Greinasafni: Arkitektar
Íslensku byggingarlistarverðlaunin

Íslensku byggingarlistarverðlaunin afhent í fyrsta sinn á Kjarvalsstöðum
VA arkitektar hlutu verðlaunin fyrir Lækningalind, Bláa lóninu.


Íslensku byggingarlistaverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum 20.október síðastliðinn. VA arkitektar hlutu verðlaunin fyrir Lækingalind, Bláa lóninu. Geir H Haarde forsætisráðherra afhenti verðlaunin. Samhliða afhendingunni var opnuð sýning á þeim tíu verkefnum sem þóttu koma til greina og útgáfa bókar um þessi sömu verkefni kynnt. Arkitektafélag Íslands stendur að verðlaununum en Þyrping hf. , þróunarfélag á sviði skipulagsmála og mannvirkjagerðar, er bakhjarl þeirra og Þyrping hf., er stofnandi byggingarlistaverðlaunana.


Verðlaunin skerpi vitund almennings um hve mikilvæg góð byggingarlist er fyrir samfélagið
Úr sumsögnum valnefnefndarinar: 
,, Lækningalind Bláa lónsins er sjálfstæð viðbót við Heilsulind Bláa lónsins í afar sérstöku umhverfi Sundhnjúkahrauns við Svartsengi. Byggingin rís upp úr úfnu mosavöxnu hrauninu sem fær að standa óáreitt allt umhverfis lágreista en svipsterkabygginguna . Með öguðu efnisvali og formi hússins eru dregin fram skörp skil á milli geómetrískra forma byggingarinnar og lífrænna forma náttúrunnar sem vekja sterk hughrif. Sérkennilegt andrúmsloftið endurspeglast í óvæntum samsetningum og frágangi þar sem eiturgrænu gleri og kolsvartri hraunklæðingu er teflt gegn hlýlegum viði. Öll smáatriði eru leyst á vandaðann hátt sem fellur að yfirbragði heildarinnar. Sum verkin hafa á sér mýkri svip þrátt fyrir stílhreint tungumál forms , þar sem valin eru ómeðhöndluð náttúruefni eins og tré, steinn, torf eða sjónsteypa með sýnilegri áferð trémótana. Þau standa í samhljómi við efni og litbrigði á hverjum stað, og efnisnotkun er þess eðlis að byggingar og mannvirki veðrast á fallegan hátt með tímanum. Þannig er það farið með Lækingalind Bláa lónsins þar sem bygging VA arkitekta leynist dulúðug í úfnum hraunakri í Svartsengi, en gufuna leggur upp af mjólkurhvítu vatni svo rétt grillir í útveggina sem klæddir eru svörtum hraunsalla af svæðinu.,,
 Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt hjá VA arkitektum og verðlaunahafi segir um viðurkenninguna og þýðingu byggingarlistaverðlaunana: ,,Viðurkenning eins og þessi felur auðvitað alltaf í sér hvatningu. Okkur þykir sérstaklega vænt um þessi verðlaun umfram aðrar viðurkenningar sem við höfum hlotið, vegna þess að þetta er nýtt innan okkar stéttar og vonandi vegsauki fyrir stéttina alla að til þeirra skuli hafa verið stofnað. Vonandi eiga þessi verðlaun eftir að auka umræðu og skilning fyrir mikilvægi gæða í hönnun og skipulagi,,. Geir H Haarde forsætisráðherra fjallaði í ávarpi sínu um menningarstefnu í mannvirkjagerð sem íslensk stjórnvöld hefðu kynnt í fyrsta sinn á þessu ári og þá skyldu okkar sem þjóðar að hlúa að góðri byggingarlist og reisa mannvirki sem þjónuðu hlutverki sínu með sóma, væru vel gerð og hefðu listrænt gildi að leiðarljósi. ,, Íslenskir arkitektar eru í lykilhlutverki við að koma slíkri stefnumótun í framkvæmd. Fátt er betur til þess fallið að hvetja til dáða á þessu sviði en að verðlauna það sem vel er gert og er fagnaðarefni að ákveðið hefur verið að efna til íslenskra byggingarlistaverðlauna; 
Oddur Víðisson , framkvæmdastjóri Þyrpingar, sagði varðveislu og þróun byggingalistar vera hluta af menningu hverrar þjóðar og mikilvægt væri að hvetja til fjölbreytni, nýsköpunar og frumlegra lausna.,, Ég vona að framlag okkar til þessara verðlauna efli enn frekar gæði hönnunar og frakvæmd mannvirkja. Einnig vonum við að verðlaunin skerpi vitund almennings um hve mikilvæg góð byggingarlist er fyrir samfélagið.’’ Alls var 51 verkefni tilnefnt til verðlaunanna en miðað var við verkefni hér á landi; mannvirki, skipulag og ritverk um íslenska byggingarlist sem lokið hafði verið við frá ársbyrjun 2005 eða síðar. Valnefnd skipuð þremur arkitektum fór yfir tilnefnd verkefni. Valdi nefndin tíu sem þóttu koma til greina og fengu þau viðurkenningu. Þessi verk eru, auk Lækningalindarinnar: Aðalstræti 10 Reykjavík, sambýli fatlaðra við Birkimörk í Hveragerði, innsetning Gjörningaklúbbsins, göngubrýr yfir Hringbraut, skólahús við Háskólann á Akureyri, Íbúðarhúsið Hof, Höfðaströnd, íbúðir við Frakkastíg, íþróttaakademían í Reykjanesbæ og viðbygging Safnasafnsins á Svalbarðseyri.

 ,,Viðurkenning eins og þessi felur auðvitað alltaf í sér hvatningu. Okkur þykir sérstaklega vænt um þessi verðlaun umfram aðrar viðurkenningar sem við höfum hlotið, vegna þess að þetta er nýtt innan okkar stéttar og vonandi vegsauki fyrir stéttina alla að til þeirra skuli hafa verið stofnað.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga