Héraðsverk

Stórt og öflugt  verktakafyrirtæki.

Fyrirtækið Héraðsverk (heradsverk.is) á Egilsstöðum var stofnað í mars árið 1988 þegar um 20 jarðvinnuverktakar á Fljótsdalshéraði tóku sig saman til þess að geta átt möguleika á að bjóða í umtalsverða stækkun og breytingu á Egilsstaðaflugvelli. Fyrirtækið hefur síðan verið rekið sem eins konar klasafyrirtæki og þannig átt möguleika á því að bjóða í stærri verk. Hver og einn hluthafi þarf því ekki að eiga margar tegundir tækja heldur getur sérhæft sig á ákveðnu sviði sem nýtist svo fyrirtækinu ákaflega vel þegar boðið er í og unnið við fjölþætt og margbrotin stórverkefni. Samvinna þessi hefur reynst mjög vel og verið farsæl. Fyrirtækið hefur fram að þessu getað skilað öllum verkefnum sínum á umsömdum tíma, í sumum tilvikum jafnvel fyrr. Verktökunum hefur með árunum tekist að byggja sig mjög vel upp af tækjum og öllum búnaði.

 
Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Sigurður Grétarsson, byggingatæknifræðingur (sig@heradsverk.is), upplýsir, að þó að flest verkefni fyrirtækisins hafi verið bundin við Austurland hafi fyrirtækið tekið að sér verkefni í öðrum landshlutum og nefnir sem dæmi, að unnið hafi verið að vegagerð á Snæfellsnesi og  við gerð snjóflóðavarnargarða á Siglufirði. Fyrirtækið hefur tekið að sér verkefni af margs konar stærðum og gerðum og má þar nefna verkefni á sviði virkjana- og álversframkvæmda og  ýmiskonar lagnavinnu og jarðgangnagerð. Stærstu verkefni fyrirtækisins voru í upphafi á sviði jarðvinnu og vegagerðar en síðari ár hefur fyrirtækið aukið umsvif sín og tekið að sér flókin og viðamikil verkefni á flestum sviðum jarð- og byggingavinnu.

Meðal helstu verka sem Héraðsverk hefur undanfarið unnið að eru:
- Lagning á hringvegi 1 um Norðurárdal í Skagafirði. Þar er öll vinna unnin af Héraðsverki fyrir Vegagerðina. Um er að ræða tæplega fimmtán kílómetra nýlagðan vegarkafla á þjóðveginum og eru á meðal verkþátta lagning nýrra brúa á Norðurá, Kotá og Króká auk varnargarða, ræsa, reiðstíga og girðinga.
- Snjóflóðavarnir. Hleðsla og bygging svonefnds snjóflóðafleygs í Fljótsdal fyrir Landsnet hf. Um er að ræða 9 – 13m háan og um 60m langan jarðvegsfleyg ofan tengivirkis og hleðsla veggja úr grjóti meðfram tengivirki. Fleygurinn er með bröttum hliðum sem byggðar eru upp með netgrindakerfi. Rúmmál fyllingar í snjóflóðafleyginn er um 38000 rúmmetrar.
- Lagning nýs rúmlega átta kílómetra kafla á hringvegi 1 í Jökuldal í Norður-Múlasýslu auk lagningar ræsa samt. um 600m. Þar er einnig öll vinna unnin af Héraðsverki fyrir vegagerðina.
- Varnargarðar vestan Skeiðarár í Austur-Skaftafellssýslu og er þar enn sem fyrr allir verkþættir unnir af Héraðsverki fyrir Vegagerðina. Um er að ræða hækkun og styrkingu á 2,2 km löngum varnargörðum og gerð 200m nýs varnargarðs.
- Gröftur 2,1  km langs frárennslisskurðar  frá stöðvarhúsi Landsvirkjunar í Fljótsdal ásamt veitingu Jökulsár í Fljótsdal. Áætlaðir efnisflutningar eru um 1.000.000 rúmmetrar.

 
Héraðsverk vinnur nú að vegagerð á tæplega 8 km kafla úr Jökuldal að Háreksstaðaleið og ennfremur að vega- og brúargerð á Hófaskarðsleið á Melrakkasléttu, sem er rúmlega 30 km löng nýframkvæmd í vegalögn þvert yfir Melrakkasléttu úr Þistilfirði að Kópaskeri. Verkið í Jökuldal er komið vel á veg en nýhafið á Hófaskarðsleið og vinnubúðir komnar á staðinn í því verki.
Nýlega samdi Vegagerðin við Héraðsverk um vegagerð í Þvottár og Hvalnesskriðum milli Lóns og Álftafjarðar. Þar er um að ræða endurbætur á núverandi vegi ásamt vörnum gegn grjóthruni í skriðunum. 
Verkefnastaða fyrirtækisins og staða í verkum er góð.

 
Fyrirtækið hefur tekið að sér verkefni af margs konar stærðum og gerðum og má þar nefna verkefni á sviði virkjana- og álversframkvæmda og ýmiskonar lagnavinnu og jarðgangnagerð.


Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga