Greinasafni: Sveitarfélög
Ferðaþjónusta í Sveitarfélaginu Hornafirði
Ríki Vatnajökuls að sumri til
Sveitarfélagið Hornafjörður hefur að geyma einstakar nátturperlur sem og fjöldan allan af afþreyingu fyrir  fjölskylduna. Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Höfn segir svæðið bjóða upp á mikinn fjölbreytileika. „Sveitarfélagið teygir sig yfir 200 km á þjóðvegi 1, það nær frá Skeiðarársandi að Hvalnesi, og hefur upp á virkilega margt að bjóða fyrir ferðafólk af öllum toga. Hérna eru víða góð tjaldsvæði, eins og í Skaftefelli, Svínafelli og á Höfn. Í Skaftafelli eru frábærir útivistarmöguleikar og eru óteljandi gönguleiðir um þetta fallega svæði. Þá er bæði hægt að fá leiðsögn í göngur sem hæfa vanari sem og óvönum göngugörpum bæði upp á jöklana og á láglendinu í kring.“  Með tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs hefur útivistarmöguleikum fjölgað enn frekar en ný svæði voru tekinn inn í þjóðgarðinn við Heinaberg og Hoffell. Þá nefndi Hjalti að gönguferð á nýlögðum göngustíg innan Hafnar, meðfram strandlengjunni, væri vinsæl bæði meðal ferðamanna og íbúa.

Tilkomumiklir jöklar
Að komast í nánd við Vatnajökul og jöklana í kring er einstök upplifun, en boðið er uppá ýmis tækifæri í Sveitarfélaginu Hornafirði til að kynnast þeim á marga vegu. „Við höfum þá sérstöðu á þessum hluta landsins að hafa gríðarlega gott aðgengi að jöklum, ásamt því að hafa mjög fjölbreytt fjalllendi,“ segir Hjalti. „ Við gerum mikið upp úr því að fólk geti nálgast jöklana á sem fjölbreyttastan hátt.“ Þannig má nefna að á Höfn hefur verið sett upp Jöklasýning, þar sem farið er yfir sögu jöklanna í kring bæði með myndum, sögum og munum sem sýna til dæmis afrek og óhöpp sem hafa átt sér stað á jöklunum. „Háskólasetrið hefur einnig útbúið kort yfir áhugaverða staði út frá jarðfræðilegu sjónarhorni, sem er áhugvert fyrir þá sem vilja skoða þróun jöklanna. Það er alltaf einhver breyting á jöklunum sem á sér stað; hopun, framskrið og jafnvel eldgos, eins og við vorum að upplifa, en allt þetta veldur sífelldum breytingum á jarðveginum í kring,“ útskýrir Hjalti. „Svo má nefna ógleymanlegar jöklaferðir þar sem farið er með fólk upp á Skálafellsjökul, annað hvort á jeppum eða snjósleðum. Þetta eru algjörar draumaferðir því það er auðvitað alveg einstök upplifun í sjálfu sér að standa uppi á jöklinum.“ Síðan er auðvitað hægt að fara í siglingu á Jökulsárlóninu, þar sem siglt er með fólk á milli tillkomumikilla ísjakanna. „Á Jökulsárlóninu er svo flugeldasýningin orðin árlegur viðburður í ágúst, þá er kertum komið fyrir á ísjökunum í lóninu. Umhverfið hefur svo mikil áhrif og glæsilegt að sjá samspil jakanna og vatnsins og flugeldanna. Sýningin hefur verið í nokkur ár og væri nú bara gaman að geta gert meira úr þessu, það er aldrei að vita hvað komandi ár hafa í för með sér,“ segir Hjalti.

Fjölbreytt  fjölskylduafþreying
Suðaustur hornið hefur einnig upp á margt annað að bjóða fyrir fjölskylduna. Hjalti segir fyrirtæki og einstaklinga í greininni hafa sameinast um að byggja upp fjölbreytta afþreyingu fyrir ferðamenn. „Við höfum á síðustu árum lagt mjög mikla áherslu á uppbyggingu ferðaþjónustunnar, sem ég tel að hafi heppnast mjög vel. Það er búið að fjárfesta mikið og við leggjum mikið upp úr því að fólki líði vel hjá okkur og að það sé nóg að velja úr fyrir alla aldurshópa. Fróðlegt er að koma á Þórbergssetur á Hala þar sem hægt er að sjá fjölbreytta sýningu er tengist ævi og verkum Þórbergs og sögu þjóðarinnar á ýmsum æviskeiðum skáldsins. Hérna er ýmislegt fyrir yngri kynslóðina, til dæmis húsdýragarður í Hólmi á Mýrum, hestaferðir frá Árnanesi, fjórhjólaferðir frá Hoffelli og skoðunarferðir í Ingólfshöfða og frábær sundlaug, sem er glæný,“ segir Hjalti. Þegar nýja sundlaugin var opnuð fékk eldri sundlaugin nýtt hlutverk.  Það voru hjón á Höfn sem keyptu húsnæðið og breyttu í steinasafn en þau hafa í gegnum tíðina safnað gríðarlegu magni af steinum og fleiri náttúrumunum.

Hráefni úr héraði
Enginn skortur er af veitingastöðum í sveitarfélaginu og flestir þeirra notast eingöngu við hráefni úr héraðinu. „Þetta svæði er auðvitað þekktast fyrir fiskinn, en fiskvinnslan og útgerðin eru mjög fjölbreytt. Humarinn hefur lengi verið einkenni Hafnar, en það er langt í frá það eina sem við höfum upp á að bjóða. Við erum einnig með þorsk, ýsu og fleira fiskmeti. Í sveitunum fullvinna margir afurðir, eins og svínakjöt og nautakjöt auk þess sem grænmetisrækt er mikil í héraðinu. Í Árbæ er seldur heimagerður ís.  Allar þessar afurðir er svo hægt að kaupa í heimamarkaðsbúðinni í Pakkhúsinu á Höfn ,“ segir Hjalti.

Sveitarfélag Hornafjarðar

Hafnarbraut 27 • 780 Höfn
470 8018
asta@hornafjordur.is
www.hornafjordur.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga