Greinasafni: Skipulag
Alcoa

Bygging álvers er mikil verkfræðivinna

Þorkell Erlingsson er einn þeirra verkfræðinga sem unnið hafa að álverinu í Reyðarfirði – bæði hér heima og í Kanada.


Verktakafyrirtækið HRV var ásamt Bechtel, eitt þriggja fyrirtækja sem gerðu tilboð í verkfræðiþáttinn þegar álverið í Reyðarfirði var hannað.  HRV var stofnað árið 1995 sem samstarfsverkefni þriggja verkfræðistofa, VGK-Hönnunar, Rafhönnunar og Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsen, til að vinna að uppbyggingu álversins á Grundartanga. Frá þeim tíma hefur samstarfið verið að þróast og fyrir fimm árum var því formlega breytt í hlutafélag (hf) vegna samnings sem verið var að gera við ALCOA. Verkefnið var álverið í Reyðarfirði og í sem skemmstu máli þá hlaut HRV samninginn, ásamt Bechtel. Þeirra hlutverk var að sjá um allan verkfræðiþáttinn í uppbyggingunni.
Einn af þeim verkfræðingum sem störfuðu að verkfræðiþættinum fyrir hönd HRV er Þorkell Erlingsson hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen. Sem dæmi um stærð verkefnisins segir hann hundrað og fimmtíu verkfræðinga hafa komið að hönnun álversins. „Iðnaðarbygging eins og álver er fyrst og fremst verkfræðivinna og arkitektar koma þar minna við sögu. Það var hins vegar ákvörðun ALCOA að fá arkitekta til að hanna húsnæði utan um starfsemina og fyrir það eiga þeir sannarlega hrós skilið. Þá vildu þeir fá íslenska arkitekta, rétt eins og þeir vildu hafa íslenska verkfræðinga.“

 
Þorkell Erlingsson 

Fyrirtæki með reynslu
Þorkell er einn þeirra sem dvöldu í Kanada meðan á hönnunarvinnunni stóð – og líklega dvaldi hann lengst þar allra Íslendinganna sem komu að verkinu, eða í tæplega tvö ár. „ALCOA á álver í Quebeck og það hafði verið ákveðið að byggja sams konar álver á Íslandi; af sömu stærð , þar sem notuð er sama tækni. Síðan réðu þeir til sín verkfræðinga sem gátu bæði hannað, boðið út, keypt inn allt efni og séð um að reisa álverið. Fyrstu tvö árin var mannskapurinn mest í Montreal við að hanna og bjóða efnið út, síðan hefur hann að hluta til verið hér fyrir austan við að byggja verksmiðjuna, sem áætlað er að ljúka í desember á þessu ári.“
Verkefnið hefur verið risavaxið enda þurfti að hanna kerskála, steypuskála, skautsmiðju, súrálssíló og uppskipunartæki, svo eitthvað sé nefnt. HRV menn hafa unnið bæði að Norðuráli, sem og síðasta kerskálanum hjá ÍSAL og nú er verið að gera áætlanir um Helguvíkina. Fyrirtækið er því komið með gríðarlega reynslu hvað varðar verkfræðivinnu við stóriðju og er þegar farið að flytja út sína þekkingu. „Við erum að vinna við að endurbyggja Kubal,  álver í Sundsvall  rétt fyrir norðan Stokkhólm, sem er eina álverið í Svíþjóð,“ segir Þorkell. „Þetta er gamalt álver og HRV var fengið til að sjá um að endurbyggja það og endurnýja öll tæki. Því verki á að ljúka seint á næsta ári en okkar verkfræðingar hafa verið þarna frá því í byrjun þessa árs.“

Ásýnd á grjóthleðslu og þjónustubyggingu frá sjó.

„Að mati Þorkels leikur enginn vafi á því að markvissar öryggiskröfur hafi skilað sér margfalt við byggingu Fjarðaáls. „Það sést best á því að engin alvarleg slys eða dauðaslys urðu á mönnun á byggingartíma og óhöpp fátíð miðað við það sem við eigum að venjast á verkstað hér á landi.“

Vinningstillagan. 

Stífar öryggis- og umhverfiskröfur
Þorkell lætur vel af því að vinna fyrir ALCOA. „Fyrirtækið setur sér mjög stífar reglur um öryggi sem hefur verið fylgt í uppbyggingu í Fjarðaáli, bæði öryggiskröfur, umhverfiskröfur og kröfur um almenn samskipti  . Þetta eru mun stífari kröfur en við höfum vanist hér á landi og gott fyrir okkur Íslendinga að kynnast þeim, þar sem verið er að innleiða slíkar kröfur í hinum vestræna heimi.
Öryggiskröfurnar spanna afar breitt svið eða allt frá hönnun mannvirkisins  og byggingu þess ásamt þeirri starfsemi sem þar fer fram að framkvæmdum loknum. „Það þarf því að gæta að öryggi þeirra sem eru á verkstað á meðan á framkvæmdum stendur annars vegar og að þær framkvæmdir skili vinnustað sem uppfyllir fyllstu öryggiskröfur hins vegar.“ Að mati Þorkels leikur enginn vafi á því að markvissar öryggiskröfur hafi skilað sér margfalt við byggingu Fjarðaáls. „Það sést best á því að engin alvarleg slys eða dauðaslys urðu á mönnun á byggingartíma og óhöpp fátíð miðað við það sem við eigum að venjast á verkstað hér á landi.“ Sem dæmi um öryggisþætti nefnir Þorkell að verklag hafi verið vandlega skilgreint. „Leitast var við að byggja sem flestar einingar á verkstæði utan vinnusvæðis og komið með fullsamsettar á byggingarstað. Jafnframt var reynt að setja saman þök niðri á jörðinni og lyfta þeim upp í heilu lagi, til að menn þyrftu ekki að vera að vinna uppi á þökum eða mikill hæð. Og  bannað var að vinna uppi á þökum nema menn væru í sérstökum öryggisbúnaði og alltaf að minnsta kosti tveir saman.“
Núna þegar vinnu við verksmiðjuna er að ljúka og Þorkell er spurður hvernig honum lítist á útkomuna, segir hann:  Þetta er stærsta álver á íslandi og byggt í einum áfanga. Þeir eiga hrós skilið, Alcoa menn, fyrir þær kröfur sem þeir hafa gert til sjálfra sín og okkar í vinnuferlum, umgengni við náttúruna og öryggi manna.“

Núverandi lóðarskipulag. 

Aðkoma að þjónustubyggingu (sniðmynd). 


Höfum öðlast ómetanlega þekkingu

TBL er samstarfsfyrirtæki þriggja arkitektastofa sem fengu það verkefni að hanna byggingar álversins í Reyðarfirði. Byggingin er nú þegar orðin fyrirmynd að álverum framtíðarinnar.

Talið frá vinstri: Jón Ólafur Ólafsson, Bjarni
Snæbjörnsson og Halldór Eiríksson.

Álverið í Reyðarfirði er að mörgu leyti óvenjuleg stóriðnaðarbygging. Hún er sú eina sinnar tegundar í heiminum sem hefur verið hönnuð af arkitektum og er nú þegar orðin fyrirmynd að álverum framtíðarinnar. Byggingin er hönnuð af TBL arkitektum, sem er samstarfsfyrirtæki arkitektastofanna TARK, Batteríð og Landslagsarkitektúrstofunnar Landslag. Þegar ALCOA og Bechtel héldu samkeppni um bygginguna, bárust fjórar tillögur og var tillaga TBL valin. Við gerð tillögunnar naut TBL verkfræðiráðgjafar frá Línuhönnun – en sú stofa tók ekki þátt í útfærslunni.
Forsvarsmenn TBL, þeir Halldór Eiríksson, Jón Ólafur Ólafsson og Bjarni Snæbjörnsson segja að grunnforsendurnar sem þeir hafi fengið hafi verið að hanna „eitt stykki kerskála.“
„Við höfðum gróft verksmiðjusnið sem átti sér fyrirmynd í Deschambault álverinu í Kanada og síðan áttum við að hanna sjálfa bygginguna og umhverfið í kringum hana,“ segja þeir. „Þetta átti að vera umhverfisvænasta álver í heimi – og þetta var í fyrsta sinn sem álver fór í arkitektasamkeppni. ALCOA hafði ekki byggt nýtt álver í tuttugu ár og stóðu að þessu sinni frammi fyrir breyttri heimsmynd. Markmiðið var umhverfisvænt álver sem verða skyldi fyrirmynd að þeim álverum sem þeir ætla að byggja á næstu árum – en þeir eru með um fimmtán álver í bígerð.“

Áhersla á öryggi og vinnuvernd
Þremenningarnir segja hönnunina á álverinu hafa verið mjög sérstæða reynslu. „Þetta er allt öðruvísi nálgun fyrir okkur sem arkitekta en við höfum átt að venjast. TARK hafði að vísu hannað byggingar bæði á Grundartanga og Hellisheiði – en þetta verkefni krafðist svo mikillar samvinnu milli okkar og verkfræðiráðgjafanna sem að þessu mannvirki komu. Þetta snerist ekki bara um að við fengjum lóð og teiknuðum eitt hús. Við vorum ekki eins ráðandi í endanlegri stærð og formi og vélaverkfræðingarnir. Það má segja að byggingin hafi stjórnast af nýtingarforsendum og okkar hlutverk var að móta nokkrar byggingar utan um starfsemina.
Grunnforsendurnar sem við lögðum upp með voru þrjár: Inn með loftræstinguna  og þökin skyldu vera hallandi, auk þess sem við skyldum finna leið til að hleypa ljósinu vel inn í byggingarnar. Við ákváðum að hanna húsið þannig að birtan byggðist eins mikið á dagsljósi og hægt væri og að hún yrði reist sem mest á endurnýtanlegu efni. Öryggisþátturinn spilaði líka veigamikið hlutverk við hönnunina vegna þess að ALCOA og Bectel leggja gríðarmikla áherslu á öryggi og vinnuvernd, sérstaklega á byggingarstiginu. Að lokum vildum við skapa eins fallegan arkitektúr og hægt var, vitandi að þegar upp er staðið snýst allt um krónur og aura. Svona ferli snýst um endalausar málamiðlanir. Engu að síður fengum við mörgum af okkar hugmyndum framgengt. Þó ekki öllum, en þannig er þetta bara þegar unnið er að svona risavöxnu verkefni sem mikill fjöldi fólks kemur að hönnuninni.
Hins vegar kom það okkur ekkert á óvart að þurfa að gera málamiðlanir. Þegar tillaga okkar var valin eftir samkeppnina, fengum við að vita að þeir væru að velja hópinn fremur en tillöguna sem við lögðum fram – enda hefur sú tillaga breyst verulega mikið.“

Endalausar málamiðlanir
Þegar Halldór, Jón og Bjarni eru spurðir hvort umhverfi og náttúra hafi spilað inn í forsendurnar sem þeir fengu, segja þeir svo heldur betur vera. Bygginginarnar áttu að falla eins vel að landinu og hægt var og mengunarvarnarþátturinn var í öndvegi. Til dæmis er allt yfirborðsvatn hreinsað áður en það fer út af lóðinni og eins og við sögðum áðan er loftræsingin innanhúss til að draga sem mest úr mengun umhverfis verksmiðjuna. Upphaflega ætluðum við að hafa þakglugga í kerskálanum til að nýta dagsbirtuna sem mest en það var of áhættusamt, þannig að þess í stað notum við gagnsæja panela úr báruplasti sem hleypir mikilli birtu inn í þá, auk þess sem innviðir skálans eru mjög ljósir.
Við vildum gera allt sem í okkar valdi stóð til að gera vinnuumhverfið aðlaðandi, þannig að mönnunum sem vinna þarna geti liðið vel. Síðan eyddum við gríðarmikilli orku í klæðningamálin. Það skiptir afar miklu máli í 1100 metra langri byggingu að hún sé klædd með réttu efni, bæði út frá hagrænni forsendu, það er að segja að hún kosti ekki mikið, og framkvæmdarlegri forsendu, sem þýðir einfaldlega að menn með litla sérþekkingu geti framkvæmt verkið og öryggi þeirra sé tryggt um leið og við uppfyllum þau arkitektónísku gildi sem við lögðum upp með. Þetta gerði það að verkum að við stóðum frammi fyrir endalausum málamiðlunum allt ferlið. Í hvert sinn sem maður breytir smáatriði hefur það áhrif á allt ferlið og það fer óhemju mikill tími í þessa vinnu. Þessu má helst líkja við dómínóáhrifin.“

Fullt erindi á alþjóðlegan markað
Fyrir leikmann kann þetta að hljóma bæði þreytandi og pirrandi verkefni, en það er síður en svo að þeir Halldór, Jón og Bjarni skrifi undir það. „Þetta var gífurlega lærdómsríkt verkefni og skemmtilegt. Það sem skiptir mestu máli fyrir okkur þegar litið er til baka, er sú reynsla sem hefur orðið til í þessum hópi. Í fyrsta lagi,  er orðin til ómetanleg þekking á hönnun álvera og stærri mannvirkjum hjá TBL í dag. Í öðru lagi erum við að vinna í alþjóðlegu samstarfi með stærsta einkafyrirtæki í heimi. Það hefur fjöldi fólks frá okkur og öðrum fyrirtækjum unnið á skrifstofu Bechtel í Montreal í Kanada. Við vorum með fjóra menn þar mánuðum saman en alls komu fimmtán manns frá okkur að hönnun verkefnisins þegar mest var og voru þá staðsettir í Montreal og Reykjavík, auk þess sem einn starfsmaður var í Reyðarfirði til að hafa eftirlit með framkvæmdum.
Þetta er flóknasta verkefni sem við höfum komið að. Í því fólust verkferlar sem voru allt öðruvísi sen við áttum að venjast. Við þurftum að tileinka okkur önnur vinnubrögð en áður – sem gerir það að verkum að þetta hefur verið gríðarlega lærdómsrík reynsla. Eftir þetta erum við vissum að við eigum fullt erindi á alþjóðlegum markaði og arkitektúr á mikið erindi í iðnaðarumhverfi.
Það voru einkum öryggis- og vinnuverndarþættir sem voru lærdómsríkir. Reglur Bectels eru mjög strangar og við efumst ekki um að þær eiga eftir að valda byltingu í íslenskum byggingariðnaði. Þetta kom strax fram á fyrsta fundinum sem við áttum með þeim. Fundurinn byrjaði á því að okkur var sagt hvar flóttaleiðirnar úr fundaherberginu væru.“
„Þessar öryggiskröfur eru mjög harðar alveg frá fyrsta skrefi,“ segir Jón. „Þetta kom okkur dálítið spánskt fyrir sjónir til að byrja með og okkur fannst mjög fyndið þegar Bjarni fór, ásamt Sigurði Einarssyni og Dagnýju landslagsarkitektinum sem vann með okkur austur til að skoða lóðina sem álverið skyldi reist á. Þetta var þegar við vorum að undirbúa tillögu okkar.“

Þjónustubyggingin.

Hjálmur og stáltá
„Þau flugu til Egilsstaða, tóku bíl þar og keyrðu niður í Reyðarfjörð. Þar fóru þau út úr bílnum á byggingasvæði framtíðarinnar; stóðu bara þarna úti í guðsgrænni náttúrunni og virtu svæðið fyrir sér, tóku myndir og spjölluðu um verkefnið. Þá kom til þeirra ábúðarfullur maður og rak þau í burtu, sagði að þetta væri byggingasvæði og þau mættu ekki vera þarna. Þau sögðust vera að skoða svæðið vegna undirbúnings tillögu í arkitektasamkeppni. Það skipti engu máli, þau máttu ekki vera þarna nema setja upp hjálm og hlífðargleraugu, og klæðast gulu vesti og skóm með stáltá.“
„Okkur fannst þetta rosalega fyndið þarna í byrjun,“ segja Halldór, Jón og Bjarni, „en raunin er sú að það hafa engin alvarleg vinnuslys orðið þarna í öllu byggingarferlinu – öfugt við það sem verið hefur á Kárahnjúkum. Bectel á mikið hrós skilið fyrir þær ströngu kröfur sem þeir setja um öryggi bæði fyrir þá sem vinna að framkvæmd bygginganna og þeirra sem eiga eftir að starfa í þeim.“

Hlýleg ásýnd frá fjalli til fjöru

Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt fékk það verkefni að móta fallegt landslag og umhverfi í kringum álverið í Reyðarfirði

Meginhugmyndin í skipulagi umhverfis álversins í Reyðarfirði var að vinna markvisst með landsvæðin frá náttúru að manngerðu umhverfi, segir Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf. sem tók þátt í hönnun álversins og er „L-ið“ í samstarfsfyrirtækið TBL. „Annars vegar snerist þetta um svæðið frá sjó að byggingu, hins vegar frá fjalli að byggingu. Markmiðið var að skapa mannlegan skala og hlýlegt viðmót þegar komið er að svæðinu.

Frá þjóðveginum er afar fallegt útsýni út á Reyðarfjörð og við lögðum áherslu á að halda því eins og hægt er. Álverið situr neðarlega í landinu og okkar hugmyndir voru að búa til skáliggjandi manir sem risu upp úr landinu á milli vegarins og álversins og tóku form af fjallinu hinu megin fjarðar og beindu sjónum að því . Það svæði var hins vegar nýtt undir skrifstofu- og þjónustubyggingar á meðan á framkvæmdum stóð og það breyttust forsendur um hvar umframjarðvegi var komið fyrir, þannig að við komum til með að gera breytingar á upphaflegum hugmyndum okkar. Engu að síður munum við leggja mikla áherslu á að milda sjónræn áhrif frá þjóðveginum að álverinu, og vinna með ásýndina yfir fjörðinn.

Nýtt landslag hefur orðið til
með breyttum farvegi
Grjótár.

Árfarvegum breytt
„Áður en hafist var handa um hönnun álversins runnu tveir árfarvegir í gegnum lóðina, Hólshúslækur að vestan og Grjótá að austan. Farvegum þeirra var breytt og þeir leiddir framhjá lóðinni sitt hvorum megin og síðan gerðum við tillögur um uppgræðslu á umhverfi þeirra. Nýi Grjótárfarvegurinn myndar skemmtilegt gil og fallega náttúru með fossum og flúðum. Núverandi uppgröftur verður mótaður og græddur upp, þannig að hann falli eðlilega inn í núverandi hlíðar fjallsins og okkar tillaga snýst um að haga frágangi þannig að hægt verði að nýta þetta nýmótaða landslag sem útivistarsvæði.“
Meðfram allri byggingunni, sjávarmegin, hefur verið hlaðinn gríðarmikill grjótgarður.  Í samkeppnistillögunni gerðum við alltaf ráð fyrir grjótgarði sem tæki upp hæðarmuninn frá verksmiðjusvæðinu og niður að strönd.  Á framkvæmdatímanum var ákveðið að færa þennan garð nær ströndinni og nota landið aftan við fyrir umframefni. Grjótgarðurinn var nauðsynlegur til að halda við jarðveginn, þar sem hann var svo leirkenndur að hann gat ekki staðið undir sjálfum sér. Hins vegar hafi grjótgarðurinn opnað marga nýja möguleika í hönnun umhverfisins.

Settjarnir og grjótgarður
 „Í tillögum okkar er gert ráð fyrir gönguleið upp á garðinum þar sem hægt verður að staldra við og virða fyrir sér útsýnið yfir fjörðinn .  Við leggjum líka til að hann verði lækkaður á ákveðnum stöðum t.d við þjónustubygginguna til að hún fái sjónræna tengingu niður að sjó, og til að skapa aðgengi að ströndinni. Grjótgarðurinn þjónar líka þeim tilgangi að girða af verksmiðjusvæðið frá ströndinni, en neðan við hann var lögð áhersla á að ströndin yrði opin almenningi.
Inni á lóðinni eru tvær settjarnir en það eru afar strangar reglur hjá ALCOA um að hreinsa allt yfirborðsvatn áður en það fer í sjóinn. Fyrst síast vatnið niður í gegnum jarðveginn fer svo áfram í þessar settjarnir þar sem að  fínn salli sest til botns.  Þannig eru grassvæði innan verksmiðjulóðarinnar nokkurs konar vatnshreinsibúnaður.  Þessar tjarnir eru að hluta til votlendi með breytilegri vatnsstöðu og hluta til eiginlegar settjarnir sem hægt er að hreinsa botnfall upp úr. Frá yfirfalli rennur svo vatnið eftir grjótsvelgjum út í sjó.  Tjarnarsvæðið verður grætt upp með íslenskum votlendisplöntum í samstarfi við Náttúrustofu austurlands.

Grænt andlit
Það svæði sem við leggjum mesta áherslu á að vinna með er aðkoman að verksmiðjunni og umhverfið í kringum þjónustubygginguna.  Aðkoman að svæðinu fyrir starfsfólk og gesti er í gegnum þjónustubygginguna. Þar eru 187 bílastæði, auk sex rútustæða við neðstu hæð byggingarinnar. Bílastæðin og aðkoman eru vel aðgreind frá verksmiðjusvæðinu með fjögurra metra hárri brekku.
Þjónustubyggingin er sú bygging sem allir fara í gegnum til vinnu sinnar og er hún einnig andlit fyrirtækisins.  Þegar þú kemur að byggingunni þá blasir við ströndin og fjörðurinn en verksmiðjan sjálf er heilli hæð ofar.  Gróðurvæddur flái skilur á milli aðkomunnar og verksmiðjunnar, þannig reynum við að vinna með mannlegan skala alls staðar í kringum hana og skapa hlýlegt umhverfi fyrir starfsfólkið. Á móts við ströndina við bygginguna reiknum við með að fólk geti matast utnadyra  þegar veður leyfir.   Fyrir ofan grjótvegginn, að verksmiðjunni, er heilmikið grænt svæði þar sem við leggjum upp með göngustígum á milli verksmiðjusvæðanna og meðfram grjótveggnum.  Þannig getur starfsfólkið valið milli styðstu leiðar eða getur notið þess að hreyfa sig virða fyrir sér útsýnið og andað að sér sjávarloftinu. Við sjáum líka fyrir okkur að þetta svæði sé hægt að nota í þágu starfsfólksins, til dæmis með boltavelli og slíku .“
 „Okkur finnst mikilvægt að þú komir að manneskjulegum skala þegar þú kemur að verksmiðjunni og leggjum áherslu á að gróðurvæða aðkomusvæðið sem er andlit verksmiðjunnar. Grjótgarðurinn myndar síðan sjónræna lokun inn á verksmiðjusvæðið frá ströndinni séð. Hugmyndin er að allt sem snýr að þér þegar þú kemur á svæðið sé grænt. Það er mikil áhersla lögð á að gróðurvæða hvern blett sem ekki er nýttur,  til að þér mæti ekki bara grátt malbik og auðn, fyrir utan að þjóna því hlutverki að sía vatnið. Verksmiðjuumhverfi þarf ekki – og á ekki að vera ljótt.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga