Einingaverksmiðjan - Einingaverksmiðjan í sókn heima og heiman

Frá Breiðhöfða og Færeyjum

Einingaverksmiðjan í sókn heima og heiman

Deiliskipulag verksmiðjusvæðisins í Færeyjum.

Einingaverksmiðjan að Breiðhöfða 10 í Reykjavík er 13 ára gamalt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu forsteyptra eininga til byggingaframkvæmda.

Frá upphafi hefur fyrirtækið starfað mestmegnis á verktakamarkaði og þjónað stærstu verktökum landsins en með aukinni tiltrú á einingahús hefur þjónusta við almenna húsbyggjendur aukist síðustu ár. Sigurbjörn Óli Ágústsson, framkvæmdastjóri, segir að það hafi tekið tíma að sannfæra markaðinn um kosti eininga eins og gengur og gerist með nýjungar en hérlendis hefur orðið gríðarlegt stökk fram á við í notkun húseininga og í dag eru forsteyptar einingar ekki bara seldar til verktaka, heldur ekki síður til einstaklinga sem eru að byggja hús fyrir fjölskylduna. Fyrir um 10 árum síðan var þáttur eininga í húsbyggingum um 5%, og þá aðallega í gólfplötum en í dag er hlutfall einingabyggðra húsa allt að 25%, jafnvel hærra á sumum svæðum. Um 80% af framleiðslu Einingaverksmiðjunnar fer á höfuðborgarsvæðið. Einingar eru ekki staðlaðar en framleiddar eru hins vegar ákveðnar grunneiningar sem hægt er að sníða til eftir þörfum kaupanda. Einingar eru mjög samkeppnishæfar í verði miðað við hefðbundnar aðferðir og eru í mörgum tilfellum ódýrari. Gæðin eru enn betri þar sem einingin er framleidd við kjöraðstæður í verksmiðju undir ströngu gæðaeftirliti.

Sigurbjörn Óli segir mikinn uppgang hafa verið í húsbyggingum í Færeyjum sl. 2 - 3 ár og Einingaverksmiðjan með hvert stórverkið á fætur öðru þar.

Vaxandi umsvif í Færeyjum
Ekki hefur verið hefð fyrir einingahúsum í Færeyjum þar sem hefðbundið færeyskt hús er á steyptum kjallara og síðan timburhús þar ofan á með milligólfi úr timbri, en síðustu ár hefur þetta verið að taka breytingum. Einingaverksmiðjan flytur nú mikið af einingum til Færeyja en þar hefur fyrirtækið verið með umsvif í meira en 10 ár. Einingar hafa verið fluttar þangað frá verksmiðjunni á Breiðhöfða, en nú er að verða breyting á því þar sem verið er að reisa verksmiðju í Færeyjum sem verður tekin í notkun í ársbyrjun 2008. Einingaverksmiðjan á fyrirtæki í Færeyjum sem framleiðir steypu og þar er nú verið að reisa verksmiðjuna, að sjálfsögðu úr einingum fyrirtækisins. Sigurbjörn Óli segir mikinn uppgang hafa verið í húsbyggingum í Færeyjum sl. 2 - 3 ár og hefur Einingaverksmiðjan tekið þátt í hverju stórverkinu á fætur öðru. Þar á meðal verkefnið „Undir Gráasteini” sem er að klárast þessa dagana, 8 fjölbýlishús eða 90 íbúðir. Ekkert sér fyrir endann á framkvæmdum , búið er að gera saminga til næstu 5 ára með verkefni þar sem Einingaverksmiðjan er með í öllu ferlinu með færeyskum aðilum og kallast verkefnið „Undir Kongavarða”. Það er verkefni sem er skipulagt í fjórum áföngum og samanstendur fyrsti áfangi af 77 fjölbreyttum íbúðum í fimm raðhúsalengjum og fimm fjölbýlishúsum. Mikið er lagt upp úr sjónarspili náttúrunnar þar sem útsýni úr hlíðum Hamarsins yfir Þórshöfn er stórbrotið og óspillt náttúran í baksýn.
Frá byggingu verksmiðjunnar í Færeyjum. 

Fyrirtækið til Þorlákshafnar
„Einingar eru mjög heppileg byggingaraðferð, hún sparar kaupandanum bæði tíma og fyrirhöfn. Umsvif Einingaverksmiðjunnar hafa aukist til muna undanfarin ár og er svo komið að athafnasvæði fyrirtækisins er löngu orðið of lítið. Fyrir höndum er því flutningur á starfsemi fyrirtækisins og hefur Þorlákshöfn orðið fyrir valinu og þar hefur Einingaverksmiðjan fest kaup á 10 hektara lóð. Mikil uppbygging hefur verið í Þorlákshöfn og víðar á Suðurlandi enda erum við nú þegar í verkefnum þar. Okkar mat er að forsteyptar einingar séu framtíðin í mannvirkjaframkvæmdum og það eru bjartir tímar framundan í greininni.“ segir Sigurbjörn Óli Ágústsson framkvæmdastjóri Einingaverksmiðjunnar.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga