Greinasafni: Skipulag
Svifryk

Naglana burt úr ryklausri Reykjavík

Nú, þegar skammdegið læðist yfir Reykjavíkurborg og snjór og hálka tekur að hrella borgarbúa, skera borgaryfirvöld enn á ný upp herör gegn helsta svifryksmengunarvaldi borgarinnar – nagladekkjunum.

Anna Rósa Böðvarsdóttir heilbrigðisfulltrúi minnir fólk nú á að nagladekkin valda mengun sem er skaðleg heilsu manna. Engin ástæða er því til að velja þau lengur, því annars konar vetrarhjólbarðar, svo sem góð loftbóludekk eða harðkornadekk, eru nöglunum sambærileg við flestar aðstæður. Mynd: Ingó 

Svifryksmörk í Reykjavík fóru 29 sinnum yfir leyfileg heilsuverndarmörk árið 2006.
 „Við erum að hvetja almenning til að nota ekki nagladekkin, heldur velja frekar annars konar góða hjólbarða, svo sem vetrardekk, loftbóludekk eða harðkornadekk,“ segir Anna Rósa Böðvarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá mengunarvörnum Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar.  „Þau dekk eru góð í hálku og snjó, meðan nagladekkin sem reynast betur við ákveðnar aðstæður sem gerast mjög sjaldan, nefnilega þegar ísing á sér stað.“
Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á að hin dekkin sem Anna Rósa taldi upp eru jafn góð eða betri en nagladekkin við flestar aðstæður, og því lítil ástæða önnur en gömul hefð að velja naglana. Enda eru nagladekkin á hröðu undanhaldi í Evrópu og í vetrardekkjakönnunum bílatímarita og systurfélaga FÍB kemur skýrt fram að dekk með mjúku gúmmí reynast best í flestum aðstæðum, en slík dekk hafa gott grip og eru slitsterk.
 „Flest slys verða af því fólk gerir sjálft mistök, keyrir ekki varlega eða tekur ekki mið af aðstæðum, og nagladekkin hafa yfirleitt lítil áhrif þar um,“ segir Anna Rósa.  „Reyndur ökukennari segir t.d að framsýni og fyrirhyggja séu lykilþættir í öllum vetrarakstri.“

55 prósent alls svifryks
En hver er ástæða þess að Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að skipta nagladekkjunum út?
„Nagladekkin spæna upp úr malbikinu og svifrykið sem myndast er afar óhollt fyrir heilsu fólks,“ segir Anna Rósa.
Svifryk eru örfínar agnir sem eru skaðlegar ef þær komast í lungu, og má í raun líkja þeim við bergflísar eða nálar. Samkvæmt tveimur rannsóknum sem Iðntæknistofnun og  Þorsteinn Jóhannsson, sem hefur nýlokið meistaranámi í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands, gerðu á svifryki í höfuðborginni, á  svifryk í Reykjavík á sér margar uppsprettur en flestar eru af mannavöldum. Rúmur helmingur þess, eða 55 prósent þess, er uppspænt malbik.
Um fjórðungur á uppruna sinn í jarðvegi sem mestmegnis kemur frá byggingarsvæðum, byggingum sem verið er að rífa, órykbundnum vegslóðum, fremur en að rykið berist hingað vegna jarðvegseyðingar á hálendinu. Annað sem finnst í svifrykinu sem borgarbúar anda að sér er sót, salt og uppspændir bremsuborðar.

Hættulegt heilsu manna
Örfínar agnir svifryksins geta verið afar skaðlegar, komist þær í lungu fólks, og þá sérstaklega  hjá þeim sem hafa viðkvæm öndunarfæri.
Rannsóknir benda til þess að mikið svifryk í andrúmsloftinu geti flýtt fyrir dauða fólks sem er viðkvæmara fyrir, og þá sérstaklega hjá þeim sem eru með öndunarfærasjúkdóma . Sænsk rannsókn sýndi að svifryk stytti lífslíkur fólks um 60 til 70 daga, meðan bílslys stytta lífslíkur fólks um 30 til 50 daga.
 „Svo svifrykið er í raun hættulegra heldur en flestir gera sér grein fyrir,“ segir Anna Rósa og bætir við að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telji að árlega deyi um tvær milljónir manna ótímabærum dauða vegna loftmengunar.
Hún bendir fólki á að fylgjast með svifrykstilkynningum, og á köldum, þurrum og stillum vetrardögum ætti fólk sem er með viðkvæm öndunarfæri ekki að hlaupa, ganga eða hjóla meðfram aðalsamgönguæðunum í borginni.
Þess fyrir utan er kostnaðurinn við lagfæringu á malbikinu gríðarlegur, en í fyrra þurfti að leggja 10.000 tonn af nýju malbiki vegna slits, sem að miklu leyti var tilkomið vegna nagladekkjanotkunar um helmings bílaeigenda í borginni.
Færri hámarksdagar takmarkið
Heilsuverndarmörk svifryks í Reykjavík eru 50 míkrógrömm á rúmmetra (µg/m3). Borgin hefur á undanförnum árum verið að undirbúa sig undir að ná Evrópusambandsstuðlum varðandi svifryksmengun, og er þar af leiðandi að trappa smám saman niður þá daga sem svifrykið fer yfir leyfileg heilbrigðismörk. Í ár mega þetta verða 23 dagar, en árið 2010 verða þeir eingöngu sjö.

Verktakar rykbinda og nýr svifryksmælir á netinu
En borgin sinnir fleiri mótvægisaðgerðum en þeim að kynna áhrif nagladekkjanna á mengun og heilsu fólks.
Þegar nauðsyn krefur er rykbundið á götum borgarinnar með magnesíumklóríðblöndu, sem er umhverfisvæn rykbinding og er talin vera skaðlaus heilsu manna. Einnig eru göturnar sópaðar reglulega, því þó þrif á götum geri ekki mikið gagn þegar til styttri tíma er litið þar sem sópurinn nær ekki fínustu ögnunum, eru þau talin gagnleg þegar til lengri tíma er litið, þar sem stærri agnir ná þá ekki að brotna frekar niður.
Nýverið voru settar reglur um rykbindingu vegna niðurrifs húsa í starfsleyfi hjá Reykjavíkurborg, þar sem verktaka er gert skylt að bleyta í húsinu meðan á framkvæmdum stendur.
Jafnframt hefur Kristjáni L. Möller samgöngumálaráðherra verið sent bréf þar sem farið er fram á að hann stytti leyfistíma nagladekkja sem nú eru leyfð frá 1. nóvember til 15. apríl. Stendur borgin einnig að athugun á kostum þess og göllum að taka upp gjaldtöku eða aðrar takmarkanir á notkun nagladekkja, í samvinnu við ríki og önnur sveitarfélög.
Eins má finna nýjan vef- svifryksmæli á vef Reykjavíkurborgar, www.rvk.is.

Sigrún María Kristinsdóttir

Loftbóludekk
Margir þeirra sem árum saman hafa stólað á nagladekkin þegar skammdegið fellur yfir hafa nú skipt yfir í loftbóludekk, sem þykja alls ekki síðri við íslenskar aðstæður. Samkvæmt rannsóknum á Bridgestone loftbóludekkjunum standast þau fyllilega samanburð við bestu gerðir nagladekkja hvað varðar hemlunarvegalengd og veggrip, hvort sem er í snjó eða hálku. Þau eru auk þess hljóðlátari og mýkri en nagladekk, endingarbetri og menga mun minna, því loftbólurnar rífa ekki upp malbikið eins og naglarnir gera. Auk þess má nota þau allt árið um kring.

Nagladekkin menga
Sænskar kannanir sýna að venjulegur fólksbíll á nagladekkjum rífur upp sem nemur 27 grömmum af malbiki á hvern ekinn kílómeter. Samfélagslegur sparnaður er því mikill af notkun annars konar dekkja, svo sem loftbóludekkja, auk þess sem loftmengun minnkar sem því nemur.

Dýrar viðgerðir
Í ár var lagt nýtt slitlag á þrjá hluta Miklubrautarinnar fyrir alls 13,3 milljónir króna. Inni í þeirri tölu telst hvorki kostnaður við fræsun né kostnaður Reykjavíkurborgar sjálfrar við lagfæringu brunna og niðurfalla og sópun.
 
Ráð til að draga úr mengun:
• Skilja bílinn eftir heima
• Samnýta bíla
• Draga úr hraða
• Fækka ferðum á fólksbílum
• Nota strætisvagna
• Finna heilnæmar gönguog hjólaleiðir fjarri ys og þys umferðargatna


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga