Greinasafni: Skipulag
Hafnarfjörður

HRÖÐ UPPBYGGING Í HAFNARFIRÐI

Á síðastliðnum 20 árum hefur íbúafjöldi Hafnarfjarðar nærri tvöfaldast. Uppbygging í bænum er hröð, bæði hvað varðar íbúðarhúsnæði og iðnað, en allt að 800  íbúðir eru að jafnaði byggðar þar árlega.  Dr. Bjarki Jóhannesson, sviðstjóri hjá skipulags- og byggingarsviði Hafnarfjarðar, segir hér nánar frá þróuninni.

Séð yfir Vellina Fullbyggð eiga svæðin sunnan Reykjanesbrautar, Vellir, Ásland og Hamranes, að rúma um 18 þúsund íbúa.

„Sala á nýjum íbúðum hefur gengið vel og það er einnig mikil eftirspurn eftir einbýlishúsalóðum. Nýjasta íbúðahverfi bæjarins er á Völlunum, sem er blandað hverfi sem hefur verið í byggingu síðan 2002, “ segir Bjarki og bendir á að samkvæmt aðalskipulagi sem samþykkt var í fyrra er bærinn vel undirbúinn fyrir enn meiri fjölgun.
 Íbúar vallarhverfisins eru nú nærri 5000 talsins en fullbyggð eiga svæðin sunnan Reykjanesbrautar, Vellir, Ásland og Hamranes,  að rúma um 18 þúsund íbúa. Alls eru byggingaráfangar svæðanna 14 talsins og munu þeir byggjast upp hver á fætur öðrum í takt við þörf og ásókn. „Núna er verið að skipuleggja sjöunda áfanga Vallahverfisins og verða lóðir þar auglýstar fljótlega,“ segir Bjarki. Þar er m.a. gert ráð fyrir 100 manna hjúkrunarheimili og leikskóla en einnig verður boðið upp á öðruvísi útgáfu af fjölbýlishúsum en hingað til hefur þekkst í Hafnarfirði. Fjölbýlishúsin verða byggð í kringum græn svæði,  svokallaða innigarða sem er lyft upp um hálfa hæð frá götu en undir húsunum verður bílakjallari. Með þessu móti næst bæði mikið skjól og gott leiksvæði fyrir börn. Verið er að skipuleggja fyrsta áfanga Hamraneshverfis í beinum tenglsum við það. Forsenda stækkunar á hverfinu er þó sú að háspennulínur sem liggja þvert yfir hverfið í átt til Straumsvíkur verði grafnar í jörð en samningaviðræður við Landsnet um framkvæmd verksins standa yfir.
Við íþróttahús Hauka á Völlunum er einnig heilmikil uppbygging í gangi  en þar er að rísa  verslunar og þjónustuhverfi.

Öðruvísi fjölbýlishús Í nýjasta áfanga Vallarsvæðisins verður boðið upp á fjölbýlishús með innigörðum sem er lyft upp um hálfa hæð frá götu. 

Íbúabyggð í miðbænum
Miðbær Hafnarfjarðar, sem er annar að tveimur gömlum miðbæjum á höfuðborgarsvæðinu, er einnig í þróun.  Á Norðubakkanum, sem er fyrrverandi hafnarsvæði, er bygging íbúða- og verslunarhúsnæðis langt komin en einnig stendur til að byggja íbúðarhúsnæði við Strandgötuna sem og á fleiri reitum í tengslum við miðbæinn.
„Yfirleitt skapast mikil umræða um framkvæmdir í gamla bænum og íbúar hafa miklar skoðanir á því sem gert er á því svæði,“ segir Bjarki og bendir á að sérstaða Hafnarfjarðar felist að miklu leyti í þessum gamla kjarna, sem á sér bæði sérstæða sögu og landslag, og hann vilja bæjaryfirvöld varðveita. Hann heldur áfram; „Á gamla Slippsvæðinu erum við að skoða þann möguleika að Slippurinn fari og í staðinn komi blönduð byggð með íbúðum og verslunar-,  þjónustu- og afþreyingarstarfsemi. Menn sjá jafnvel fyrir sér  tónleikasal með útsýni út á sjó en þessar hugmyndir eru allar stutt á veg komnar.“
Á hafnarsvæðinu hefur ákveðinn aðili keypt upp nokkuð mikið magn af eignum og hefur áhuga á því að byggja þar íbúðarhús, en enn er ekki ljóst hvort þau áform ganga upp þar sem svæðið er í dag skilgreint sem hafnarsvæði. Þar er íbúðarbyggð ekki leyfð, þó svo eitthvað hafi verið um ólöglega búsetu á svæðinu, en nokkrir hlutar svæðisins þarfnast endurnýjunar við.  Íbúðarbyggð er hins vegar að rísa þar stutt frá í svokölluðu Lónshverfi þar sem áður stóðu olíutankar. Í heildina eru því  800 íbúðir í byggingu í miðbænum, á Norðurbakkanum og í Lónshverfinu.

Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005 – 2025 Lesa má nánar um skipulagsmál Hafnarfjarðar á heimasíðunni www.hafnarfjordur.is 
 
Ásókn í iðnaðarhverfin
Vöxtur hefur þó ekki eingöngu verið í íbúðabyggð því mikil ásókn hefur líka verið í lóðir í iðnaðarhverfum Hafnarfjarðar. Syðst í bænum hefur verið að mótast mjög stórt atvinnusvæði og er það í dag stærsta samfellda iðnaðarsvæði höfuðborgarsvæðissins.
„Við skiptum iðnaðarsvæðinu við Selhraun, Hellnahraun og Kapelluhraun í þrennt. Fyrsti áfangi hverfissins er ætlaður fyrir skrifstofur, þjónustu og mjög léttan iðnað, svo kemur svæði með venjulegum iðnaði og þriðji hluti hverfissins er fyrir þyngri iðnað sem getur haft einhverja mengun í för með sér, en það svæði er staðsett á móti Álverinu.“  Akstursíþróttasvæði, með rallýkrossbraut, ökuhermi fyrir ökukennslu og æfingarsvæði fyrir skotsveiðimenn,  brýtur síðan iðnaðarbreiðuna upp og gefur hverfinu aukinn fjölbreytileika.
Í eldri iðnaðarhverfunum við Reykjavíkurveginn hefur verið töluverð uppbygging og endurnýjun. Nýlega reis þar hótel sem og  stór bogadregin glerbygging, sem hýsir skrifstofur og verslunanir. Telur Bjarki að á þessu svæði verði hægfara endurnýjun næstu árin.

Blómlegur bær Hafnarfjörður stendur í blóma og þar er mikil uppbygging að sögn Bjarka Jóhannesonar hjá skipulags- og byggingarsviði bæjarins. Ný hverfi spretta upp en eldri hverfi eru einnig í þróun. (mynd Ingó) 

Fornleifaskráning mikilvæg
Talið berst að stærsta iðnaðarfyrirtæki bæjarins,  Álverinu í Straumsvík, og fyrirhugaðri stækkun þess. „Stækkun álversins  var hafnað og málið  er í biðstöðu. Fyrirtækið keypti land fyrir sunnan álverið,  en hvað þeir gera við  þá lóð ef ekkert verður af stækkun álversins er óljóst,“ segir Bjarki og ítrekar að engar áætlanir um stækkun séu komnar inn á borð hjá þeim.
Fyrir vestan álverið í Straumsvík segir Bjarki að hugmyndir séu uppi um nýtt hafnarsvæði en á miðöldum var þar mikil verslunarhöfn.  Málið er hinsvegar viðkvæmt þar sem mikið af náttúruminjum er á svæðinu.
„Við leggjum mikið upp úr því að umgangast fornleifar og náttúruminjar vel og er Hafnarfjörður mjög framarlega á því sviði. Forsenda alls skipulags er sú að fornleifar séu skráðar og bærinn er því með fornleifafræðing í fullu starfi við skrásetningu á slíkum minjum,“ segir Bjarki, sem veit ekki til þess að fordæmi fyrir slíku  sé hjá nágrannasveitarfélögunum.
Eitt er ljóst að mikið er að gerast í skipulags- og byggingarmálum í bæjarfélaginu og margar hugmyndir á teikniborðinu. Áhugasamir geta kynnst sér málin nánar á heimasíðunni www.hafnarfjordur.is  en þar eru bæði teikningar af aðalskipulagi og deiliskipulagi bæjarins að finna.

Þetta er efst á baugi í  skipulags- og byggingarmálum Hafnarfjarðar:
- Í miðbænum
Hátt í 800 íbúðir eru  í byggingu í Lónshverfi og við Norðurbakka. Við Strandgötu er áætlað að íbúðarhúsa rísi og einnig á fleiri reitum tengdum miðbænum. Hugmyndir eru uppi um blandaða byggð á Slippsvæðinu og endurnýjun á hafnarsvæðinu.

- Í Vallarhverfi:
 Lóðir í 7. áfanga vallarhverfis verða fljótlega auglýstar til sölu, og næsta hverfi, 1. áfangi Hamraneshverfis er á teikniborðinu.

- Iðnaðarhverfi:
Við Hellnahraun og Kapelluhraun er þrískipt iðnaðarhverfi í uppbyggingu. Fyrirtækjum er útdeilt lóðum eftir starfsemi. Þannig er þungaiðnaður á sérsvæði, venjulegur iðnaður annarsstaðar og léttari iðnaður er hafður saman.  Akstursíþróttasvæði brýtur iðnarsvæðið upp.

- Nýtt hafnarsvæði:
hugmyndir eru í skoðun um nýtt hafnarsvæði vestan við Álverið í Straumsvík. 

- Gatnagerð:
 Til stendur að færa Reykjanesbrautina við Straumsvík sunnar og verður það líklega gert hvort sem af stækkun Álversins verður eða ekki. Nýbúið er að endurbyggja Krísuvíkurveginn og tengja hann við Reykjanessbrautina. Vegur er fyrirhugaður fyrir ofan Vallarhverfið sem létta mun á  umferð um Reykjanesbrautina

- Krýsuvík:
Umræða er í gangi um það hvort Hitaveita Suðurnesja fái að bora þar tilraunaholur og hvort  ferðaþjónusta verði byggð upp á svæðinu.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga