Greinasafni: Sveitarfélög
Grindavík, einstök saga og upplifun
Næstum allt til alls
Grindavík hefur frá alda öðli verið útgerðarpláss. Gjöful fiskimið eru skammt undan landi og hefur útróður verið stundaður þaðan af harðfylgi allt frá landnámi. Fyrir þá sem leið eiga í Bláa Lónið er tilvalið að bregða sér bæjarleið og sækja heim þetta skemmtilega sjávarpláss. Líf og fjör er alltaf við höfnina og geta sjómenn og aðrir innbyggjarar sagt margar sögur af sjósókn og daglegu lífi í plássinu.

Skreið- og saltfiskverkun hefur verið stunduð um aldir í Grindavík sem og í öðrum sjávarplássum hringinn í kringum landið. Hér er tilvalið að bragða á þessum séríslensku réttum á veitingastað sem tengist safni sem stendur skammt frá höfninni. Er það veitingastaðurinn Mamma mia.

Í Grindavík er margt að sjá. Til að mynda má þar fræðast um jarðfræði svæðisins í Kviku. Þá er hér hægt að standa í tveimur álfum, því hér mætast Ameríkuflekinn og hinn Evrópski. Í Grindavík eru knæpur og veitingahús og þar er einnig að finna Gistihúsið Borg auk glæsilegs tjaldstæðis sem fellur vel í kramið hjá fjölskyldum sem geta notið tilboðsverðs í Bláa Lónið. Þá er hægt að fara í ferðir á öku-tækjum eða á hestbaki og skoða einstök náttúruundur af ýmsu tagi. Fyrir fuglaáhugamenn og þá sem áhuga hafa á jarðfræði er svæðið umhverfis Grindavík hreinasta paradís. Í Grindavík er mikill íþróttaáhugi og þar er stór sundlaug með heitum pottum, rennibraut, barnalaug, sólbaðsaðstöðu og gufubaði. Þá er átján holu golfvöllur skammt frá Bláa Lóninu.

Kvika:  Auðlinda- og menningarhús
Í Kviku eru nú tvær athyglisverðar sýningar. Er annarri þeirra ætlað að fræða gesti um undirstöðuatriði íslenskrar jarðsögu og jarðfræði. Á henni er eðli jarðhita, eldvirkni og jarðskjálfta skýrð á ljósan og lifandi hátt. Á Íslandi eru einstök skilyrði til að sjá og rannsaka flest sem varðar jarðfræði, eldvirkni og jarðhita því að landið er ungt og enn í mótun. Segja má að Ísland sé gluggi inn í fortíðina en jafnframt framtíðina.  Hér á Íslandi eru stærstu jöklar og þar með jökulár Evrópu, mestu há- og lághitasvæðin, óvenjumikil eld- og jarðskjálftavirkni auk stórbrotinnar náttúru. Þetta má allt sjá á sýningunni. Hin sýningin er svo saga saltfiskverkunar á Íslandi þar sem saman fléttast saga sjómennskun, þróun skipa, veiða og vinnslu. Frá lokum hefðbundinnar verbúðarmennsku til þessa dags. 

Sýningin Saltfisksetrið er ljóslifandi saga sjómennsku. Hún er mjög forvitnileg fyrir alla ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn og  ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna.  Ekkert var sparað til að gera sýninguna sem glæsilegasta enda hefur hún vakið mikla athygli. Grindavíkurbær var leiðandi aðili við byggingu setursins í samstarfi við stofnendur þess og aðra styrktaraðila í bænum.  Grindavík sækir í sig veðrið hvað ferðamennsku og upplifanir varðar og ætti enginn að láta fram hjá sér fara að heimsækja þessa sögulegu byggð.

Grindavíkurbær
Víkurbraut 62 • 240 Grindavík
420 1100
grindavik@grindavik.is
www.visitgrindavik.is

myndband um Blálónið  á ensku:
Sjá hér

Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga