Greinasafni: Afþreying
Sumarbúðir Ævintýralands
Valfrelsi og mikið fjör!
Fjórtánda starfsár Sumarbúðanna Ævintýralands, Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði, er hafið. Við spurðum Svanhildi Sif Haraldsdóttur, stofnanda sumarbúðanna, út í starfsemina.
Svanhildur Sif var ekki há í loftinu þegar draumurinn um að setja á stofn sumarbúðir kviknaði. Hún hafði sjálf farið í sumarbúðir og fannst þá strax vanta á valið.

„Börn eru fólk og fólk er ólíkt, það sama hentar ekki öllum,“ segir Svanhildur. „Þetta var grunnstefið við stofnun Ævintýralands. Þetta hefur farið vel í börnin sem geta t.d. valið um að fara í sundlaug, íþróttahús, gönguferð, dagbókargerð eða kertagerð, svo eitthvað sé nefnt, og farið milli svæða að vild. Svona val er í boði alla dagana fyrir hádegi og svo aftur eftir kaffi. Eftir hádegi fara börnin á námskeiðin sem standa fram að kaffi. Á kvöldin eru leikir og kvöldvökur, m.a. karaókí, draugaleikrit og fleira skemmtilegt og svo er sögð kvöldsaga fyrir svefninn fyrir þau börn sem vilja.“  Námskeiðin sem Svanhildur talar um eru m.a. í kvikmyndagerð, íþróttum, leiklist, myndlist, grímugerð og dansi. „Við höfum skapað okkur mikla sérstöðu með námskeiðunum okkar sem passa vel inn í hugmyndafræðina á bak við valfrelsið. Fyrsta daginn velja börnin á hvaða námskeiði þau ætla að vera á í tvo tíma á dag. Síðan sýna þau afraksturinn á lokakvöldvökunni og það er einstaklega gaman að sjá hvað börnin eru skapandi og hugmyndarík, þau eru öll stjörnur kvöldsins,“ segir Svanhildur og brosir.

Mikið öryggi
„Börnin eru í aldursskiptum, frekar litlum hópum sem hver hefur sinn umsjónarmann og það finnst mér mikilvægt upp á öryggistilfinninguna. Þótt þau geti alltaf leitað til allra starfsmanna þá er gott að hafa einhvern einn sem er nokkurs konars ígildi foreldris, vekur þau á morgnana, borðar morgunverðinn með þeim, segir þeim kvöldsögu fyrir svefninn og slíkt. Einnig erum við með næturvörð sem börnin geta leitað til ef þau vakna eða gengur illa að sofna. Börnin hafa þetta mikla val og finnst þau frjáls, átta sig líklega ekki á því hversu gæslan er mikil en þau eru aldrei eftirlitslaus og aldrei í umsjá unglinga. Einn fullorðinn starfsmaður er reiknaður á hver fimm börn.  Við þökkum góðu, tryggu, vel völdu og vönduðu starfsfólki m.a. hvað starfsemin hefur verið einstaklega farsæl öll árin.“

Trú á sig og eigin getu
„Við erum með einfalt og gott agakerfi sem virkar. Við finnum það þegar t.d. börn með hegðunarröskun koma til okkar, þau falla vel inn í hópinn og njóta sín til fulls eins og hin,“ segir Svanhildur. „Ég hef séð börn sem hafa lent í einelti blómstra og breytast í sumarbúðunum, þau eru vinsæl í hópnum sínum, laus við það/þann sem þjakaði þau, og koma upplitsdjarfari heim sem skilar sér örugglega vel inn í framtíðina. Við tölum líka mikið við börnin, það eru daglegir hádegisfundir hjá hverjum hópi með umsjónarmanni sínum og þar er talað um einelti, mikilvægi þess að hafa trú á sér og eigin getu og að standa með sér og margt fleira. Þótt mikið sé um leiki og skemmtun þá eru þessi mál mikið rædd og krufin. Allir hafa eitthvað til málanna að leggja.“

Áhrifamikið leikrit

„Undanfarin ár höfum við sýnt leikrit um einelti og hvernig hægt er að grípa inn í í stað þess að vera hlutlaus áhorfandi. Við komum einnig inn á mikilvægi þess að segja frá óþægilegum leyndarmálum og að maður eigi ekki að eiga neitt leyndarmál sem er óþægilegt og láti manni líða illa. Það er líka komið inn á hættur, freistingar og fleira í þessu leikriti sem starfsfólkið sýnir. Leikritið breytist ár frá ári en sami mikilvægi grunnurinn er alltaf til staðar og ekki síst er varað við hættum sem fylgja Facebook, MSN og fleiru. Það er hægt að koma skilaboðum til barnanna á þann hátt sem þau skilja.

Sumarbúðir Ævintýralands

Kleppjárnsreykjum • Borgarbyggð
551 9160
sumarbudir@sumarbudir.is
www.sumarbudir.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga