Heilagur Marteinn og Ísland,Ólafur H. Torfason
Ólafur H. Torfason
Heilagur Marteinn og Ísland


Kaflar:

Nokkur meginatriði sem vekja athygli:
  • Keltar höfðu heilagan Martein í sérstökum hávegum erlendis, líklega einnig paparnir og Írarnir hér á landi.

  • Forystumenn kristniboðs á Norðurlöndum tignuðu heilagan Martein sérstaklega.

  • Öflugasta ættin í frumkristnisögu Íslands var frá "Marteinsjörðinni" Haukadal.

  • Tíu Marteinskirkjur voru á Íslandi.

  • Saga heilags Marteins hefur varðveist í nokkrum íslenskum handritum.

  • "Marteinsklæðið" í Louvre-safninu í París er einn frægasti listgripur Íslandssögunnar.

  • Marteinsmessa 11. nóv. var einn helsti hátíðis- og viðmiðunardagur ársins.

Frumkristni

Sennilega hafa fáir dýrlingar verið hafðir í jafn miklum hávegum hér á landi í upphafi og heilagur Marteinn frá Tours. Tignun hans er líklega jafngömul sögu skráðrar byggðar í landinu. Þótt ekki séu um slíkt beinar heimildir má ráða þetta af sterkum líkum.

Paparnir hafa sennilega verið Marteins-tignendur, enda var hann frumherji munklífis og einsetumunka í vestanverðri Evrópu. Heilagur Marteinn var þar að auki aðalfyrirmynd og árnaðarmaður heilags Patreks (um 390-460), trúboða og verndardýrlings Írlands. Hann sótti menntun sína til eins af Marteins-klaustrunum í Frakklandi og samkvæmt einni helgisögninni vann hann munksheit sín hjá heilögum Marteini.

Fólk frá Suðureyjum og Skotlandi þekkti líka vel til tignunar heilags Marteins. Heilagur Ninian, "postuli" Skotlands kom í pílagrímsferð til Tours og stofnaði klaustur sitt í Whithorn eftir fyrirmynd klausturs heilags Marteins í Marmoutier í Frakklandi.

Á Norðurlöndum höfðu tveir af öflugustu trúboðsforingjunum heilagan Martein í öndvegi umfram aðra dýrlinga.:

Heilagur Ansgar (801-865) stjórnaði trúboðsferðum til Norðurlanda sem erkibiskup í Brimum og Hamborg. Hann var franskur, hafði menntast og starfað í Corbie nærri Amiens, einum aðalpílagrímastaðnum Marteinsdýrkenda og hafði heilagan Martein sem fyrirmynd í lifnaðarháttum og embættisfærslu.

Ólafur Tryggvason Noregskonungur (d. 1000) stuðlaði að kristnitöku í Noregi, á Íslandi og Grænlandi. Hann fékk vitrun heilags Marteins í draumi nóttina eftir að hann kom til Noregs í fyrstu trúboðsferð sinni með Þangbrandi og öðrum prestum frá Bretlandseyjum. Lofaði heilagur Marteinn í draumnum að styðja Ólaf í trúboðinu gegn því að minni sitt væri drukkið í veislum í stað þess að skála fyrir heiðnum goðum. Reyndist sú liðveisla vel. Frásögnin um Martein er ekki í Heimskringlu Snorra Sturlusonar, sem í endursögnum sínum vinsaði margt trúarlegt úr, en Oddur munkur Snorrason lýsir þessu í sögu Ólafs sem hann ritaði í Þingeyraklaustri á 12. öld.

Nær 600 ár voru liðin frá andláti heilags Marteins þegar kristni var lögtekin á Íslandi og þótt minning hans virðist hafa verið sterk í upphafi komst hann ekki í röð vinsælustu dýrlinganna. Niðurstaða bandarísku fræðikonunnar dr. Margaret Cormack um Marteinsdýrkun á Íslandi er þessi:

"Heilagur Marteinn virðist hafa verið í talsverðum hávegum hafður hjá lærðum mönnum á Íslandi á síðari hluta 12. og í upphafi 13. aldar. - - - Þrátt fyrir sess í ritmáli virðist Marteinn ekki hafa notið útbreiddra vinsælda; aðeins ein kirkja af þeim sem ekki voru helgaðar honum átti mynd af honum og engin þeirra kirkna þar sem hann var með-dýrlingur átti myndir hans."

The Saints in Iceland. Subsidia Hagiographica 78. Société des Bollandistes, Brussel 1994, 125.
Haukadalur

Kirkjan í Haukadal í Biskupstungum var Marteinskirkja. Heilagur Marteinn átti því jörðina samkvæmt þeirrar tíðar lögum.

Haukdælir höfðu forystu um kristnitöku á sunnanverðu landinu og réðu lögum og lofum innan íslensku kirkjunnar fyrstu aldirnar. Tengsl þeirra við Marteinstignunina eru augljós.

Hallur Þórarinsson í Haukadal var einn af fáum Íslendingum sem skírður var af Þangbrandi biskupi í trúboðsferð hingað á vegum Ólafs Noregskonungs. Hallur fóstraði síðan ættföður Haukdælanna, Teit Ísleifsson, en hann var sonur fyrsta Skálholtsbiskupsins.

Teitur stofnaði einn fyrsta skóla landsins. Séra Hallur Teitsson, sonur hans, skrifaði ferðabók um Suðurlönd, Flos peregrinationes, sem nú er glötuð, og var sagður hafa verið í meiri metum í Róm en nokkur Íslendingur áður. Sagnaritarinn Ari fróði ólst upp hjá Teiti.

Það vekur sérstaka athygli að sagt er að Teitur ættfaðir Haukdæla hafi látist á Marteinsmessu, 11. nóvember 1089.

Ein frásögn frá Haukadal á 13. öld bregður ljósi á deilur um yfirráð kirkjujarða milli leikmanna og biskupa:

Árni Þorláksson Skálholtsbiskup 1269-98 deildi við Klæng bónda í Haukadal um eignarhald og forráð á staðnum. Klængur ætlaði syni sínum rekstur jarðarinnar en Árni sagði prestinn þar eiga að fara með kirkjuhlutinn. Klængur vísaði þá til eignarhalds heilags Marteins með því að láta reka sex kýr og sextíu ær í rétt og segja: "Þetta fé greiði ég hinum sæla Marteini biskupi er kirkjudrottinn er hér í Haukadal." Lét hann svo marka skepnurnar syni sínum. Með þessu var Klængur að segja að þótt kirkjan gæti í orði kveðnu átt eignir og auðlindir staðarins væri það skylda og réttur veraldlegra umsjónarmanna að stjórna þeim og ráðstafa. Árni biskup stóð efnislega í sömu baráttu og heilagur Marteinn á sinni tíð í deilum um hvor væru æðri, kirkjuleg eða veraldleg yfirvöld.


Marteinslaug í Haukadal

Marteinslaug í Haukdal var ein kunnasta lækningalind Íslands á fyrri tíð. Var átrúnaður enn bundinn áhrifum hennar um miðja 18. öld eins og Eggert Ólafsson lýsti í Ferðabók sinni og Bjarna Pálssonar:

"Er hún mikið notuð og í miklum metum hjá fólkinu þar. Sumir segja, að Marteinn biskup í Skálholti, annar biskup þar í lútherskum sið, hafi látið hlaða upp laugina, en aðrir halda því fram, að laugin hafi vegna jarteinar endur fyrir löngu verið helguð Marteini frá Tour, sem kunnur var um allt Ísland og svo vinsæll, að minni hans var til skamms tíma drukkið í öllum brúðkaupum og stórveislum. - Þá er og sagt, að vatnið sé gætt lækningamætti, og er nefndur til fjöldi manna, sem þar hafi hlotið heilsubót."

Marteinslaug hefur verið spillt og fornum minjum þar, gufubaðshús reist yfir henni og vatn tekið til húshitunar fyrir Skógrækt ríkisins sem á jörðina.

Biskupasögur

Saga heilags Marteins frá um 400 var fyrirmynd að byggingu og innihaldi allra ævisagna dýrlinga sem ekki voru píslarvottar (játarasagna). Í þeim flokki eru sögur íslensku biskupanna þriggja sem tignaðir voru sem dýrlingar. Heilagur Marteinn blandast inn í þær allar.

Saga Jóns helga Ögmundarsonar, biskups á Hólum 1106-1121:
Í dómkirkjunni á Hólum í Hjaltadal var hluti af beini úr heilögum Marteini. Prestur kom "frá stað heilags Martini biskups" (Grenjaðarstað í S.Þing.), "biðjandi lítillátlega hinn heilaga Jón partera sér nokkuð af heilögum dómum sæls Martini, er þar voru á staðnum". Klofnaði síðan beinið af sjálfu sér í tvo hluta og var minni hlutinn gefinn Grenjaðarstað.
Í Jarteinaþætti Jóns sögu er sagt frá kraftaverki sem heilagur Marteinn virðist eiga þátt í.

Saga Þorláks helga Þórhallssonar, biskups í Skálholti 1178-1193:
Áður en Þorlákur helgi varð biskup dreymdi hann á Þingvöllum að hann bæri höfuð heilags Marteins af alþingi til búðar sinnar. Var það túlkað þannig að hann mundi líka verða biskup.
Þorlákur helgi líktist heilögum Marteini í því að fara ekki að nauðsynjalausu úr klaustri sínu, vera fámáll og hafa sig lítið í frammi vegna biskupskjörs. Eftir vígslu til Skálholts hélt hann áfram munkasið í klæðnaði og lifnaðarháttum eins og heilagur Marteinn á sinni tíð.

Saga Guðmundar góða Arasonar, biskups á Hólum 1203-1237:
Guðmundur líktist heilögum Marteini í framkomu, miskunnaði sig yfir þurfamenn og blessaði lindir. Presti þótti bein Jóns Ögmundarsonar ekki heilaglegt í útliti en Guðmundur spurði "hvort hann tryði Martein biskup óhelgari en aðra menn, af því að bein hans voru dökk."
Í Guðmundar sögu eftir Arngrím ábóta Brandsson segir að "öfundarkveikja" í hans garð hafi lifnað á sama hátt og gagnvart heilögum Marteini: "meir í fyrstu af kennimanna hálfu en leikvaldi "
Keimlíkar eru frásagnir af Guðmundi góða og heilögum Marteini vegna fiskveiða. Bóndi taldi örvænt um fisk úr veiðivatni á hvítasunnu en Guðmundur sagði: "Svo mun standa, að sæll Martinus lét veiða sér fisk til borðs á fyrsta páskadag, og því sýnist mér þetta mega gera, er biskup býður. Bóndinn veiddi síðan vænasta fisk.
Eins og heilagur Marteinn vildi Guðmundur láta leggja mold undir sig á dánarbeði: "Hér má nú sjá á sínum síðustu tímum annan Martinum. Var og í þeirra lífi heilli sæmd hins sæla Martini stórlega margt samkvæmilegt, lítillæti, hreinlífi, fátækt og píslarvætti með alls kyns harðlífi og bindindi."

Kirkjur

Tíu sóknarkirkjur voru helgaðar heilögum Marteini á Íslandi í kaþólskum sið.

Kirkjur þar sem heilagur Marteinn var aðaldýrlingur:

1 - Grenjaðarstaður í Aðaldal, sem átti m.a. helgan dóm heilags Marteins (kirkjan átti líka gripi tengda Maríu mey, Nikulási, Pétri, Vincentíusi, Þeódórusi, Agötu og postulunum)
2 - Haukadalur í Biskupstungum (einnig helguð Maríu mey, Andrési og Barböru og átti gripi tengda Þorláki)
3 - Hof í Goðdölum (helguð Marteini einum)
4 - Möðruvellir í Eyjafirði (átti líka gripi tengda Maríu mey)
5 - Narfeyri (Eyri) við Álftafjörð, Snæfellsnesi (átti líka gripi tengda Maríu mey, Lárentsíusi og Þorláki)
6 - Marteinstunga (Sóttartunga) í Holtum (átti líka gripi tengda Maríu mey)

Kirkjur sem voru helgaðar Marteini ásamt öðrum:

7 - Bær í Borgarfirði (aðaldýrlingur Ólafur, aðrir voru María mey, Pétur, Agnes og Maurice)
8 - Hvanneyri í Borgarfirði (aðaldýrlingur María mey, aðrir voru Pétur, Tómas Becket, Ólafur og Þorlákur)
9 - Melar í Borgarfirði (ásamt Maríu mey, Pétri, Andrési, Stefáni, Ólafi, Lárentsíusi, Nikulási, Þorláki, Agötu, Lúsíu, Margréti, 11.000 meyjum og öllum heilögum. Óvíst er um aðaldýrling)
10 - Vörðufell (Fjall) á Skeiðum (hálfkirkja) (ásamt Maríu mey, Pétri, Ólafi og Gallusi)
11 - Viðeyjarklaustur. Heilagur Marteinn var meðdýrlingur norðuraltarisins. 

Kirkjugripir:

Helgir dómar heilags Marteins (bein, beinflísar) voru sagðir vera í kirkjunum á Grenjaðarstað í Aðaldal og Hólum í Hjaltadal.
Útsaumað altarisklæði með 12 myndum úr ævi heilags Marteins var lengi á Grenjaðarstað í S.-Þingeyjarsýslu. Paul Gaimard flutti klæðið úr landi 1836 og er það á Louvre-safninu í París.
Mynd heilags Marteins (eða líkneski) áttu sex fyrsttöldu kirkjurnar að framan og auk þess Vallanes í S.-Múlasýslu.
Útsaumað altarisklæði frá Draflastöðum, gert á 16. öld, hefur efst í vinstra horni mynd af Jóhannesi skírara með heilögum Marteini.
Altarismynd með þremur atvikum úr ævi heilags Marteins var á Möðruvöllum í Eyjafirði, talin smíðuð í Bergen á fyrstu áratugum 14. aldar.

Marteinsmessa

Marteinsmessa 11. nóvember var í kaþólskum sið "löghelgur dagur" og skylt að halda hana hátíðlega.
Í Grágás, lagasafni þjóðveldisaldarinnar (gilti frá fyrri hluta 12. aldar fram á síðari hluta 13. aldar) er Marteinsmessa ein af aðalhátíðum ársins.
Marteinsmessan virðist hafi verið samkomudagur til ýmissa hluta. Á 13. öld er þess getið að lagabálki hafi verið játað "að Marteinsmessu". Ef til vill var tíund til þurfamanna úthlutað í sambandi við daginn, hugsanlega með matargjöfum, en slíku framlagi átti í síðasta lagi að vera lokið fyrir Marteinsmessu. Líklegt er að fólk hafi þá gert sér glaðan dag sem samrýmist hefðum um hátíðir í Evrópu.
Í Skarðsárannál frá árinu 1586 er ein dagsetningin nefnd "Marteinsvaka" og kann að vísa til þess að gleðskapur hafi farið fram, sbr. Ólafsvaka í Færeyjum, sem kennd við Ólaf helga Haraldsson Noregskonung.

Marteins saga

Á íslensku hafa varðveist þrjú miðaldahandrit með Marteins sögu. Þótt kaflaskipting, atburðir og röð séu víðast eins er efnis- og orðalagsmunur nokkur. Sögurnar eru aðallega þýðingar og endursagnir á verkum Sulpiciusar, samtímamanns og kunningja heilags Marteins frá fjórðu og fimmtu öld.
Sögurnar voru prentaðar undir heildarnafninu "Martinus saga byskups" í Heilagra manna sögum í Kristianíu (Osló) 1877. Þær eru:

Frá fyrri hluta 13. aldar: S[aga] Martini episcopi ( AM 645, 4to).
Frá um 1400: Marteins saga (AM 235, fol.).
Frá fyrri hluta 15. aldar: Saga ens helga Martinus erkibyskups, (SKB, Perg. fol. nr. 2).
Auk þess er til óútgefið handritsbrot frá upphafi 14. aldar (AM 655, 4to, XXXI).
Marteinsminni

Heilagur Marteinn er verndardýrlingur þeirra sem framleiða og fara með vín. Algengasta tákn hans er bikar.

Eftir því sem Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson greina frá í Ferðabók sinni var alltaf byrjað á því að drekka minni heilags Marteins í stórveislum á Íslandi, ekki síst brúðkaupsveislum, allt fram á miðja 18. öld. Var talað um Marteinsminnið sem "gott upphaf".

Í Konungsbókhlöðu í Stokkhólmi er íslenskur handritshluti slíks Marteinsminnis og virðist með því eiga að hindra að allt fari úr böndum þótt áfengis sé neytt:

"- hans minni skyldi fyrst drukkið vera þar sem öl væri upp skenkt eða minni inn borin, þá skal hans minni fyrst inn syngjast í hverri samkundu. Þann blessaða biskup skulum vér þess biðja að hann hefti svo sviksamlegar snörur fjandans fyrir oss sem hann tafði tungu í þeim mönnum sem töluðu í móti hinum blessaða Ólafi kóngi Tryggvasyni þá er hann boðaði rétta trú af sjálfum Guði."

Marteinsminni þessu lýkur svo:

"Verum þess kátari sem kjallarinn er votari en þess blíðari sem meyjarnar eru fríðari. En til þess megið þér ætla að fleira fylgir Martinus minni en fagrir lofs söngvar, en gott upphaf hefur jafnan góðan enda. Verum málkátir og hæfilátir en víst eigi ofsakátir. Gleðji maður mann en Guð og sankti Martinus gleðji oss alla saman, sitjið í guðs friði."

Líkt Marteinsminni er til í handriti frá 1500-1550 með átta ræðum til að halda í brúðkaupsveislum. Þar segir:

"Vér skulum fara með sancte Martinus minni sem góður og gamall vani er til. Vér skulum taka með hornunum og tóna upp vísurnar hratt og ríflega, fljótt og fimlega, skjótt og sköruglega, vera málkátir og vísukátir, en víst eigi skræmukátir. Vér skulum fara með sancte Martinus minni sem vel siðaðir menn. Þeir, sem vasklega drekka, sæma minnið og syngja upp vísurnar, dvelja svo daginn að drekka af í einu með hjarta hreinu, hvelfa að sér hornunum, en halda uppi stiklunum, eyða svo ölinu að einskæla hornið. Bjóða eigi byrlurunum fyrr en tómt er.28 Verum þess kátari sem kjallarinn er votari og þess kerskari sem drykkurinn er ferskari og þess blíðari sem kvinnurnar eru fríðari. Gleðji maður mann, en Guð oss alla."

Marteinn Lúther

Minning heilags Marteins hélst víða sterk lengur en annarra dýrlinga eftir siðaskiptin því Marteinn Lúther hét eftir honum, enda fæddur 10. nóvember, en á þeim degi var Marteinsvakan.

Svo var oft látið heita að Marteinsminni væri drukkið til að heiðra klerka og kennimenn og þá tengt Marteini Lúther. Í handritum frá síðasta hluta 17. aldar segir: 

"Göfuglegt minni gefst oss nú til handa, það köllum vér Marteins minni, hver að var einn andlegur faðir fullrar trúar, loflegs lifnaðar og margra manndáða. Er hér innifalið að vér minnumst allra annarra andlegra feðra og og forstjóra fríðrar Guðs kristni, blíðra biskupa, klerka og kennimanna utan lands og innan um allan kristindóminn, einkum þess merkilega guðsmanns Doctoris Martini Lutheri, hvern Guð uppvakti af djúpum villudómsins svefni, að kveikja það klára guðspjalls ljós hvert að nú geislar í guðsbarna hjörtum" - " Höldum nú minnið með heiðarlegri skemmtan og ráðvandri röggsemd, sómir það öllum að syngja lofvers fyrir sæla Marteins minni, einkum klerkum og karlmönnum. Kvinnum og meyjum leyfist hvort þær vilja, en ég áminni alla þá sem ei vilja sjálfir syngja einhvern til þess annan fá ellegar vítin pyngja."

Í öðru Marteinsminni frá 17. öld segir m.a.:

"Guðs vinar minni kemur oss nú til handa, það köllum vér Martinus minni. Byrjar öllum það að meðtaka í þessu sinni, hann kallast meistari kennimanna, sökum margfaldra mildiverka og mætra eftirdæma traustrar trúar og loflegs lifnaðar, þar fyrir skulu menn þessa minning halda með skikkanlegri skemmtan og gleði góðmannlegri, ölvísum vænum og virðulegum drykkjupörum, höfum í þessu sinni, sem við öll önnur minni, er hér hafa menn drukkið inni."
Þjóðtrú, þjóðhættir og örnefni

Alkunn veðurvísa:

Á Marteinsmessu ef mundi loft
meður regni, eg segi,
veðradimmur verður oft
vetur frá þeim degi.

Rigning á Marteinsmessu 11. nóv. var samkvæmt þjóðtrúnni talin forspá um slæm veður veturinn sem fór í hönd en heiðríkja boðaði staðviðri.

Stundum var skammdegið skilgreint sem tíminn milli Marteinsmessu 11. nóv. og kyndilmessu 2. feb., sem spannar nálægt sex vikur á undan og sex vikur á eftir vetrarsólstöðum.

Marteinsmessudagurinn 11. nóvember var á Vesturlandi kallaður hrútamessa því um það leyti er skylt að færa hrúta frá ám til að forðast of brátt lambfang og einnig ráðlegt að taka þá á gjöf.

Mannsnafnið Marteinn kemur fyrst fyrir á Íslandi í lok 12. aldar þegar Marteinn Brandsson er nefndur í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar.
Í Biskupasögum segir frá því að Möðruvellingurinn Þorleifur Grímsson hafi tignað heilagan Martein og máltæki hans verið: "Guð og hinn mildi Martinus sé lofaður, hann gefur oss nógu gott."
 
Marteinstunga (Sóttartunga) er bær og kirkjustaður í Holtum á Suðurlandi.

Sjá nánar í riti Ólafs H. Torfasonar: Heilagur Marteinn frá Tours. Reykjavík 1995.

Heimildir:

Árna saga biskups. Sturlunga saga I. Svart á hvítu, Reykjavík 1988.
Árni Björnsson: "Minnaflutningur". Merkisdagar á mannsævinni. Bókaforlagið Saga, Reykjavík 1981.
Árni Björnsson: Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Biskupasögur II. Hið ísl. bók. félag, Kaupmannahöfn 1858.
Byskupa sögur II. Íslendingasagnaútgáfan - Haukadalsútgáfan, Reykjavík 1948.
Cormack, Margaret: The Saints in Iceland. Subsidia Hagiographica 78. Société des Bollandistes, Brussel 1994.
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson: Ferðabók. Örn og Örlygur hf., Reykjavík 1975.
Heilagra manna sögur. C.R. Unger. Kristjanía 1877.
Jón Helgason: Islandske bryllupstaler fra senmiddelalderen. Bibliotheca Arnamagnæana Vol. XX. Opuscula Vol. I. Kh. 1960.
Jón Helgason: Islandske bryllupstaler og forskrifter fra det 16. og 17. årh.  Bibliotheca Arnamagnæana XXIX. Opuscula Vol III. Kaupmannahöfn 1967.
Jónas Jónasson frá Hrafnagili: Íslenskir þjóðhættir. Reykjavík 1945.
Oddur Snorrason: Saga Ólafs Tryggvasonar. Útg. Finnur Jónsson, 1932.
Oddur Snorrason: Saga Ólafs konungs Tryggvasonar. Útg. P.Groth. Det Norske Historiske Kildeskriftefond, Christiania 1895.
Þorláks saga helga. Útg. Ásdís Egilsdóttir. Þorlákssjóður, Reykjavík 1989.


Tengt efni

Eldri tölublöð
© 2007 - 2012 Land og saga