sem búið er að ákveða hvar þyngdin í byggðinni á að vera, hvar þéttari byggðin á að vera, hvar gisnari byggðin og hvernig þær tengjast saman. Í þessum tillögum erum við líka með tillögur um það hvernig hverfið á að virka, hvernig við álítum að fólkið í hverfinu muni lifa. Jafnframt eru í tillögunum göngustígar, hjólastígar og tillögur um það hvernig krakkarnir eiga að komast í skóla án þess að þurfa að fara yfir miklar umferðargötur. Ef landslagið er í halla, gerum við tillögur að því hvernig best sé að leggja byggðina, hvaða hluta af landinu eigi að halda óbyggðu, hvar garðar og leiksvæði verða. Einnig gerum við tillögur fyrir svæði sem eru meira fastákveðin, til dæmis sparkvelli, leiksvæði og ferli strætisvagna, sorphirðu um svæðið, aðkomuleiðir fyrir slökkvibíla og sjúkrabíla. Þeir verða að komast auðveldlega að öllu svæðinu. Þetta snýst um að hugsa um alla starfsemi mannlífs á svæðinu.
Við þessa vinnu verðum við að fara að öllum reglum, varðandi það hversu nálægt hvert öðru húsin mega vera, úr hvaða efni þau geta verið og hversu há þau mega vera, hvort þau eiga að vera með hallandi eða flöt þök, hvort húsin eiga að vera á einni eða fleiri hæðum. Hvað þessa skilmála varðar, þá er mjög misjafnt hversu langt er gengið. Í deiliskipulagi eru helstu skilmálar ákveðnir fyrir byggingar.“

Manneskjan fram yfir bílinn
Arkitektur.is hefur nýlega lokið deiliskipulagi fyrir tvö samliggjandi svæði í Hafnarfirði, Velli 7 og fyrsta áfangann í Hamranesi. „Þarna vorum við að deiliskipulegga svæði þar sem verða samtals um átta hundruð íbúðir,“ segir Páll „Vellir 7 er rúmlega þrjátíu hektarar og Hamranesið 24. Þar að auki verða á svæðinu hjúkrunarheimili, tveir leikskólar og einn grunnskóli með tónlistarskóla.
Þarna er verið að skipuleggja með þeim hætti að einbýlishús, rað-og parhús leggi sig á hefðbundinn hátt á landið. Hins vegar eru farnar dálítið aðrar leiðir í fjölbýlishúsabyggðinni, hvað Hafnarfjörð varðar. Byggingarnar inni í byggðinni eru ekki háar, tvær til fjórar hæðir hver, og eru látnar mynda skjólgóða garða og útivistarsvæði. Þetta skipulag gengur út á það að taka manneskjuna fram yfir bílinn. Ein leiðin til þess er að setja sem flesta bíla íbúanna neðanjarðar og vera einungis með skammtímastæði ofanjarðar. Það er gengið það langt í okkar tillögum að í sumum fjölbýlishúsunum eru öll bílastæði neðanjarðar, meðal annars gestastæði. Við hugsum þetta þannig að gestir geti allt eins notað dyrasíma þegar þeir aka inn í stæði eins og þegar þeir ganga upp að húsinu.“ 

Stapatorg í Reykjanesbæ yfirlitsmynd

Eitthvað fyrir alla
Inni í hverfinu eru fjölbýlishúsin tvær til fjórar hæðir en í jaðri þess verður boðið upp á íbúðir í háum fjölbýlishúsum. Þær byggingar verða tólf hæðir auk 2-3 hæðir í bílgeymslu. „Við staðsetjum þessa turna með tilliti til áhrifa á aðra byggð í hverfinu,“ segir Páll. „Turnarnir eru staðsettir í austurjaðri hverfisins þannig að skuggavarp frá þeim á kjörtíma fellur ekki yfir byggðina, heldur á landið í kring. Það má segja að í þessu hverfi sé í rauninni verið að bjóða eitthvað fyrir alla.“
Nú þegar hefur skipulagið fyrir Velli 7 verið samþykkt og segist Páll vona að þeim verði úthlutað í lok þessa árs og Hamranesið snemma á næsta ári. Væntanlega verður þá komið að skipulagi fleiri hverfa á svæðinu – en í augnablikinu er það Reykjanesbær, þar sem Arkitektur.is hefur séð um gríðarlega mikla skipulagsvinnu.
 

Stapatorg volgt vatn, tákn um orku

Reykjanesbær
„Við sáum um skipulagningu á einbýlishúsabyggðinni í Ásahverfi um 130 einbýlishúsalóðir,“ segja Páll, en sú byggð nær yfir allan Grænásinn frá Fitjum. Einnig hefur stofan hannað framtíðar íþróttasvæði Reykjanesbæjar skipulagt 26 hektara íþróttasvæði fyrir ofan Móabyggðina við Reykjaneshöll. „Þetta landsvæði er á stærð við allt íþróttasvæðið í Laugardal,“ segir Páll. „Þarna verður aðalíþróttasvæði Reykjanesbæjar, ásamt aðalknattspyrnuvelli bæjarins með áhorfendastúku og tilheyrandi. Þarna er líka gert ráð fyrir fimleikahúsi og klúbbhús fyrir Keflavíkur-og Njarðvíkurliðin. Í tengslum við þetta svæði er svo auðvitað Íþróttaakademía Reykjanesbæjar.
Síðan höfum við verið með fjöldann allan af minni svæðum, bæði í Reykjanesbæ og annars staðar. Til dæmis önnur skipulagsverkefni sem eru annars eðlis, eins og deiliskipulag inni í eldri byggð. Það kallar á allt annað ferli en þegar verið er að ákveða byggingareiti og deiliskipulag og það eru allt aðrir þættir sem taka verður tillit til eins og mannvirki sem eru í kringum reitinn sem skipuleggja í hvers konar umferðarstrúktúr er í kringum byggingarnar og þegar stærð og umfang bygginga er ákveðin þarf að taka annars konar tillit til umhverfisins heldur en á nýju landsvæði. Í skilmálum um útlit og útfærslu bygginga sem rísa í grónum hverfum eru skilmálarnir oft mjög þröngir.“

Stapabyggð
Fyrir tveimur árum fékk Arkitektur.is það verkefni að vinna tillögur að deiliskipulagi á Stapasvæðinu í Reykjanesbæ, ákaflega fallegu landsvæði sem býður upp á afar fjölbreytta byggð – að ekki sé talað um flott útsýni. Svæðið nær frá Dalshverfi að Vogum á Vatnsleysuströnd. Páll segir þó einhvern tíma þar til því svæði verður úthlutað. „En við erum komin með tillögu að fyrsta hluta svæðisins – sem og glæsilegu Stapatorgi, þar sem verður verslun og þjónusta fyrir svæðið.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga