Reykjanesbær

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar:
Áhersla á fjölskylduvænt umhverfi hefur laðað stóra hópa til okkar

Séð yfir Reykjanesbæ í átt til Helguvíkur, iðnaðarhafnarinnar. 

Mikill uppgangur hefur verið í Reykjanesbæ á síðustu árum á flestum sviðum, og ekki síst í byggðamálum. Árni Sigfússon, sem hefur verið bæjarstjóri Reykjanesbæjar frá árinu 2002, hefur fylgt þessari þróun eftir: “Í kjölfar bæjarstjórnarkosninga 2002 var hafist handa við að skipuleggja nýja byggð í austurhluta Reykjanesbæjar, nær höfuðborgarsvæðinu, um leið og tækifæri til þéttingar byggðar voru frekar til vinnslu. Árið eftir voru ný landsvæði tilbúin til úthlutana og íbúar og byggingaverktakar gátu hafið undirbúning að byggingum. Þetta var í samræmi við þá stefnu bæjaryfirvalda að fjölga íbúum til að styrkja þjónustustig og efnahag bæjarfélagsins. Þetta hefur gengið einstaklega vel eftir - áhersla á fjölskylduvænt umhverfi, vistlegra umhverfi, góða skóla, öryggi barna og nálægð við fjölbreytta atvinnu hefur laðað stóra hópa til okkar.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir bæjaryfirvöld forðast að troða iðnaðarsvæðum ofan í íbúabyggðina eða hafa sömu samgönguleiðir að iðnaði og íbúðabyggð.

Íbúafjöldi  í desember 2002 var 10.914 – Nú í október er íbúafjöldinn kominn yfir 13.050. Þessi tæplega 20% fjölgun hefur að stærstum hluta orðið á þessu og síðasta á ári, enda mikið um að íbúðir séu að verða tilbúnar. Við lögðum áherslu á að byggja skólana á undan hverfunum, bæði grunnskóla og leikskóla, sem hefur tryggt vandaða þjónustu við þá sem sækja í nýju hverfin. Þess má geta að aðfluttir umfram brottflutta á þessu ári eru yfir 1000 talsins.
Uppbygging okkar á Vallarheiði, fyrrum varnarsvæði, hefur einnig gengið samkvæmt áætlun. Þar eru einkarekinn grunnskóli og leikskóli í boði í byggð sem nú telur yfir 700 manns. Aðeins hluti þeirra er þó skráður með lögheimili í okkar bæjarfélagi enn sem komið er.“

Smábátahöfnin í Grófinni.
Sjávarútvegur var áður helsta atvinnugreinin en nú hafa aðrar tekið við.


Eftirspurn meiri en framboð
Árni segir að þrátt fyrir gríðarlegt framboð af lóðum undir íbúabyggð, hefur eftirspurnin verið meiri: “Íbúðamynstrið er mjög blandað. Margir íbúar Reykjanesbæjar sjá tækifæri til að byggja sjálfir, sama gerist hjá unga fólkinu sem hyggur á flutning hingað. Það á við um einbýli og í sumum tilvikum parhús og raðhús. Við leggjum áherslu á fjölbreytileikann í byggingarmynstrinu og fögnum einkaframtaki í þessum efnum. Það er því skemmtileg blanda byggingarverktaka og fjölskyldna sem vinnur að uppbyggingunni.
Á fyrsta stigi í uppbyggingunni 2002 og 2003 létum við vinna svonefnt rammaskipulag, sem las í umhverfið, dró fram hagkvæmni lands, hentuga staðsetningu við samgöngukerfi, góðar gönguleiðir og vistvæn íbúahverfi, og tengingar þjónustusvæða og útivistarsvæða við íbúahverfi.
Reykjanesbær er í raun “línubær“ og því er áhersla lögð á að við svonefnda “lífæð“, eða hryggjarsúlu í gegnum byggðina frá Innri Njarðvík og inn í Keflavík, sem verður aðdráttarafl fyrir þjónustu, í stað eiginlegs miðbæjar. Með tilkomu Vallarheiðar inn í samfélagið, og nýrra mislægra gatnamóta opnast allt svæðið sunnan Reykjanesbrautar. Þetta færir landfræðilega byggðarmiðju nær Fitjum í Njarðvík og því hugum við nú að umferðarskipulagi sem svarar þessari breytingu.
Þá skýrðust með þessu tækifæri okkar við sjávarsíðuna, s.s. á Vatnsnesinu, sem er klettaströnd á besta stað í Keflavík, áður yfirfull af fiskvinnslufyrirtækjum, sem nú eru mörg hver ónotuð. Eins er verið að hefjast handa við svæði sem var til langs tíma á lokuðu “varnarsvæði“, er kallað Nikelsvæði, en skarst á milli gömlu Keflvíkur og Njarðvíkur, langt niður í bæinn. Þarna eru mjög spennandi tækifæri til þéttingar byggðar, um leið og við tryggjum góð íþrótta- og  útivistarsvæði.
Í aðalskipulagi okkar, sem er í endurskoðun sem lýkur væntanlega á næsta ári, er gert ráð fyrir þjónustubyggð með Reykjanesbraut, og stórum iðnaði á svæði Helguvíkur. Á Vallarheiði eru fyrirhugaðir tæknigarðar. Við forðumst hins vegar að troða iðnaðarsvæðum ofan í íbúabyggðina eða hafa sömu samgönguleiðir að iðnaði og íbúðabyggð.“

 
Við leggjum áherslu á fjölbreytileikann í byggingarmynstrinu og fögnum einkaframtaki í þessum efnum. Það er því skemmtileg blanda byggingarverktaka og fjölskyldna sem vinnur að uppbyggingunni.
 
Stapinn er að ganga í gegnum miklar breytingar. Arkitekt er Guðmundur Jónsson. 

Samstarf einkaðila og opinberra aðila
Það er ekki eingöngu mikið byggt af íbúðarhúsnæði í Reykjanesbæ, bærinn sjálfur stendur í mörgum stórræðum: “Þær byggingar sem nú er verið að fara í á vegum bæjarins tengjast nýjum tónlistarskóla, rokk- og popp sýningaraðstöðu og endurbótum á félagsheimilinu Stapa, allt á einum stað. Þá er verið að undirbúa nýjar bæjarskrifstofur sem verða einmitt í hinni nýju landfræðilegu miðju. Þar munu einnig höfuðstöðvar Hitaveitu Suðurnesja rísa. Þá erum við í leikskólabyggingum bæði í  eldri og nýrri hverfum. Við tökum þátt í þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara á Nesvöllum, við endurbætum félagsaðstöðu fyrir Keflavík, og vinnum að nýju stóru íþrótta- og útivistarsvæði vestan Reykjaneshallar.
Hér er mikil áhersla lögð á samstarf einkaaðila og opinberra aðila. Þannig stofnuðum við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. um byggingarverkefni, og eigum það ásamt tíu öðrum sveitarfélögum og fjármálafyrirtækjum, auk Háskólans í Reykjavík. Þetta félag sér um að vinna grunnvinnu að fyrirhuguðum verkefnum, sér svo um útboð þeirra, utanumhald og leigu til okkar.“

Íþróttaaakademían í Reykjanesbæ var tekin í notkun haustið 2005 en þar fer nú fram nám í íþróttafræðum á háskólastigi í samvinnu við Háskólann í Reykjavík. Byggingin sómir sér vel í Reykjanesbæ en hún var tilnefnd til Íslensku byggingarlistarverðlaunanna í ár. Arkitektar eru Páll Tómasson og Haraldur Örn Jónsson frá Arkitektur.is.

Aðilar að þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar
Fasteignir á Keflavíkurflugvelli hafa mikið verið í umræðunni og er Árni spurður hvernig Reykjanesbær tengist þeim fasteignum: “Við erum aðilar að þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar sem hefur séð um sölu eigna þar. Við höfum lagt áherslu á að þær íbúðir fari ekki á almennan markað á næstu árum, og þannig er búið um hnúta í samningum við kaupendur. Því hefur byggðaþróun þar haft mjög lítil áhrif á aðra uppbyggingu í bænum. Við gerum ráð fyrir að um 1000 íbúðir tengist alltaf nemendaíbúðum á skólasvæðinu, tengt  Keili, miðstöð vísinda og fræða sem þar hefur höfuðstöðvar. Þetta er því mjög sérhæft.“

Að lokum er Árni spurður hverjir kostirnir séu við að búa í Reykjanesbæ og hvernig hann sér framtíð bærjarfélagsins:
“Því er einfaldast að svara með sjö spurningum:

1. Viltu komst í fjölbreytt atvinnutækifæri innan 1-10 mínútna frá heimili?
2. Viltu njóta rúmbetra heimilis, með minni tilkostnaði?
3. Þarftu  að fara oft um alþjóðaflugvöll og viltu komast fljótt til fjölskyldunnar eða í frágangsvinnu eftir ferðina?
4. Viltu njóta góðrar alhliða þjónustu, fyrir unga sem aldna?
5. Viltu búa í samfélagi sem er umhugað um velferð barnanna?
6. Viltu lifa utan við umferðarteppur og skarkala höfuðborgarsvæðisins?
7. Viltu geta komist til höfuðborgarsvæðisins til að njóta menningar og afþreyingar á mjög  hæfilegum tíma?
8. Viltu njóta skemmtilegrar náttúru á Reykjanesinu eða stunda sjósport allt um kring,

Þá er ég sannfærður um að bærinn okkar býður þér margt sem þú metur.“

Hafnargata hefur löngum verið lífæð Reykjanesbæjar.


Á Nesvöllum verður einstök aðstaða til þess að mæta óskum þeirra, sem komnir eru yfir miðjan aldur, vilja minnka við sig og komast í þægilegt íbúðaumhverfi með samferðafólki, lausir við áhyggjur og fyrirhöfn vegna rekstrar og viðhalds á fasteign.


Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga