Greinasafni: Ferðaþjónusta
Kaldrananeshreppur
Milli vestfirskra fjalla en steinsnar frá bænum
Eitt minnsta sveitarfélag landsins, Kaldrananeshreppur, býr yfir fjölbreyttum möguleikum fyrir ferðamenn. Hvort sem maður kýs sögulegar minjar, slökun í heita pottinum eða að skoða náttúru og dýralíf, má finna það þar. Margir telja eflaust að til staða á Vestfjörðum sé afar langur akstur frá höfuðborgarsvæðinu en raunin er sú að aðeins tekur þrjá klukkutíma að aka að þessum heillandi stað.  Það má með sanni segja að svæðið hafi upp á margt að bjóða; á góðum degi getur maður séð hval beint undan ströndinni, fornleifauppgröft frá því að Baskar ráku þar hvalastöð á 17. öldinni og heita potta við ströndina en mikinn hita er að finna í Kaldrananeshreppi. Svo ekki sé minnst á hið góða samfélag innan um vestfirska firði og fjöll.

„Ferðaþjónustan hefur verið að vaxa og dafna hér á Kaldrananesi þar sem svæðið býður upp á marga möguleika og er að auki ansi úrkomulítið og sumrin hér björt,“ segir Jenný Jensdóttir oddviti hreppsins. „Margir möguleikar eru í boði fyrir ferðamenn varðandi hafið, hér er hægt að fara í siglingar, hvalaskoðun, sjóstöng sem og ferðir til Grímseyjar í Steingrímsfirði þar sem miklar lundabyggðir eru.“
„Auk þess er hér að finna góða gistimöguleika bæði í Drangsnesi og lengra inni í Bjarnarfirði. Svo má þess geta að við erum með tvær sundlaugar í hreppnum, á þessum tveimur stöðum og er sú í Bjarnarfirði byggð 1947 og nálægt því að vera náttúrulaug þar sem hiti er í Bjarnarfirði. Sú í Drangsnesi er nýleg og minni og er verulega notaleg,“ segir Jenný. Hitinn á svæðinu er notaður á skemmtilegan hátt. Tveimur heitum pottum hefur verið komið fyrir á strandlínunni og eru þeir opnir öllum sem eiga leið hjá. „Heitt vatn fannst í Drangsnesi árið 1996 og var þá maður á svæðinu sem gaf krökkunum fiskikör til að busla í við ströndina. Brimið, sem er kröftugt hér við strendur tók körin einn veturinn út á haf með sér en þá ákáðum við að koma fyrir almennilegum pottum á ströndinni,“ segir Jenný.

Í Hveravík má finna fornleifauppgröft þar sem grafin er upp hvalastöð frá 17. öld Talið er að Baskar hafi rekið útgerðina og að hún hafi verið stóriðja þess tíma. „Fundist hafa minjar brennsluofns og múrsteinsgólfs sem eru taldar elstu minjar múrsteins á Íslandi. Einnig er talið að Íslendingar hafi fyrst kynnst tóbaki af Böskunum þannig að þeir hafa haft mikil áhrif,“ segir Jenný.  Ef leitað er eftir friði og ró en einnig mörgum áhugaverðum stöðum að skoða og hlutum að gera, er góð hugmynd að heimsækja þennan einn minnsta hrepp landsins og það skemmtilega samfélag sem hann hefur að geyma.

Kaldrananeshreppur
Holtagata • 520 Drangsnes
451 3277
drangsnes@drangsnes.is
www.drangsnes.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga