Greinasafni: Söfn
Sænautasel
Í anda liðins tíma
Sænautasel er endurbyggður bær á Jökuldalsheiði. Var ráðist í það verk að tilstuðlan Jökuldalshrepps. Nú er þar starfsemi á sumrin og er ýmislegt í boði fyrir gesti. Heiðarbýlið Sænautasel var byggt árið 1843. Bæjar- og gripahús voru byggð úr torfi og grjóti og var timbur flutt á hestum frá Vopnafirði en um var að ræða um 18 tíma lestaferð. Búið var á staðnum í 100 ár að undanskildum 5 árum er aska frá Dyngjufjöllum lagði alla bæi í heiðinni í eyði.  Jökuldalshreppur endurbyggði bæinn árið 1992 og var meðal annars notað torf og grjót úr bæjarrústunum við endurbygginguna. 

Gestir upplifa þar dimmar vistarverur þar sem sums staðar er lágt til lofts. Á meðal vistarvera er hlóðareldhús, baðstofa og búr. Gestir geta lesið sér til um sögu hússins og skoðað gamla muni frá þeim tíma þegar búið var á staðnum. Lífshættir og lífskjör fólks voru frábrugðin því sem nú tíðkast og má taka sem dæmi að á þessum tíma fékk fólk til að mynda sykur og hveiti í skiptum fyrir afurðir skepnanna.  Sýning er í bænum eins og hann leggur sig en kaffihús er í endurbyggðu fjárhúsinu og getur fólk fengið sér þar kaffi og kakó og gætt sér á nýbökuðum lummum. Ef pantað er með dags fyrirvara getur fólk fengið hádegismat. „Starfsmenn vinna við ýmislegt í húsinu eins og tíðkaðist áður fyrr eins og að mjólka, skilja, strokka, og búa til skyr. Fólk sér hvernig þetta raunverulega var,“ segir Lilja Óladóttir kotbóndi. Þess má geta að ekkert rafmagn er í bænum.

Ýmis dýr eru á bænum og má þar nefna hunda, ketti, kýr og hesta og finnst mörgum gestum gaman að skoða þau; svo ekki sé minnst á afkvæmi þeirra. Sænautavatn er í næsta nágrenni við bæinn og er þar ágætis silungsveiði. Tjaldstæði er líka í nágrenni við bæinn og þykir mörgum gaman að sigla á vatninu á hjólabátum. 

Sænautasel ehf

Merki • 701 Egilsstöðum
471 1086
jokulsa@centrum.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga