Greinasafni: Skipulag
Fljótsdalshérað

Mikil bjartsýni á Fljótsdalshéraði

sem leggur áherslu á þjónustu, þekkingu, velferðar- og umhverfismál

Nýr miðbær Þannig mun nýi miðbærinn á Egilsstöðum líta út í náinni framtíð. 

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað varð til 1. nóvember 2004, við sameiningu Austur- Héraðs, Fellahrepps og Norður- Héraðs. Sveitarfélagið er mjög víðfeðmt og er nú það landmesta á Íslandi en stærð þess er 8.884 ferkílómetrar.
1. desember 2006 voru íbúar Fljótsdalshéraðs 4.644 og hafði  fjölgað um 18% frá árinu áður.  
Miðkjarna Fljótsdalshéraðs mynda þéttbýlin Egilsstaðir og Fellabær sem greiðar samgöngur á landi og í lofti hafa gert að fjölförnum vegamótum og þar hefur því vaxið upp ýmis konar starfsemi bæði á vegum opinberra aðila og einkaaðila.
Um miðbæ Egilsstaða liggja helstu krossgötur Austurlands og umferðarmestu gatnamót þjóðvega í fjórðungnum. Flestir íbúa Fljótsdalshéraðs starfa við þjónustu og opinbera starfsemi og á Egilsstöðum og í Fellabæ hefur þróast mikil samgöngu-, verslunar- og þjónustumiðstöð sveitarfélagsins og alls Austurlands. Landbúnaður er stundaður í blómlegum byggðum hins víðfeðma sveitarfélags og er sauðfjárbúskapur stundaður á um 90 jörðum og mjólkurframleiðsla á tæplega 20 búum og þá fer skógrækt fram á um 85 jörðum um þessar mundir. Meðaltekjur í sveitarfélaginu voru yfir landsmeðaltali á síðasta ári. Skólastarf hefur sett svip sinn á samfélagið til margra ára og má þar nefna Alþýðuskólann á Eiðum, sem lengi var starfandi á svæðinu og Handverks- og hússtjórnarskólann á Hallormsstað. Menntaskólinn á Egilsstöðum hefur starfað frá 1979 en þar eru nemendur rúmlega fjögur hundrað allt í allt. Þá hefur háskólanámssetur starfað á Egilsstöðum frá 2003 og þekkingarsetur var stofnað í apríl síðast liðnum. Í sveitarfélaginu eru starfræktir fimm leikskólar með ríflega tvö hundruð börnum. Grunnskólastarf fer fram á fimm stöðum á vegum fjögurra grunnskóla, en nemendur þeirra eru vel á sjötta hundraðið. Tónlistarskólar eru einnig starfræktir á fimm stöðum á vegum þriggja tónlistarskóla.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs. 

Uppbygging á nýjum miðbæ á Egilsstöðum
Árið 2004 efndi Fljótsdalshérað til hugmyndasamkeppni um skipulag á miðbæ Egilsstaða. Í gegnum hinn nýja miðbæ liggur „Strikið„, göngugata sem verður aðal slagæð fjölbreyttrar verslunar og þjónustu. Markmiðið er að á Egilsstöðum rísi öflugur og samkeppnishæfur miðbær sem þjóni landsfjórðungnum öllum. Á síðasta áratug hefur íbúum sveitarfélagsins fjölgað mikið. Á Egilsstöðum og í Fellabæ er nettó aðflutningur frá öðrum hlutum Fljótsdalshéraðs og öðrum byggðarlögum á Austurlandi um 157 manns á árunum 2004 til 2006, en 167 fleiri hafa flutt til en frá Egilsstöðum frá öðrum landshlutum á þessum tíma. Fjölgun íbúa með fasta búsetu vegna stóriðjuframkvæmdanna hefur því skilað sér vel til Egilsstaða og Fellabæjar.
Um 26% þeirra starfsmanna sem nú er búið að ráða til álverksmiðjunnar Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði eru búsettir á Egilsstöðum og í Fellabæ en í könnun Nýsis er gert ráð fyrir að a.m.k. 40% þeirra starfa sem verða til hjá Alcoa og tengdri þjónustustarfsemi verði sinnt af íbúum á Héraði.
Hlutfall búsetu á Fljótsdalshéraði kann að verða enn hærra. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir að uppbygging nýrra hverfa á Egilsstöðum gangi mjög vel, t.d. sé búið að úthluta öllum lóðum í hverfinu Selbrekku og þar sé uppbygging á lokstigi. Íslenskir aðalverktakar eru að byggja sinn 2. áfanga af 4 á 9 ha svæði í hverfinu Votahvammi sem þeir fengu úthlutað.
„Þá keypti sveitarfélagið land á svæðinu sunnan við þéttbýlið á Egilsstöðum en þar var skipulagt íbúðarsvæði og þær lóðir fóru allar strax þegar kom að úthlutun, og fóru þær flestar til einstaklinga. Nú er framboð af lóðum umfram eftirspurn, við náðum að anna eftirspurninni sem var mikilvægt, enda gott að eiga einhverjar lóðir upp á að hlaupa umfram þær sem koma til við þéttingu byggðar, þ.e. vegna svokallaðra „holufyllinga.“ Þeim sem sækja um lóð í dag er því helst bent á suðursvæðið. Auk þessa hafa verið byggð þrjú 24 íbúða fjölbýlishús og er nú þegar búið í öllum íbúðunum í tveimur þeirra og eitthvað í þriðja húsinu, en íbúðirnar eru bæði til sölu og leigu. Þetta eru mjög vandaðar íbúðir. Fasteignaverð er nokkuð hátt miðað við ýmiss önnur svæði á landsbyggðinni en lægra en í Reykjavík. Ætli fasteignaverð sé ekki um 80 - 85% af verði sambærilegrar eignar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir bæjarstjóri. 

 
 

Stórar lóðir í boði á Hallormsstað
Eiríkur Björn segir unnið að uppbyggingu nýs miðbæjar á Egilsstöðum en til þess að geta skipulagt hann var landið keypt af Kaupfélagi Héraðsbúa. Skógræktarstöðin Barri sem verið hefur með starfsemi á verðandi miðbæjarsvæði fékk úthlutað nýju svæði, annars staðar í sveitarfélaginu, undir sína starfsemi en Malarvinnslan fékk svæði Barra til uppbyggingar. Þar verða íbúðir samkvæmt deiliskipulagi. Margir íbúar sveitarfélagsins hafa talið að bæinn hafi vantað raunverulegan miðbæ, en með þessari ákvörðun verður til miðbær sem ætlað er að verði sambland af verslunum, veitingastöðum, þjónustufyrirtækjum og íbúðum. Þar verður einnig félagsaðstaða og dagvistarrými fyrir eldri borgara gegnt Hótel Héraði á jarðhæð í húsi sem er í byggingu, en á fjórum næstu hæðum verða svokallaðar heldri-mannaíbúðir, þ.e. íbúðir fyrir 55 ára og eldri. Þá er gert ráð fyrir að stjórnsýslu- og menningarhús rísi á næstu árum við norðurenda Striksins.
Lóðir á miðbæjarsvæðinu hafa verið auglýstar og hafa allmargar fyrirspurnir og umsóknir borist um spennandi uppbyggingu. Ennfremur er búið að deiliskipuleggja um 30 nýjar lóðir í Fellabæ og þar er allnokkur uppbygging og eins er framboð á lóðum bæði á Eiðum og á Hallormsstað á svæðum sem þegar er búið að deiliskipuleggja. Lóðirnar á Hallormsstað eru stærri en á Egilsstöðum og í Fellabæ en þannig hefur verið kappkostað að hafa fjölbreytni í lóðaframboði, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Auk ofangreindra byggingarsvæða hafa einkaaðilar látið skipuleggja svæði undir frístunda- og blandaða byggð í dreifbýlinu. Ljóst er að nýr miðbær mun þjóna mun fleirum en íbúum sveitarfélagsins. Samkvæmt könnun fyrirtækisins Landráðs frá 2006 sækja 92% Austfirðinga verslun og þjónustu til Egilsstaða; 36% Austur-Skaftfellinga sækja verslun og þjónustu á Egilsstaði, og; 31% Norður-Þingeyinga sækja verslun og þjónustu til Egilsstaða.
Í gangi eru þrenns konar aðalskipulag í sveitarfélaginu sem eru arfur frá gömlu sveitarfélögunum. Í Austur- Héraði gildir aðalskipulag til ársins 2017, í Fellahreppi til 2012 en aðalskipulag fyrir Norður- Hérað var ekki samþykkt. Nú er í gangi vinna við endurskoðun á aðalskipulagi fyrir allt nýja sveitarfélagið en það á að gilda til ársins 2027. Fyrirtækið Alta er að vinna að gerð aðalskipulags og í síðustu viku var m.a. haldið íbúaþing á Hallormsstað til þess að kynnast óskum og þörfum þeirra íbúa Fljótsdalshéraðs sem þar búa. Þá verður haldið stórt  og metnaðarfullt málþing um skipulagsmál  24. nóvember. En mikil áhersla er lögð á samráð við íbúana við gerð aðalskipulagsins.  

 
 

Sameining hefur styrkt alla þjónustu
Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri segir ljóst að sameiningin hafi styrkt alla starfsemi og þjónustu í þeim gömlu sveitarfélögum sem sameinuðust í Fljótsdalshéraði. Nefna megi að á Brúarási sé t.d. enn rekin öflugur grunn-, leik- og tónlistarskóli og það sama er að segja um Hallormsstað.
Á Eiðum er 1. og 2. bekk nemenda Grunnskólans Egilsstöðum og Eiðum kennt og þeim ekið þangað daglega bæði úr dreifbýli og þéttbýli sem er nokkuð sérstakt því verið er að keyra börnunum úr þéttbýli í dreifbýli, gagnstætt því sem tíðkast víða annars staðar á landsbyggðinni. Ekki hefur fengist Jöfnunarsjóðsframlag til þess að sinna þessu þar sem það er aðeins greitt fyrir akstur úr dreifbýli í þéttbýli, en reglurnar eru í endurskoðun. „Atvinnulíf er gott í sveitarfélaginu, næg atvinna, ekki síst hjá iðnaðarmönnum við húsbyggingar og við þjónustustörf vegna uppbyggingar álverksmiðju á Reyðarfirði og byggingar Kárahnjúkavirkjunar.
Þrátt fyrir að eiga ekki fiskiskipahöfn sleppum við ekki alveg við áhrifin af kvótaskerðingunni.
Það sem hefur neikvæð áhrif á sjávarbyggðirnar í kringum okkur hefur einnig áhrif á okkur þó með öðrum hætti sé. Egilsstaðir eru t.d. mikilvægur þjónustukjarni fyrir byggðarlög eins og Djúpavog, Breiðdalsvík, Vopnafjörð, Seyðisfjörð, og Borgarfjörð eystri og reyndar Austurland allt, og ef það verður samdráttur þar í atvinnulífinu hefur það áhrif hjá okkur. Á meðan þessi þensla undanfarin ár hefur staðið yfir fór sveitarfélagið aðeins í nauðsynlegustu framkvæmdir, s.s. vegna byggingar leikskóla vegna örrar íbúafjölgunar og í dag erum við ekki með virka biðlista þar en erum samt með þjónustu alveg niður í eins árs börn. Góður leikskóli og grunnskóli er kjarni þess að fá fólk til að setjast að hjá okkur og því höfum við sinnt vel.“
- Kemur bakslag í íbúaþróunina þegar framkvæmdum við Kárahnjúka lýkur?
„Það verður einhver samdráttur í atvinnulífinu sem er mjög eðlilegt miðað við hvað það komu margir inn á svæðið tímabundið. En sveitarfélagið hefur verið með mótvægisaðgerðir sem m.a. fólust í því að „geyma“ framkvæmdir fram yfir þenslutímann. Má þar nefna stækkun grunnskólans á Egilsstöðum, byggingu stjórnsýslu- og menningarhúss, húsnæði fyrir tónlistarskóla auk þess sem meiri kraftur verður nú settur í ýmis verkefni varðandi veitur sveitarfélagsins. Þá horfum við einnig til uppbyggingar háskóla- og þekkingarseturs á Egilsstöðum og við höfum fengið samþykki ríkisvaldsins á uppbyggingu húsnæðis á Vonarlandi í þeim tilgangi, og fyrirtæki og stofnanir sem ætluðu að vera með í því verkefni hafa skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis.
Áður fyrr voru framhaldsskólarnir sá kjarni sem gerðu viðkomandi sveitarfélög lífvænni, en nú erum við að fara upp á næsta stig, háskólastigið. Það ríkir því bjartsýni og framsýni á Fljótsdalshéraði,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri.

Árið 2004 efndi Fljótsdalshérað til hugmyndasamkeppni um skipulag á miðbæjarsvæðinu. Í gegnum hinn nýja miðbæ liggur „Strikið“, göngugata sem verður aðal slagæð fjölbreyttrar verslunar og þjónustu þar sem mannlíf getur blómstrað, ekki síst á þekktum góðviðrisdögum á Héraði. Markmiðið er að á Egilsstöðum rísi öflugur og samkeppnishæfur miðbær sem þjóni landsfjórðungnum öllum.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga