Frumkvöðlar og fiðurfé
Fuglarækt í Mosfellsbæ 
Reykjabúið hf. er gamalgróið fjölskyldufyrirtæki staðsett að Reykjum í Mosfellsbæ. Búið er rekið af hjónunum Jóni Magnúsi Jónssyni og Kristínu Sverrisdóttur sem bæði eru búfræðingar. Hjónin eiga fjögur börn og búa og starfa að Reykjum en fyrirtækið hefur verið í fjölskyldu Jóns í áratugi. Jón ólst upp á bænum og hefur aldrei unnið við annað en búskapinn en faðir hans, Jón M. Guðmundsson, hóf fyrstur manna kjúklingaframleiðslu á Íslandi árið 1961 með innflutningi á eggjum af holdastofni.

Fyrstu kalkúnarnir komu að Reykjum í kringum árið 1947, en regluleg kalkúnakjötsframleiðsla hófst árið 1965 með innflutningi á kalkúnaeggjum frá Noregi. Kalkúnar voru ekki algengur matur á þessum árum og reyndar áttu eftir að líða allmörg ár þar til þessi ameríski hátíðarmatur gerði sig almennilega heimakominn í íslenskum eldhúsum. Í dag er Reykjabúið eini kalkúnaframleiðandinn á Íslandi.

Mikið kynningarstarf
Reykjabúið hefur lagt mikið upp úr því að kynna kalkúninn og matreiðslu hans í gegnum árin. Hér áður fyrr voru kynningar í matvöruverslunum á elduðum kalkúni þar sem fólk fékk að smakka og ráðleggingar um eldamennsku og uppskriftir. Hjónin segja að þetta hafi verið mikil vinna ekki síst þar sem fólk hafi í fyrstu verið hálfóöruggt við matreiðslu fuglsins.

Kristín segist ósjaldan hafa fengið upphringingar frá fólki að biðja um ráð við eldamennskuna og í kringum hátíðir hafi hún stundum haldið úti hálfgerðri neyðarlínu!  Nú eru breyttir tímar, fólk kann þetta og svo er hægt að fara inn á heimasíðuna kalkunn.is þar sem bæði er að finna fróðleik og uppskriftir. Jón og Kristín segja vinsældir kalkúnsins vaxandi. Eftirspurnin er mest í kringum hátíðir en eftirspurn eftir kalkúnakjöti í annan tíma er alltaf að aukast. Kalkúnakjötið er afar hollt og fer eintaklega vel í maga auk þess að vera bæði magurt og innhalda aðeins hærra próteinmagn en annað kjöt.

Beint frá Bónda
Á Reykjum reka hjónin litla heimasölu. Þau segjast ekki síst hafa farið út í heimasöluna því fólk hafi mikið hringt og beðið þau um að útvega ákveðnar vörur. Sjálfum líkar þeim vel að vera í nánum tengslum við kúnnann og geta brugðist við eftirspurn beint og milliliðalaust.

Það er ákveðið öryggi í svona verslun þar sem fólk veit nákvæmlega hvaðan varan kemur og hvað það er að kaupa. Í heimasölunni selja þau bæði heila kalkúna og kjúkling sem og unnar vörur en leggja líka ríka áherslu á hreinar vörur sem ekki hafa í sér neina íblöndun, t.d. kalkúnahakk, borgara ofl. Heimasalan verður opin eftir Verslunarmannahelgi alla fimmtudaga og föstudaga á milli  16 og 18.30.

Reykjabúið hf

Suðurreykjum 1 • 270 Mosfellsbæ
566 7150
reykjabuid@kalkunn.is
www.kalkunn.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga