Greinasafni: Skipulag
Búgarðabyggð
Margt sem mælir í mót Rökin gegn búgarðabyggð eru bæði umhverfisleg, efnahagsleg og landnýtingarleg að sögn Salvarar Jónsdóttur, skipulagsfræðings hjá Alta. Hún segist ekki þekkja neinn fagaðila með þekkingu á skipulagsmálum sem mæli búgarðarbyggðinni bót. Mynd Ingó.

Hugtakið búgarðabyggð er tiltölulega nýtt hér á landi en sést æ oftar í skipulagsáætlunum. Skiptar skoðanir eru á þessu nýja búsetuformi, sem oft er einnig nefnt sveit í borg.  Margir gleðjast yfir því að fleiri vilja búa í sveitinni aðrir hafa áhyggjur af útþenslunni og þeirri mengun og  kostnaði sem henni fylgir.   Salvör Jónsdóttir, skipulagsfræðingur er ein þeirra sem hafa látið sig málið varða og segir búgarðabyggð geta verið sóun á góðu landi.

„Erlendis er verið að eyða peningum og tíma í að lagfæra  þróun  byggða  á borð við búgarðabyggð, þ.e.a.s. dreifða byggð á stórum lóðum. Langbest væri ef við Íslendingar myndum læra af öðrum þjóðum með því að láta þetta ekki gerast hjá okkur, enda er mjög erfitt að þétta svona byggð þegar hún er einu sinni komin,“ segir Salvör sem segist ekki þekkja neinn fagaðila með þekkingu á skipulagsmálum sem mæli búgarðabyggðinni bót.
 „Búgarðabyggð er tiltölulega  nýtt hugtak hér á landi sem er þó komið inn í mjög margar skipulagsáætlanir. Ég skil ekki hversvegna í ósköpunum sveitarfélög sjá sér hag í því að samþykkja slíka byggð. Kannski hafa menn  ekki enn áttað sig á ókostunum,“ segir Salvör. Að hennar sögn eru ókostirnir margvíslegir. Í fyrsta lagi er dreifð byggð mun óvistvænni heldur en þétt byggð. „Í svona dreifðum byggðum er t.d. mjög erfitt að reka almenningssamgöngur. Í Reykjavík er alltaf verið að tala um að gatnakerfið sé sprungið en það er ekki vegna þess að göturnar séu ekki nógu stórar heldur vegna þess að byggðin er of dreifð.“
Í öðru lagi er mjög kostnaðarsamt að halda uppi veitu- og gatnakerfi í dreifðum byggðum. Og sá kostnaður lendir á venjulegum skattborgurum. „Þeir sem búa í þéttari byggð eru í raun að niðurgreiða þann aukna kostnað sem hlýst af því að halda uppi dreifðri byggð og í því felst vissulega nokkur ósanngirni.“

Góðu landbúnaðarlandi fórnað
Salvör hefur einnig áhyggjur af því að verið sé að fórna góðu landbúnaðarlandi undir búgarðabyggðir.
„Landið er takmörkuð auðlind.Það má kannski segja að það sé til nóg land, en það er bara ekki til nóg af heppilegu ræktarlandi,“ segir Salvör sem vill að tryggt sé að bæði sé til nægilegt land undir matvælaframleiðslu og vatnsbúskap.
„Það er mjög óvistvænt að flytja inn matvæli  í jafn stórum stíl og við erum farin að gera. Það væri nær að við nýttum okkur þá möguleika sem hér eru til matvælaframleiðslu, að ekki sé  talað um hvað fersk vara er miklu betri en sú sem hefur þvælst um  langan veg.  En til þess að það geti orðið þarf að vekja vitund neytanda. Mér finnst afar sérkennilegt að fólk virðist vera meira meðvitað um það hvernig bensín það setur á bílinn sinn heldur en hvað það lætur ofan í sig og börnin  sín.“
Salvör telur að margt ungt fólk vilji stunda matvælaframleiðslu en þar sem gott land er mjög dýrt er  það erfitt. „Jarðir sem eru hvað heppilegastar til landbúnaðar, eru nálægt mörkuðum,  gjöfular og góðar,  eru gjarnan keyptar upp af auðmönnum og hugsanlega  brytjaðar niður í búgarðabyggðir.“

Vernda þarf votlendið
Þegar skipulagsmál eru annarsvegar virðast sveitarfélög leggja mikinn metnað í það að bjóða upp á fjölbreytta búsetuvalkosti enda margir þeirrar skoðunar að fólk eigi að fá að búa eins og það vill, þar sem það vill, hvort sem það er á stórum jörðum úti á landi eða ekki. „Margir myndu gjarnan vilja eiga einbýlishús með bryggju út í Þingvallavatn. En fólk fær ekki allt sem það vill. Við erum nú þegar með ýmsar reglur varðandi hegðun okkar, þannig að það er ekkert óeðlilegt við það að við setjum einhverjar reglur varðandi það hvernig við förum með landið og sóum því ekki. Mér finnst full ástæða til þess að bjóða upp á alla þá búsetuvalkosti sem við höfum ráð á því að bjóða upp og þá á ég við hvað varðar umhverfiskostnað.   Ef við viljum endilega bjóða uppá svona byggð þá er hugsanlegt að einhversstaðar sé hægt að leyfa það en það þarf þá að vera þannig að viðkomandi einstaklingar greiði þann kostnað sem af því hlýst, sem er bæði umhverfiskostnaður og beinn fjárhagslegur kostnaður. Og það held ég að menn séu ekki tilbúnir að gera.“
 Þegar Salvör eru spurð að því hvort hún setji frístundabyggðir og búgarðabyggðir undir sama hatt neitar hún því og segir búgarðabyggðirnar öllu varasamari. „Í frístundabyggðum er fólk ekki með fasta búsetu og mengurnarstuðullinn því ekki eins hár og í búgarðabyggðum þar sem fólk þarf daglega að sækja ákveðna þjónustu eins og vinnu og skóla. Frístundabyggðir hafa líka meira verið byggðar á svæðum sem eru síður heppilegar til landbúnaðar og eins hafa þær síður verið byggðar í votlendi eins og sumar búgarðabyggðirnar. Slíkt er stórvarasamt því til dæmis er hægt  að nota votlendi til kolefnisjöfnunar, sem er mun árangursríkari leið en skógrækt. Það getur vel verið hægt sé að finna land sem er hvorki votlendi né heppilegt til matvælaframleiðslu en búgarðabyggðin er engu að síður óvistvænt búsetuform.“

Andvaraleysi á Íslandi
Talið berst að skipulagsmálum Íslendinga almennt og þar finnst Salvöru bæði að við mættum vera vistvænni og framsýnni í hugsun.
„Almennt ríkir frekar mikið andvaraleysi hér. Við erum svo vön því að hafa ekki áhyggjur af framtíðinni. Fólki finnst óþægilegt að hugsa 10 ár fram í tímann og hvaða afleiðingar gjörðir þess hafa á framtíðina. Hér er  mikil trú á tæknina og sú hugsun er ríkjandi að ekki þurfi að hafa áhyggjur af hlutunum núna því það verði komin einhver ný tækni eftir nokkur ár sem leysi vandann.„
Hún heldur áfram: „Þegar ég flutti til Bandaríkjanna árið 1990  var baráttan við útþenslu byggðar gömul lumma og þar var unnið hörðum höndum að því að berjast gegn slíku. Hér þykir hinsvegar sjálfsagt mál að þenja út byggð.  Það sem var orðið vandamál fyrir 20 árum annarsstaðar erum við varla búin að uppgötva. Ef ég hef máls á því þá er það bara frétt.“ Hún tekur fleiri dæmi um það hve Íslendingar eru eftir á í hugsun hvað þessi mál varðar og nefnir sem dæmi að þegar hún bjó í Bandaríkjunum með son á skólaaldri þá voru bílar bannaðir á skólalóðinni. Allir gengu í skólann og sá bekkur þar sem ekkert barn hafði komið á bíl fékk verðlaun, eins og tíðkast með reyklausa bekki hér á landi. En af hverju gengur svona hægt að innræta Íslendingum vistvæna hugsun?
„Ætli það sé ekki bara vegna þess að við erum svo vön því að vera föst í þeirri hugsun að við séum svo fá og smá, hér sé nóg land og því skipti ekki máli hvað við gerum,“ segir Salvör.

Almenningur þarf að taka virkari þátt í aðalskipulagsgerð
Á þeim 20 árum sem Salvör hefur starfað við skipulag segir hún þó að miklar breytingar hafi átt sér stað. Meiri umræða sé almennt um skipulagsmál og almenningur láti meira í sér heyra. Að þessu sögðu ítrekar Salvör að fólk sé samt ekki nógu vel meðvitað um það hvernig skipulagskerfið á Íslandi sé uppbyggt.  Hún útskýrir að það skiptist í þrjú stig; svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Aðalskipulag nær til alls sveitarfélagsins og er lykilatriði í íslenska skipulagskerfinu. Þar eru megin línur mótaðar og deiliskipulag svo útfrá því.
Nokkuð hefur verið kvartað yfir því að skipulagsmál séu einfaldlega ekki nógu vel kynnt fyrir almenningi og tekur Salvör undir það. Vissulega mættu yfirvöld standa sig betur í þeim málum.
„Fólk verður að gera sér grein fyrir því að skipulagsmál ganga ekki bara út á það að hanna hús, götur og fallegt umhverfi. Stefnan er ákveðin í aðalskipulagi og þar er ákveðið hversu mikið á að þétta byggðina eða þenja hana út. Stefnumótandi ákvarðanir skipta okkur öll miklu máli og það getur verið erfitt að snúa af þeirri braut sem tekin er í aðalskipulagi. Sveitarstjórnarmenn verða að skilja að þeir eru að ráðstafa sameiginlegum sjóðum, sem er landið sjálft og ákveða hvernig álögur verða á skattgreiðendum í framtíðinni, hver mengunin verður o.s.frv. Þetta er mikið ábyrgðarhlutverk og þar má gjarnan veita þeim gott aðhald.„
Eins og áður hefur komið fram eru búgarðabyggðir víða komnar inn á aðalskipulag sveitarfélaga. Það er því ekki úr vegi að spyrja Salvöru svona að lokum hvort það sé ekki hreinlega orðið of seint að setja sig upp á móti þeim. „Því færri því betri er mín trú. Mörg sveitarfélög eru með slíkar byggðir inni á aðalskipulagsáætlunum sínum en ekki er enn búið að staðfesta þær. Og meðan svo er, þá er enn hægt snúa við þróuninni.  Það er í það minnsta mjög mikilvægt að vekja umræðuna. Maður byrjar á því.  Þegar ég var að alast upp þá var reykt í opinberum stofnunum, flugvélum og  bara allstaðar. Nú dettur engum í hug að reykja ofan i börn. Og hvað gerðist, jú með auknum skilningi breyttist viðhorfið og þetta er bara svipað. Ég held við hljótum að átta okkur á því að þær ákvarðanir sem teknar eru um landnotkun hafa áhrif á umhverfi okkar og lífsgæði komandi kynslóða.“

HVAÐ ER BÚGARÐA-BYGGÐ?
Búgarðabyggð er nýtt búsetuform sem er að ryðja sér til rúms  hér á landi. Mjög mörg sveitarfélög eru farin að bjóða upp á búgarðabyggð, þar sem menn njóta kosta sveitarinnar en eru samt í þéttbýli. Mjög rúmir skilmálar eru varðandi nýtingu landsins. Menn geta t.d. verið með húsdýrahald eða stundað léttan iðnað á lóðunum og byggt þar íbúðarhús, skemmur, útihús, gróðurhús o.fl. Lóðirnar eru mjög stórar og byggðirnar dreifðar.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga