Greinasafni: Skipulag
Þyrping

Þróunarfélag sem hefur styrkst og eflst á fimm árum

Þyrping, sem stofnað var 1. nóvember 2002, er framsækið þróunarfélag á sviði skipulagsmála og mannvirkjagerðar sem vinnur faglega að þróun og uppbyggingu einstakra svæða. Þyrping hefur tengst helstu nýsköpunarverkefnum á sviði skipulags- og byggingamála á undanförnum árum og hefur mikla sérþekkingu í þeim efnum. Hefur það opnað félaginu aðgang að færustu ráðgjöfum hér heima og erlendis og gerir félaginu kleift að bjóða fyrsta flokks íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Framkvæmdastjóri Þyrpingar er G. Oddur Víðisson, arkitekt og hóf hann störf hjá félaginu í mars 2004. Áður starfaði hann sem forstöðumaður hönnunar- og mannvirkjasviðs hjá Baugi, sem síðar varð Hagar:

G. Oddur Víðisson: ”Skugghverfið er vel
hálfnað og þar er mikill kraftur í sölu á íbúðum þessa stundina.”


 
”Þyrping er þróunarfélag sem hefur nokkra sérstöðu að því leytinu að við eigum ekki fasteignir heldur lifum á þróunarframlegð sem felur í sér að auka verðmæti svæða,  þróa svæði, byggja og selja. Við erum ekki langtímafjárfestar, heldur skammtíma fjárfestar og tökum áhættu.
 Félagið var stofnað fyrir fimm árum síðan og full starfsemi hefur verið frá 2004, en þá var fyrsti starfsmaðurinn ráðinn. Í dag eru ellefu starfsmenn. Lengi vel vorum við í húsnæði með Stoðum, eða þar til í desember í fyrra að við fluttum í eigið húsnæði í Hátúni.”

Þrjú stór verkefni
”Það sem hefur einkennt rekstur Þyrpingar hingað til eru þrjú stór verkefni, sem eru Skuggahverfið og Borgartún 26 þar sem við höfum byggt, og Akraland í Garðabæ, þar sem við byggjum ekki heldur skipuleggjum og seljum lóðir, einbýlishús sunnan megin í landinu og fjölbýlishúsasvæði norðan megin. Þessi þrjú verkefni sýna vel starfsemi Þyrpingar í hnotskurn, Skuggahverfið er íbúðabyggð, Borgartúnið atvinnuhúsnæði og Akraland er þróunar og skipulagsverkefni á 24 hektara landi. Lengst erum við komnir með Borgartúnið sem er komið í fulla notkun og við reiknum með að selja húsið allt frá okkur snemma á næsta ári. Skugghverfið er vel hálfnað og þar er mikill kraftur í sölu á íbúðum þessa stundina. Við lentum í tjóni eins og sjá má utan á byggingunum þar sem flísar vantar og er það mál fyrir dómstólum, en lagfæringar munu fara fram áður en niðurstaða í dómsmálinu liggur fyrir.”

Verkefni í farveginum
 Önnur stór verkefni eru í farveginum hjá Þyrpingu: ”Við festum kaup á tiltölulega stóru landsvæði á Seltjarnarnesi við Bygggarða, r, sem eru vestast á Seltjatnarnesi, þar erum við að vinna í skipulaginu sem verður fljótlega lagt fyrir nefnd til ákvörðunar. Á svæðinu eru verksmiðjur og verkstæði sem verða látin fara og erum við búnir að kaupa stóran hluta af þeim. Þarna er áætluð blönduð íbúðabyggð, ekki hærra en tvær til fjórar hæðir.
 Einn hluti af starfseminnar er að þjóna verslunum og þar er okkar helsti viðskiptavinur Hagar. Við erum að skoða tækifæri til að auka við verslanir þeirra, meðal annars að skoða svæði á Seltjarnarnesi og í vesturhluta Reykjavíkur. Við höfum sótt um landfyllingu í Örfirsey, allt að 20 hektur fyrir íbúðabyggð og sendum beiðni til hafnarstjórnar í fyrra. Þar erum við með 4500 manna byggð í huga. Þetta er stórt verkefni sem er í vinnslu.”
 Málefni aldraðra og alþjóðaflugvöllur eru tvö stór mál sem Þyrping hefur haft afskipti af: ”Hvað varðar íbúðir fyrir aldraða þá höfum við verið að skoða hvort það væri tækifæri fyrir einkaaðila að komast inn á þann markað. Fórum af stað með verkefni sem hafði það að leiðarljósi að bjóða einstaklingum, sem komnir eru á efri árin þjónustu sem miðar að öflugu forvarnarstarfi í formi hjálpar til sjálfshjálpar.?Við lögðum mikið í þetta verkefni, en í ljós kom að möguleikarnir eru litlir eins og er vegna lagaumhverfisins, en samkvæmt lögum verða sjálfseignarstofnanir sem reka slík húsnæði. Við teljum okkur samt hafa haft áhrif á þessi mál og enduðum verkefnið með stórri ráðstefnu í mars sem bar yfirskriftina: Njótum lífsins á efri árum. Heppnaðist ráðstefna mjög vel. Hvað varðar framhaldið þá er það í höndum stjórnvalda og sveitarfélaga.
Við höfum verið að skoða ýmis mál önnur eins og hvort arðvænlegt sé að byggja annan alþjóðaflugvöll sem yrði í samkeppni við Keflavíkurflugvöll, hvort virkilega eigi að byggja Landspítala Háskólasjúkrahús á þeim stað sem áætlað er eða hvort staldra eigi við og skoða málið upp á nýtt útfrá breyttum forsendum. Það er mikið verðmæti í lóðum og landsvæðum sem væri hægt að nýta með öðrum hætti. Þá höfum við einnig verið með þróunarverkefni á Akureyri og Álftanesi sem eru mjög spennandi.”

Borgartún 26
Borgartún 26 er glæsilegt skrifstofu- og þjónustuhúsnæði. Húsið stendur á miklum útsýnisstað og?er um 12.000 m² að stærð. Það skiptist í tvo misháa hluta, 5 hæðir austan megin og 8 hæðir vestan megin. Húsið er sérhannað útfrá þörfum framsækinna fyrirtækja og staðsett í hjarta helsta fjármálahverfis Reykjavíkur. Skrifstofurnar eru rúmgóðar, í hágæðaflokki og með frábæru útsýni. Húsið hefur allt verið leigt út til öflugra fyrirtækja.


101 Skuggahverfi
 
Í Skuggahverfinu eru að rísa glæsilegar íbúðabyggingar sem setja svip sinn á miðborg Reykjavíkur. Staðsetning, hönnun húsanna og einstakt útsýni hefur gert það að verkum að Skuggahverfið er í dag ein eftirsóttasta íbúðabyggð landsins. Byggingarsvæðið afmarkast af Skúlagötu, Frakkastíg, Lindargötu og Vatnsstíg. Hæsta byggingin er við Vatnsstíg og verður hún 19 hæðir og er hún í 2. áfanganum. Áætlað er að íbúar verði um 800. Við hönnun Skuggahverfisins var lögð áhersla á að nýta sem best kosti staðsetningar og umhverfis. Samspil birtu, gróðurs og glæsilegra bygginga einkennir svæðið. Skuggahverfið byggist í þremur áföngum. Þegar er lokið við 1. áfangann og allar íbúðirnar seldust á skömmum tíma. 2. áfanginn er nú í byggingu og eru íbúðirnar í sölu um þessar mundir og hefur sala gengið vel. Þegar lokið verður að byggja 2. áfangann verður strax farið í 3. áfanga.

Öflugt félag
Í dag er Þyrping öflugt félag og hafa áætlanir staðist. ”Við höfum að sjálfsögu eins og aðrir notið uppsveiflunnar í þjóðfélaginu og loksins eru lóðir farnar að koma með verðmæti sem ekki var áður, höfðu í raun engin verðmæti. Hvað varðar framtíðina og umræður um niðursveiflu þá er ég þeirrar skoðunar hvað varðar byggingarbransann að í lagi sé að það hægist aðeins á honum, en ef þú ert með í höndunum góða staðsetningu og skipuleggur rétt hvað varðar mannvirki þá ertu alltaf með góða söluvöru.”

Nesgarðar Seltjarnarnesi 
Á ysta hluta Seltjarnarness er fallegt og hrífandi svæði með gömlu atvinnu- og iðnaðarhúsnæði.  Staðsetningin er einstök, hvort heldur litið er til næsta umhverfis á Seltjarnarnesi eða stöðu innan höfuðborgarsvæðisins.  Skipulagssvæðið – Nesgarðar - er í jaðri íbúðabyggðarinnar við Bygggarða á norðanverðu Seltjarnarnesi.  Í austri afmarkast það af Sefgörðum, til suðurs og vesturs af opnu svæði milli Nesstofu og Ráðagerðis og til norðurs af Norðurströnd. Nesgarðar liggja í jaðri opinna útivistarsvæða við Gróttu og Suðurnes.  Fjölbreytt fuglalíf á tjörnum, gamlir matjurtagarðar, ósnortin fjara og einstakt útsýni með Snæfellsjökul í öndvegi undirstrika sérstöðu svæðisins.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga